Þorgeir í bjarginu

Óttar Guðmundsson

Óttar Guðmundsson geðlæknir skrifar.

Frá því er sagt í Fóstbræðrasögu að Þorgeir Hávarsson fór að tína hvönn í Hornbjargi. Skriða brast undan honum og féll hann við. Honum tókst að grípa í hvannjóla og forðaði sér þannig frá bana. Þorgeir hékk á hvönninni lengi dags enda gat hann ekki hugsað sér að kalla á hjálp. Honum var bjargað seint og um síðir og og dreginn upp úr berginu. Þorgeir sætti sig aldrei við þá smán að annar maður skyldi hafa líf hans á valdi sínu og gat aldrei fyrirgefið lífgjafa sínum. Þetta átti eftir að setja mark sitt á allt hans líf.

Ég hitti gamlan vin minn úr Lauganesskólanum á dögunum. Hann hafði verið veikur. „Hvernig gengur?“ sagði ég? „Alveg ljómandi“ svaraði vinurinn. „Andskoti ertu móður,“ sagði ég. „Þetta er ekki neitt,“ sagði hann, „mæðnari var Gunnar á Hlíðarenda forðum.“ „Já,“ sagði ég, „en þú ert móður í hvíld en Gunnar eftir vopnaviðskipti.“ Hann svaraði engu en hallaði sér fram á nærliggjandi handrið til að ná andanum. „Ertu með verki?“ „Já, í öðrum fætinum.“ „Hvað segja læknarnir við því?“ „Ekki kvartaði Snorri Þorvaldsson Vatnsfirðings þótt af væri fóturinn. Svo ekki fer ég að væla undan smáseyðing.“ Við kvöddumst og gengum varlega út í vorið. Hann var blár á vörunum og stóð á öndinni vegna mæði.

Ég hugsaði hversu gaman það væri fyrir lækna að fá svona sjúkling sem aldrei kvartaði heldur svaraði með frösum úr Íslendingasögum. Reyndar fer slíkum mönnum ört fækkandi. Það er ekki lengur í tísku að bera sig vel. Sannir nútímamenn vilja þjást í beinni útsendingu. Margir velja að opna bloggsíðu á banasænginni og leyfa heiminum að fylgjast með gangi sjúkdómsins allt fram að kistulagningu. Í fjölmiðlum er mikið framboð af viðtölum við fólk með ólæknandi sjúkdóma sem lýsir þjáningum sínum á myndrænan hátt. Nú á dögum skeyta menn engu um gamlan boðskap Hávamála að bera ekki harm sinn á torg.

Þorgeir Hávarsson hefði á okkar tímum tekið af sér „selfie“ á hvönninni og dreift henni á netinu. Sigmaður þyrlunnar hefði dregið hann upp og sagan fengið nýjan endi. Hann hefði sjálfsagt fengið  langa og stranga áfallahjálp til að komast yfir atburðinn.

Sú ákvörðun Þorgeirs að hvorki kvarta né beiðast hjálpar gerði hann ódauðlegan. Enginn man stundinni lengur eftir manni sem dreginn var úr bjarginu af þyrlu og gekk  í grátkór samtímans.

Óttar Guðmundsson júní 13, 2022 07:00