Eiríkur Örn Norðdahl fer á kostum í Náttúrulögmálin. Bókin beinlínis leiftrar af frásagnargleði og dásamlegri fyndni. Hér er samt tekist á við ýmsar alvarlegar tilvistarspurningar og örlögunum storkað á séríslenskan hátt. Þessi saga er hreinlega dásamleg frá upphafi til enda.
Prestastefna stendur fyrir dyrum á Ísafirði árið 1925 og þangað eru mættir flestir prestar landsins. Fremstur meðal jafningja er yngsti og fallegasti biskup sem vígður hefur verið til þess embættis hér á landi, séra Jón Hallvarðsson. Hann ætlar sér að það stóra verkefni að ganga milli bols og höfuðs á spíritisma, gamalli hjátrú og forlagatrú landsmanna. Með því að taka mynd af sér fyrir dyrum Ísafjarðarkirkju í hópi sjö presta sem í er að minnsta kosti einn eineygður ætlar hann að sýna fram á að ekki muni ganga eftir gömul spásögn um að fjallið, Gleiðarhjalli, muni hrynja yfir kaupstaðinn. En áætlun biskups fer illilega úr skorðum og bæði bæjarbúar og biskup sjálfur fá að súpa heitara soð en nokkur þolir af þeim sökum.
Eiríkur er frábær stílisti og skrifar ævinlega af mikilli og skemmtilegri kímni. Hann tekur hvorki sjálfan sig né aðra of alvarlega en í þessari sögu leynist djúpur boðskapur. Þarna er hvorki meira né minna verið að fjalla um eðli guðdómsins, kærleikans og stöðu mannsins gagnvart æðri máttarvöldum og náttúruöflunum. Eiríkur gerir þetta listavel og það verður að segjast að suma kafli í þessari löngu bók les maður aftur og aftur vegna þess að þeir eru svo skemmtilegir og umhugsunarverðir.
Eva Halldóra Guðmundsdóttir sviðslistamaður skrifar fyrir Lifðu núna.