Tengdar greinar

 Lífsins háskólanám

Lukka, Halldóra og Soffía.

Halldóra Viktorsdóttir er komin á efri ár og er ein af þeim sem hefur komist vel áfram í lífinu án þess að hafa farið í langskólanám. Hún fékk sín tækifæri og nýtti þau vel. En í dag eru kröfur til náms sífellt að aukast og samkeppni orðinn meiri og því  erfiðara fyrir ungt fólk á vinnumarkaði. En þegar hún lítur til baka er hún ánægð með ævistarfið. Hún prófaði reyndar að fara í tungumálanám í HÍ en með barn á framfæri og í fullu starfi var því sjálfhætt og einhvern veginn kom hvorki löngun eða tækifæri til að taka aftur upp þráðinn. “Auðvitað finn ég að það er styttri tími eftir en liðinn er en það er allt í lagi á meðan heilsan er góð,” segir þessi lífsglaða kona.

Lestur aðaláhugamálið

Halldóra starfaði við bóka- og blaðaútgáfu í 24 ár, þar af í 20 ár sem framkvæmdastjóri. Tilviljun réð því að Halldóra hóf störf hjá bóka- og blaðaútgáfu en þar fann hún sig á réttri hillu því lestur hefur verið eitt af áhugamálum hennar frá því hún var barn. Hún segist alltaf þurfa að eiga að minnsta kosti eina bók ólesna hverju sinni. ‘’Ég man að ömmu minni fannst ég oft of fljót að láta mig hverfa með bók í höndunum þegar ég átti að vera að gera eitthvað annað. Bækur átti helst að lesa á kvöldin.“ Halldóra les jöfnum höndum prentaðar bækur og tímarit auk þess sem hún les líka mikið á spjaldtölvunni.

Var flugfreyja

Á feralagi um Ísland.

Dýrðarljóminn yfir flugheiminum var síst minni í ungdæmi Halldóru en hann hefur verið síðari ár. Þá voru ferðalög fátíðari svo störf á þeim vettvangi voru mjög eftirsótt. Halldóra sótti um flugfreyjustarf hjá Flugfélagi Íslands eftir stúdentspróf frá MR og starfaði sem slík í tvö ár. Í fluginu kynntist hún Páli Stefánssyni flugstjóra sem þá var flugmaður hjá Flugfélaginu. Halldóra átti son og Páll dóttur áður en þau rugluðu saman reitum og eignuðust tvær dætur saman. Og nú eru barnabörnin orðin 9 og eitt barnabarnabarn. Sá hópur er mjög þéttur og Halldóra og Páll njóta þess mjög að vera samvistum við þau.

Eftir tvö ár sem flugfreyja tók barnauppeldi við í nokkur ár hjá Halldóru.. Á meðan börnin voru að vaxa úr grasi starfaði hún við ýmis hlutastörf, meðal annars þýðingar. Hún hefur þýtt ýmislegt efni af þýsku, ensku og dönsku yfir á íslensku því tungumál hafa alltaf legið vel fyrir henni.

Keyptu hús í Arizona fyrir 20 árum

Páskar í Arizona: Jóhann Kárason tengdasonur, Soffía dóttir, Erna tengdadóttir, Halldóra, Viktor Kári, Þórdís Halldóra, Guðbjörg og Vésteinn barnabörn, Viktor sonur og Stefán barnabarn.

Halldóra segir að þau Pál hafi alltaf dreymt um að eiga samastað þegar þau væru hætt að vinna þar sem væri gott veður á veturna. Tengdasonur þeirra  var síðan að læra flug og fór til Arizona til að safna flugtímum. “Við fórum í heimsókn til þeirra og vorum strax hrifin af staðnum. Síðan vildi þannig til að vinafólk okkar vissi um þennan draum okkar og voru á leiðinni til Arizona til að skoða fasteign. Þau spurðu okkur hvort við vildum ekki bara koma með þeim. Sú ferð endaði þannig að við og þau skrifuðum undir samning um sitt hvort húsið. Síðan fórum við heim til Íslands og margskiptum um skoðun en á endanum varð þetta að veruleika og við sjáum sannarlega ekki eftir því,” segir Halldóra. Fyrstu árin dvöldu þau í sínum fríum í Arizona því þá voru þau bæði að vinna en eftir að starfsævinni lauk hafa þau verið þar frá hausti og fram á vor. Ættingjar þeirra og vinir hafa notið góðs af veru þeirra í hlýjunni í Arizona á veturna og hafa verið iðin við að heimsækja þau. Önnur dóttir þeirra og fjölskylda hennar búa í göngufjarlægð frá þeim og allir njóta góðs af nábýlinu. Í Arizona er töluverður fjöldi Íslendinga bæði við nám og störf og nokkrir hafa keypt hús eftir að hafa verið í heimsókn hjá Halldóru og Páli. “Hér er Íslendingafélag og haldin þorrablót þar sem mæta allt að 140 manns.”

Dóttir þeirra sem nú er nágranni þeirra í Arizona er doktor í sálfræði og starfar á sjúkrahúsi þar. Hún menntaði sig í Bandaríkjunum og að námi loknu tóku hún og eiginmaður hennar þátt í lottói um græna kortið og voru svo heppin að vinna og eru því með  atvinnuleyfi í landinu. “Þau koma gjarnan til Íslands í sumarfrí og skilja börnin eftir hjá okkur til sumardvalar svo þau njóta íslensks sumars og halda  tungumálinu vel við og eiga fjölda af íslenskum vinum,’ segir Halldóra og bætir við að nú á þessum covid tímum séu þau þakklát fyrir að börnin náðu að vera smá tíma á Íslandi í sumar því ekki sé ljóst hvenær þau hjónin komist næst til Arizona.

