Elín Hekla Klemenzdóttir kom í heiminn með látum í sveitinni uppi undir Heklurótum fyrir 64 árum og hefur síðan veri kölluð millinafni sínu enda nefnd eftir einu virkasta eldfjalli Íslands. Allir héldu að móðir hennar, Erla, hefði verið að missa fóstur þegar Hekla fæddist því blæðingin var svo ofboðsleg. Erla var stödd hjá foreldrum sínum að Hólum á Rangárvöllum að hvílast og fá aðstoð við umönnun rúmlega ársgamallar dóttur sinnar þegar fæðing barnsins sem hún gekk með fór af stað.
Settur fæðingardagur Heklu var 15. desember 1960, rétt rúmu ári eftir að eldri systir hennar kom í heiminn en móðir hennar var aðeins gengin 28 vikur á leið með annað barn þegar fæðingin fór af stað 14. september það ár.
Hvað á að gera við barnið?
Þann 14. september fékk héraðslæknirinn á Selfossi, sem þá var Kjartan Magnússon, símtal frá lækninum á Hellu sem vissi að Kjartan var sérfræðingur í fæðingarhjálp og bað hann um að koma að Hólum strax til að aðstoða konu sem væri að missa fóstur því blæðingin væri svo ofboðsleg. Kjartan fór samstundis af stað og þegar hann kom að Hólum hóf hann að aðstoða móðurina og náði að stöðva blæðinguna. Í viðtali við Vísi þann 11. júní 2016 segir Kjartan frá því að hann hafi verið kominn að Hólum um miðnætti og þar sem þá hafi ekki verið rafmagn á bænum hafi verið mjög skuggsýnt innanhúss en vel hlýtt. Kjartan segir að sér hafi gengið vel að losa fylgjuna og Erla hafi verið sæmilega frísk en döpur sem von var þar sem hún hafi haldið að barnið hafi dáið í fæðingunni. Erla var svo veik eftir fæðinguna að ekki var talið óhætt að flytja hana með til Selfoss. ,,Svo vorum við ferðafélagarnir, ég og bílstjórinn, búnir að þiggja kaffi og meðlæti í eldhúsinu og ætluðum að fara að kveðja þegar Haraldur bóndi segir: ,,En hvað á að gera við barnið?“, segir Kjartan.
Barnið andaði
Kjartani hafði skilist í símanum að um fósturlát hefði verið að ræða og þarna var honum vísað á bómullarvafning sem var á dívan í herberginu hjá móðurinni. Inni í vafningnum fann Kjartan ofurlítið stúlkubarn. ,,Líkaminn var líkastur fjaðralausum kjúklingi og andlitið eldrautt og grett en mér til undrunar andaði hún,“ er haft eftir Kjartani í viðtalinu.
Komið fyrir í skókassa númer 43
Kjartan fékk leyfi Erlu til að taka barnið með sér til Selfoss og reyna að gæða það lífi og þá var agnarsmátt barnið aftur vafið inn í bómullina og vöndlinum komið fyrir í skókassa númer 43. ,,Ég settist í farþegasætið á bílnum og hélt kassanum á lofti með útréttum höndum til að hann hristist sem allra minnst þó vegurinn væri holóttur,“ er haft eftir Kjartani.
En þarna var barátta Heklu við að koma í heiminn ekki öll því á leiðinni á Selfoss bilaði bíllinn og senda þurfti annan sjúkrabíl á móti þeim. Þessi kona átti að komast í heiminn.
4 merkur og 34 sentimetrar
Hekla var 4 merkur og 34 sentímetrar við fæðingu og léttist svolítið fyrstu dagana. ,,Ég var á spítalanum á Selfossi til 31. desember þetta ár sem er afmælisdagur mömmu,“ segir Hekla. ,,Hún fékk mig heim þann dag og þá var ég orðin 13 merkur,“ segir hún og brosir.
