Miðstjórn Rafiðnaðarsambands Íslands ákvað á fundi að styðja vel við bakið á Gráa hernum í baráttunni við stjórnvöld vegna þeirra grimmilegu skerðinga sem viðhafðar eru gagnvart þeim sem eru á ellilífeyri. Það er með öllu óásættanlegt að sparnaður sé skertur og með þeim hætti unnið gegn þeirri skynsemi fólks að leggja fyrir og sýna þar með forsjárhyggju fyrir efri ár.
Miðstjórn RSÍ ákvað að leggja til eina og hálfa milljón í málsóknarsjóð Gráa hersins og lýsir yfir vilja til að leggja meira til ef þörf verður á.
Rafiðnaðarsambandið fetar hér í fórspor verkalýðsfélaga sem hafa ákveðið að styðja málaferlin og leggja fé í sjóðinn sem hefur verið stofnaður til að standa straum af málskostnaði. Framsýn stéttarfélag á Húsavík var fyrsta verkalýðsfélagið sem hét stuðningi við málið, en það komst fyrst verulega á skrið eftir að Verslunarmannafélag Reykjavíkur ákvað að leggja fram eina milljón króna í málshöfðunarsjóðinn. Þá hafa nokkrir einstaklingar einnig tilkynnt að þeir muni leggja fram fé til að kosta málaferlin.