Tengdar greinar

Konur segja öðruvísi sögur

Hópurinn Leikhúslistakonur 50+ (LL50+) fagnaði 10 ára starfsafmæli með pompi og prakt á Hótel Holti nýlega en hópurinn samanstendur af sviðslistakonum sem eru komnar yfir fimmtugt og skapar vettvang til að iðka sína list en einnig að halda við, rækta og skapa ný tengsl kvenna í sviðslistum. Frumkvæði að stofnun hans áttu Edda Björgvins og Hlín Agnarsdóttir en Margrét Rósa Einarsdóttir sem rak metnaðarfulla menningarstarfsemi í Iðnó á þeim tíma opnaði húsið fyrir listakonunum og hvatti þær áfram. Lifðu núna hitti þær Þóreyju Sigþórsdóttur og Hlín Agnarsdóttur, leikkonur með meiru, og tók þær tali.

Edda Björgvins og Hlín Agnars í Láttu ekki deigan síga, Guðmundur sem frumsýnt var í Stúdentakjallaranum fyrir margt löngu.

„Það voru um 80 konur sem komu að því að stofna hópinn á opnum stofnfundi,“ segir Þórey. Hún segist hafa laumað sér inn í félagið þrátt fyrir að hafa ekki haft aldur til, henni hafi fundist þetta áhugavert. „Þetta er hópur alls konar sviðslistakvenna sem skapar vettvang til að iðka sína list og að viðhalda, rækta og skapa ný félagsleg tengsl kvenna í bransanum. Það var eiginlega undirstaða starfseminnar fyrstu árin að hafa aðstöðu í Iðnó. Magga Rósa var mikill bakhjarl. Við splittuðum innkomu af miðasölu en þurftum ekki að borga fasta leigu fyrir afnot af húsnæðinu. Án  Möggu hefðu þessi samtök aldrei tekið flugið,“ segir Þórey sem er formaður félagsins.

Í tilefni af 10 ára afmælinu fæddist sú hugmynd að fá Eddu og Hlín til að semja leikrit fyrir hópinn. Úr því spratt framhald af leikriti þeirra, Láttu ekki deigan síga, Guðmundur frá árinu 1984, sem sló rækilega í gegn, og fjallaði um byltingarsinnuðu´68-kynslóðina. Nýja leikritið heitir Láttu ekki deigan síga, kona! og stefnt er á að setja það á svið á Kvennaárinu 2025, sem væri mjög við hæfi.

Hópur listakvennanna.

Þær stöllur segja mikla þörf fyrir hóp leikhúskvenna á þessum aldri enda fækkar óneitanlega tækifærunum í hefðbundnu leikhúsi þegar konur eru komnar á miðjan aldur en í samþykkt félagsins 50+ segir m.a. „Tilgangur félagsins er að styðja við og kynna þau verk sem meðlimir félagsins setja á svið. Stefna félagsins er að sýna verk eftir konur eða þar sem varpað er ljósi á líf og stöðu kvenna.“

„LL50+ stóð fyrir ýmiss konar dagskrám og uppákomum, setti upp alls konar leiksýningar og fékk inni í Þjóðleikhúskjallaranum þegar Magga Rósa hætti starfsemi í Iðnó,“ segir Hlín og Þórey tekur við: „Ari Matthíasson var þjóðleikhússtjóri á þeim tíma. Hann tók vel á móti okkur þegar við leituðum að nýjum vettvangi og næstu verkefni settum við upp samstarfi við Þjóðleikhúsið en sýningarnar voru í Þjóðleikhúskjallaranum. Fyrsta leiksýningin sem við settum upp þar var Fjallkonan fríð – eða hefur hún hátt árið 2018, í tilefni af 50 ára fullveldisafmæli Íslands. Árið 2019 frumsýndum við ljóðagjörninginn Dansandi ljóð í leikstjórn Eddu Þórarinsdóttur, sem bjó til gjörninginn og byggði hann á völdum ljóðum Gerðar Kristnýjar. Næst kom leikritið Konur og krínólín eftir Eddu Björgvinsdóttur og Helgu Björnsson í styrkri stjórn Eddu Þórarinsdóttur, Kolbrúnar Halldórsdóttur og Ásdísar Magnúsdóttur,“ segir Þórey.

„Með verkum kvenna fáum við annan vinkil á hlutina, konur skrifa öðruvísi um konur og kvenlega reynslu en karlar. Verkið sem við erum að gera núna köllum við póstdramatískan meetoo gamanleik,“ segir Hlín og hlær.

Hópurinn sjálfur býr að miklum mannauði. Í kjölfar síðasta jólafundar tókust hugmyndir á loft þegar það urðu endurfundir með Eddu og Hlín sem leiddu til þess að þær fengu innblástur að nýju verki fyrir hópinn.

Úr verkinu Konur og krínólín.

