Kulnun er möguleg á eftirlaunaárum

Margir fara þá leið í lífinu að velja sér starf og mennta sig síðan með hliðsjón af því. Næsta skref er að ráða sig í vinnu og eftir atvikum vinna alla starfsævina á sama stað eða skipta nokkrum sinnum um stað. Síðan kemur að eftirlaunaárunum. Bestu árum lífsins segja sumir en er það svo? Allir gangur er þar á. Kröfur breytast eftir aldursskeiðum en margir eru á öllum aldri fullir eldmóðs og hugsjóna en þurfa að laga sig að eilífum málamiðlunum og smátt og smátt hverfur gleðin og lífið verður kvöð.

Það ástand er kallað kulnun og margir telja það bundið við ungt fólk á besta aldri, að koma sér upp húsnæði og fjölskyldu með alls konar byrðar á herðum sér. En jafnvel eldra fólk, loksins laust undir kvöðum vinnumarkaðarins getur upplifað þetta ástand. Á öllum aldri er hægt að rekast á hinn svokallaða vegg. Þreyttar manneskjur reyna að gera sitt besta en eilífar kröfur og sífellt erfiðari aðstæður leiða til reiði og pirrings. Svo kemur þreytan, áhugaleysið, vonleysið og menn missa alla trú á að hægt sé að breyta hlutunum eða vinna úr þeim. Vaxandi samskiptaörðugleikar draga menn niður þar til á endanum að þeir gefast upp.

Eldarnir slökktir

Maður nokkur sem hafði lent í öngstræti vegna álags tengdu umönnun náins ættingja orðaði þetta þannig: „Ef fólk vill forðast að brenna út ætti það að hætta að hegða sér eins og veröldin sé í björtu báli.“ Dugnaður er mikils metinn í íslensku þjóðfélagi og enn ríkir víða það viðhorf að fólki eigi að bíta á jaxlinn og bölva í hljóði. Ekki krefjast of mikils af öðrum eða biðja um hjálp þótt þeir sjálfir séu að sökkva.

Að brenna út hefur verið líkt við faraldur á Vesturlöndum og streitutengdir sjúkdómar verða sífellt algengari. Helsta ástæða þess að fólk leitar til læknis er þreyta. Það kvartar undan eilífu orkuleysi, þreytu, kvíða og erfiðleikum með svefn. Því vantar einfaldlega hvíld. Það verður æ algengara að fólk brotni niður og gefist upp undan kröfunum. En því miður er ekki hægt að eingöngu að ávísa hvíld eða góðum nætursvefni og málið er leyst. Þegar streituboltinn er tekinn að rúlla er hann fljótur að vinda upp á sig. Hver og einn verður að vinda ofan af sínum og velta fyrir sér hvort hann sé virkilega að lifa lífinu eins og hann kysi helst sjálfur.

Hikaðu ekki við að taka tíma frá bara fyrir þig. Stundaskráin er þéttskrifuð hjá flestum og eitt helsta umkvörtunarefni margra er að þeir hafi aldrei tíma til að gera það sem þeim finnst skemmtilegast. En eftirlaunaárin eiga að snúast einmitt um það að gera það sem okkur finnst skemmtilegt, njóta uppskerunnar eftir langa starfsævi. Þá á ekki að bíða umönnun um veika foreldra, maka sem er að miss heilsuna, barnabörn sem ekki fá pláss á leikskóla eða vini sem eiga engan annan að. Það kann að hljóma eigingjarnt að segja einfaldlega nei, eða hingað og ekki lengra en eftir því sem menn verða eldri þess mikilvægara er að gæta vel að eigin heilsu. Fá næga hvíld og vera góður við sjálfan sig. Það er lágmark að allir eigi að minnsta klukkutíma á dag il endurnæra að endurnæra sjálfan sig andlega og líkamlega.

Sreingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn nóvember 25, 2024 07:00