„Bjartsýnn á að okkar mál verði tekin upp í kjarasamningum“

Forystumenn Landssambands eldri borgara sendu erindi til ASÍ og  stærstu stéttarfélaganna og óskuðu eftir að þeir ræddu um kjör eldri borgara, í samtölum sínum við stjórnvöld samhliða gerð næstu kjarasamninga. Að því búnu áttu þeir samtöl við forystumenn þessara stéttarfélaga. Þeir punktar sem LEB vill að verkalýðsleiðtogarnir taki með sér í viðræðurnar eru:

  • Hækka almennt frítekjumark í 200.000 krónur.
  • Lágmarkslífeyrir verði aldrei lægri en lágmarkslaun á almennum vinnumarkaði.
  • Afnema tekjutengingu vegna atvinnutekna.
  • Lífeyrir og frítekjumörk hækki árlega til samræmis við launavísitölu.
  • Samið verði um afturvirka leiðréttingu á ellilífeyri til samræmis við hækkun verðlags.

Helgi Pétursson

Helgi Pétursson formaður Landssambandsins segir að fulltrúar LEB hafi tekið vel í þessi mál, en efnislegar viðræður um þetta muni fara fram eftir þing ASÍ sem nú stendur fyrir dyrum.  „Auðvitað erum við bjartsýn á að okkar mál verði tekin upp í samningaviðræðunum, miðað við þær jákvæðu undirtektir sem við höfum fengið og þá miklu umfjöllun sem verið hefur um bæði lífeyrismál og húsnæðismál eldri borgara. Nýlegt innlegg Stefáns Ólafssonar um kjör eldri borgara, í Kjarafréttum Eflingar, sýnir aukinn áhuga innan verkalýðshreyfingarinnar á að sinna þessum málum betur.  Ég trúi því einlæglega að okkar málefni verði tekin fyrir við gerð kjarasamninga“, segir hann og minnir á að þessi mál snerti tugþúsundir manna.

Helgi bendir á að eldri borgarar hafi nær allir verið í stéttarfélögum og greitt þar í alls kyns sjóði. Langflestir upplifi að þeir séu ekki lengur með í verkalýðshreyfingunni eftir að þeir fari á eftirlaun og finnist það hart. Það sé misjafnt eftir félögum hvort menn haldi einhverjum réttindum þar eftir að þeir ljúki formlega störfum á vinnumarkaði. „Við erum fyrst og fremst að leita stuðnings við okkar mál. Við vorum ekki hluti af lífskjarasamningnum á sínum tíma og duttum þar alveg út“, segir Helgi  og bætir við að nú séu að koma til skjalanna deildir eftirlaunafólks innan stéttarfélaganna, þannig hafi VR til dæmis stofnað öldungaráð og Sameyki sé með lífeyrisdeild.

Forysta Landssambandsins hyggst taka málið upp við stéttarfélögin á ný, eftir þing ASÍ sem nú stendur yfir.

 

 

 

Ritstjórn október 11, 2022 07:00