„Við Edda tókum upp þráðinn eftir 40 ár en við skrifuðum saman leikverkið Láttu ekki deigan síga, Guðmundur og líka Áramótaskaupið árið 1984 ásamt Guðnýju Halldórsdóttur og Kristínu Pálsdóttur,“ segir Hlín, en það skaup lifir enn góðu lífi í hugum fólks enda ógleymanlega fyndið. „Þegar Þórey hafði samband stakk ég upp á að það gæti verið sniðugt að láta verkið fjalla um konurnar sem komu við sögu í upprunalega verkinu, Láttu ekki deigan síga, Guðmundur. Þær eru nú komnar á virðulegan aldur og eignast framhaldslíf í þessu nýja verki. Við skoðum breytingarnar sem hafa orðið á lífi þeirra á öllum þessum árum og hvernig þær eru í dag. Þetta er gamanleikur eins og hitt verkið en auðvitað með dramatískum undirtóni.“

„Við vorum svo heppnar að fá tækifæri til að fara í vinnubúðir á Kolsstöðum í Borgarfirði í boði Helga Eiríkssonar, eða Helga í Lumex. Það var mjög dýrmætt að fá þennan tíma í næði til að spinna og vinna úr hugmyndum. Þarna var leikhópurinn ásamt Hlín sem mun leikstýra verkinu. Við mættum þarna eftir að hafa lesið upprunalega leikritið og fengið smá fyrirmæli til að móta karaktera kvennanna og það var eins og konurnar hefðu beðið eftir að fá að koma fram í dagsljósið, þær runnu þarna fram. Edda og Hlín hafa svo þróað hugmyndirnar áfram,“ segir Þórey.

Konurnar sem birtast á sviðinu núna eru um 40 árum eldri en þegar við sáum þær fyrst. Tvær af leikkonunum léku reyndar líka konurnar ungar, þær Erla Ruth Harðardóttir og Rósa Guðný Þórsdóttir. Fyrir utan þær eru það Edda Þórarinsdóttir, Guðbjörg Thoroddsen, Júlía Hannam, Lilja Þórisdóttir, Vilborg Halldórsdóttir og Þórey Sigþórsdóttir sem skipa leikhópinn. „Við erum líka með einvala lið sem sér um búninga, dans og tónlist, allt konur. Helga Björnsson verður með búninga, Rebekka A. Ingimundardóttir með leikmyndina, Juliette Louste sér um ljósahönnun og Lára Stefánsdóttir útfærir sviðshreyfingar og dans auk þess sem það verður einn leynigestur,“ segir Hlín dularfull.

Þær stöllur hafa í nafni Leikhúslistakvenna 50+ sótt um styrk til Sviðslistasjóðs svo hægt sé að setja þessa einstöku afmælissýningu á svið, öðruvísi verði það ekki hægt. Það verður tilkynnt hverjir fá styrk í janúar en þær segja leikhópinn mjög vongóðan. „Við trúum því að viðhorfin séu að breytast, að sviðslistasenan vilji fyrir alvöru gera alla aldurshópa sviðlista sýnilega og vinna þannig gegn aldursfordómum ekki síður en öðrum fordómum sem birtast okkur í samfélaginu,“ segir Þórey.

Konur yfir miðjum aldri fullar af hugmyndum og reynslu 

„Leikhúsbókmenntirnar skarta ekki mörgum spennandi hlutverkum fyrir konur á okkar aldri. Það er mikil umræða um það hvernig við umgöngumst hópa sem eru jaðarsettir, þó að ég myndi kannski ekki segja að konur komnar yfir miðjan aldur væru jaðarsettar. Enn hefur breyttur heimur og sá raunveruleiki kvenna sem birtist okkur í dag ekki náð inn í leikbókmenntirnar. Virkni kvenna á þessum aldri endurspeglast ekki í hlutverkum eða sviðsverkum sem við sjáum í stóru atvinnuleikhúsunum. Það sýnir sig í öllum félagsfræðilegum rannsóknum um menningarneyslu að það eru konur komnar á miðjan aldur og yfir sem sækja menninguna og draga hina með sér. Ég vona því að Sviðslistasjóður sjái hvað þetta er mikilvægt verkefni og skemmtilegt að fá reyndar og flottar sviðslistakonur til að skapa sýningu sem fjallar um líf kvenna í dag en konur mæta vissulega aldursfordómum, ekki bara í leikhúsinu. Þessi hópur er fullur af lífsþrótti, hugmyndum og reynslu og er sannarlega til í tuskið,“ segir Þórey og Hlín bætir við: „Ég er rúmlega sjötug og ég finn mjög lítinn mun á mér núna og þegar ég var fimmtug eða þrítug, ef eitthvað er þá finnst mér ég aldrei hafa verið betri, til dæmis í skapinu,“ segir hún og skellir upp úr.