,,Það voru ekki til súrefniskassar á Selfossi á þessum tíma svo Kjartan safnaði saman hraðsuðukötlum til að búa til gufu til að létta andardrátt minn af því lungu fyrirbura eru sérstaklega viðkvæm. Mér var komið fyrir í hreinu stóru rúmi og ekkert ofan á mér og enginn fékk að annast mig fyrstu sólarhringana nema Kjartan sem kom fyrir pínulítilli sondu ofan í maga minn til að næra mig. Hann útbjó sonduna úr örmjóum þvaglegg og gat þannig matað mig á móðurmjólk, nokkrum millílítrum í einu. Mjólkina fékk hann hjá konum sem voru að eignast börn á sjúkrahúsinu á Selfossi á sama tíma og hann vissi sem var að það var það besta sem hann gat gefið mér.“
Á mörg mjólkursystkini
,,Ég á þess vegna mörg ,,mjólkursystkini“ sem eru börnin sem deildu móður sinni með mér,“ segir Hekla og hlær. Þessir krakkar urðu svo skólasystkini mín síðar. Það er ekki langt síðan haldið var svona Réunion eða endurfundir í tilefni þess að 50 ár voru liðin frá því við fermdumst og þá var einmitt að spjallað um þetta. Við kölluðum okkur mjólkursystkini og ég veit alveg hversu mikið ég á þeim og mæðrum þeirra að þakka. Foreldrar mínir héldu mjög á lofti að ég vissi allt um það hvað margir lögðu fram vinnu við að næra mig og ég geri það sannarlega enn.
Ein þessara kvenna átti heima uppi í sveit og hún hélt áfram að senda móðurmjólk daglega með mjólkurbílnum á sjúkrahúsið í einhverja mánuði eftir að hún fór heim með dóttur sína. Mjólkurbíllinn tók alltaf tóma pela á sjúkrahúsinu og kom með þá fulla frá henni og það getur hver maður séð hvað þetta skipti miklu fyrir mig. Ég kannast við þessa konu enn í dag og hún hefur alltaf átt sinn stað í hjarta mínu. Ég starfaði um tíma á sama stað og systir hennar og fékk þá alltaf fréttir af henni og fylgist enn með henni og veit að hún er enn á lífi.
Var ekki sein til
Hekla segir að móðir hennar hafi sagt sér að hún hafi ekki verið sein til að ráði, máltakan hafi verið eðlileg en tennurnar hafi komið seint og hún hefi verið sein til að ganga. Það hafi samt allt jafnað sig. Hekla var með latt auga sem hún segir að sé algengt hjá fyrirburum en það hafi ekki komið í ljós fyrr en hún byrjaði í skóla. Þá hafi verið of seint að láta hana hafa lepp svo Hekla er því sjónskert á öðru auga. Móðir hennar fékk athugasemdir frá fólki sem sagði að ,,hún skyldi ekki búast við að ég yrði eins og önnur börn“. ,,Þetta sat í mömmu og hún var alltaf að búast við því að það kæmi að því að ég reyndist vera eitthvað skert. En það kom aldrei að því sem betur fer,“ segir Hekla kankvís.
Fjölskylda Kjartans enn okkar bestu vinir
Heklu var alltaf sagt nákvæmlega hvernig hún hefði komið í heiminn og engu leynt. ,,Þegar ég var barn þótti mér þetta svolítið merkilegt en svo komu unglingsárin og þá varð ég bara pirruð og þótti ótrúlega asnalegt að fólk væri að tala um þetta. En líklega kom það til af því að það fylgdi alltaf orðið ,,litla“ á eftir nafninu mínu. Ég var auðvitað svo lítil þegar ég fæddist að ,,litla“ festist við mig. Ég náði samt að verða 158 sentimetrar sem er nú allt í lagi en á viðkvæmum aldri þótti mér þetta leiðinlegt. Síðar lærði ég auðvitað að meta það hvernig allt samfélagið tók þátt í því að ég braggaðist og hversu merkilegt það var að ég skyldi lifa. Mamma var ekki mjög trúuð kona en hún sagði alltaf: ,,Ég á bara einn guð og hann heitir Kjartan Magnússon.“ Hann var sannarlega í guðatölu í fjölskyldunni og það er ómetanlegt að fjölskylda hans hafi glaðst yfir því og leyfa okkur að eiga hlut í honum. Þau eru enn í hópi okkar bestu vina og það var Snjólaug, eiginkona Kjartans, sem átti hugmyndina að Heklunafninu. Börn þeirra voru svo alltaf í sveit á Hólum hjá ömmu og afa þar sem við krakkarnir vorum alltaf líka á sumrin eða eða á næsta bæ, Næfurholti. Kjartan lést fyrir nokkrum árum og við útför hans var sagan af fæðingu minni sögð því honum hafði sjálfum þótt það læknisverk sitt eitt af sínum merkilegustu,“ segir Hekla.
Það hlýtur að hafa verið yfirþyrmandi tilfinning fyrir ungan lækni að hafa bjargað þessu litla barni við þær aðstæður sem forsjónin skammtaði þeim um miðjan vetur uppi í sveit á Íslandi. Hér er Hekla enn í dag 64 árum síðar og saga hennar sannarlega í anda jólanna með fallegan endi.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.