Börnin nýta tækifærin sem bjóðast

Rólegur tími í Birkilaut, 70 ára unaðsreitur undir Heklurótum.

Eldri dóttir Halldóru og Páls er þekkt sem Lukka í Happ en hún er sjúkraþjálfari að mennt og er um þessar mundir ein af stofnendum nýs fyrirtækis sem kallast Greenfit. Það er fyrirtæki í heilsugeiranum sem nýtir nýjustu tæknilausnir til að hjálpa fólki við að ná hámarksárangri með heilsu sína. Halldóra segist hafa starfað svolítið með Lukku í Happ en láti hana alveg í friði með Greenfit. Hún fylgist bara spennt með hversu vel þeim gengur með fyrirtækið sem er mikil nýjung á Íslandi. “Það er svo óendanlega gaman að fylgjast með öllu þessu duglega fólki sem er í kringum okkur og sjá þau nýta tækifærin sem þeim bjóðast. Í því felst mikil hamingja,” segir Halldóra Viktorsdóttir sem nýtti sannarlega þau tækifæri sem henni buðust í lífinu og er sátt við sitt.

Verja sumrunum alltaf á Íslandi

Tekin í ferð sem börn og barnabörn buðu Halldóru og Páli í fyrra á Snæfellsnes í tilefni af 50 ára brúðkaupsafmæli þeirra.

Halldóra segir hlæjandi frá því að hún og Páll hafi komið sér upp þremur heimilum á langri ævi. “Við eigum hús í Garðabæ sem við leigjum út á veturna því þá erum við í  Arizona. Við erum alltaf á Íslandi á sumrin og þá leigjum við húsið í Arizona út ef við getum. Síðan erum við búin að eiga sælureit uppi undir Heklurótum frá 1971 þar sem við njótum þess mjög að vera. Bústaðurinn er sjötugur og þar er hvorki rennandi vatn né rafmagn,” segir hún og því sannkallaður sumarbústaður og dásamlegur íverustaður yfir sumartímann. Fyrir bragðið er ekki hægt að vera þar á veturna. Við lokum húsinu á haustin og komum þar ekki aftur fyrr en fer að vora. Við eigum góða vini á bæjunum í kring og undir Heklurótum er mjög skemmtilegt samfélag þar  sem flestir tengjast flugi á einhvern hátt. Þar reistum við, ásamt fleiri sumarbústaðaeigendum, félagsheimili við flugvöll sem þar er og eigum líka marga góða vini þar.

Ferðast mikið

Úr 50 ára brúðkaupsafmælisferðinni um Snæfellsnes.

Halldóra og Páll hafa ferðast mikið og eru meðal annars í skemmtilegum ferðahópi sem hefur ferðast vítt og breitt um heiminn. Ferðalögin hafa líka verið farin á Íslandi, upp á öræfi og í skíðaferðir o.s.frv. Þetta er fólk sem tengist flugheiminum en nú verður bið á slíkum ferðalögum vegna covid ástandsins. Í kringum Halldóru og Pál er þéttur hópur bæði vina og ættingja. Börn þeirra og barnabörn tengjast sterkum böndum og eiga athvarf alls staðar sem þau eru, hvort sem er í Arizona, Garðabæ eða uppi undir Heklurótum.

Nýtt áhugamál

Dísa í splunkunýrri peysu sem amma prjónaði.

Halldóra ver miklum tíma í lestur en horfir minna á sjónvarp. Hún gætir þess að stunda einhverja heilaleikfimi á hverjum degi, ræður alltaf talnagátur og spilagátur til að örva heilann. “En nýverið uppgötvaði ég alveg nýtt áhugamál sem heltók mig gersamlega og það er að prjóna,” segir hún og skellihlær. “Ég hef aldrei prjónað að ráði en vinkona mín prjónar hverja flíkina á fætur annarri. Hún hvatti mig til að byrja því þetta væri bara ekkert mál og nú hefði ég tíma. Hún benti mér á að fara í verslun sem heitir þessu skemmtilega nafni “Amma mús handavinnuhús” inni í Fákafeni. Ég fór þangað og sagði sérlega vinalegri konu sem þar var að mig langaði að byrja að prjóna á gamalsaldri. Hún hélt nú að það væri hægur vandi og leiðbeindi mér svo vel að nú er ég búin að prjóna þrjár peysur sem heppnuðust svo vel að nú er ég búin að fá nokkrar pantanir frá barnabörnum,” segir Halldóra. “Ég uppgötvaði að prjónaskapur er svolítið eins og stærðfræðiþraut eða að ráða krossgátu. Árangurinn er mjög hvetjandi og ég mæli sannarlega með prjónaiðkun fyrir þá sem hafa tíma. Svo kenndi góða konan í Ömmu mús handavinnuhús mér að fara á You tube þar sem eru ótrúlega góð kennslumyndbönd í prjónamennsku,” segir Halldóra og skortir ekki verkefni í lífinu.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn ágúst 21, 2020 07:59