Hlín segir áhugavert að gera lífi kvenna frá miðjum aldri skil, þær lifi margbreytilegu lífi og raunveruleiki kvenna birtist öðruvísi í verkum sem skrifuð eru af konum um konur. „Ef við tökum góða höfunda eins og Caryl Churchill, einn helsta leikritahöfund Breta, sem skrifaði Ein komst undan og Ást og upplýsingar sem nýlega var sýnt hér, þá fjallar hún mikið um konur og rannsakar líf þeirra í sínum verkum. Caryl, sem er 86 ára, er dæmi um femínista sem hefur skoðað það hvernig konur hafa það í Bretlandi og hún hefur mjög næmt auga fyrir því hvernig konur hugsa, haga sér og finna til og það endurspeglast svo í verkum hennar.

Ungar konur hafa líka skrifað fyrir leiksvið en þær eru í mikilli framrás þegar kemur að bókmenntum. Ég hef góða innsýn í þetta því ég hef kennt ritlist við Háskóla Íslands undanfarin tólf ár og hef orðið vitni að endurnýjun rithöfunda stéttarinnar. Ég hef séð bæði ungar konur og karla spretta fram sem ljóðskáld og skáldsagnahöfunda en því miður er ekki eins mikið að gerast þegar kemur að sviðslistum. Tækifærin eru einfaldlega ekki nógu mörg en Borgarleikhúsið hefur þó boðið ungum höfundum árssamning til að skrifa fyrir leikhúsið en þar hafa strákarnir eins og t.d. Tyrfingur Tyrfingsson náð langt. Oft er eins og það sé búist við meiru af þeim en stelpunum sem í sjálfu sér eru engar fréttir,“ segir Hlín.

Þarf að skrifa um hóp eldra fólks eins og hann er í dag

Þórey tekur undir að það séu fleiri karlmenn sem fá verk sín sýnd, konur séu meira í samsköpunarverkefnum og það vanti verk um eldra fólk, ekki síst konur. „Í janúar 2023 vorum við með marga eldri leikara í verkinu Ég lifi enn-sönn saga í Tjarnarbíói en sú sýning fjallaði um raunveruleika fólks á síðasta æviskeiðinu. Þar vorum við líka að varpa ljósi á aldursfordóma og hvernig við dæmum fólk úr leik þegar það eldist. Við hættum að sjá það sem virka þátttakendur. Við gerum það líka við miðaldra konur að einhverju leyti. Við sjáum alltof lítið af verkum um konur komnar á efri ár sem eru að gera allskonar hluti, sem er þó raunin. Við teljum að ef það yrði skrifað meira um þennan hóp eins og hann er í dag myndi það breyta viðhorfi fólks. Að heyra sögur og fá innsýn í líf eldra fólks breytir viðhorfi og eykur þekkingu og tengsl og dregur úr fordómum. Annars er alltaf hægt að setja fólk í box og dæma það. Þessi hópur eldra fólks í dag er vel menntaður og þarna er listafólk, vísindafólk og bara alls konar fólk. Leikhús getur breytt sýn og haft áhrif á allt sem þú getur speglað þig í enda voru margir sem sögðu eftir sýningar á verkinu: „vá nú skil ég ömmu, eða mömmu, miklu betur. En núna erum við að gera verk um konur sem speglar hvernig líf kvenna hefur breyst á þessum 40 árum í Láttu ekki deigan síga, kona! Þetta verður sterkur samtímaspegill þar sem fyrra verkið gerist á miklum umbrotatímum með tilliti til jafnréttis og kvenréttinda,“ segir Þórey.

Úr verkinu Fjallkonan fríð – eða hefur hún hátt.

Og Hlín bætir við: „Guðmundur úr gamla verkinu er sá sem tengir konurnar saman. Þær hafa allar eignast börn með honum eftir mislöng sambönd og hlutirnir taka óvænta stefnu þegar þær þurfa að hittast aftur að honum látnum.“

„Verkið er gamanleikur með ljúfsárum undirtóni. Enda ekki við öðru að búast með höfunda eins og Eddu Björgvins og Hlín Agnarsdóttur við stjórnvölinn. Konur á okkar aldri geta hæglega séð sjálfar sig í verkinu og bara allar konur. Við erum fullar tilhlökkunar að sjá fyrrverandi hans Guðmundar lifna við á sviðinu og verða vitni að lífshlaupi þeirra eftir öll þessi ár. Við hér á Íslandi tengjumst örugglega flest stjúpfjölskyldum og þekkjum þetta flókna mynstur þegar við þurfum að halda sambandi við okkar fyrrverandi á alla kanta, þó ekki sé nema fyrir börnin. Ég held að við séum heimsmeistarar í því að standa okkur þar og það er auðvitað öllum þessum stórkostlegu konum að þakka! En það er ekki alltaf auðvelt og við munum sjá brot af þeim reynsluheimi þegar þessar konur hittast yfir líkinu af sínum fyrrverandi og þurfa að taka spjallið,“ segir Þórey að lokum.

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna

Ritstjórn desember 13, 2024 08:06