Lengra líf en ekki endilega betra líf

Ævilengd fólks hefur farið hækkandi allt frá miðri síðustu öld og lífsgæði eldra fólks vaxið samhliða. Nú óttast margir að þetta muni breytast á næstu áratugum. Hóglífi margra á Vesturlöndum muni gera það að verkum að þeir lifi vissulega lengi en ekki við góða heilsu. Margar og margvíslegar rannsóknir hafa verið gerðar á heilsufari og ævilengd víða um heim og nú er vitað hvað heldur okkur hraustum, glöðum og á lífi.

Á Okinawa-eyju í Japanseyjaklasanum búa óvenjulega margir hundrað ára einstaklingar en íbúar þar lifa lengur en nokkur annar hópur mannkyns hér á jörð. Nánast sömu sögu er að segja um fjallabúa á eynni Sardiníu. Þeir ná flestir mjög háum aldri þótt þeir falli tölfræðilega aðeins neðar á mælistikunni en Japanarnir á Okinawa. Á Sardiníu hefur þetta verið svona allt frá sextándu öld þegar fólk annars staðar í Evrópu mátti teljast heppið ef það náði þrítugsaldri og þótti háaldrað næði það að fagna fimmtugsafmælinu.

Og ekki er nóg með fólkið lifi lengur en aðrir, heldur eru þessir gamlingjar svo hressir og sprækir að þeir skokka um fjöllin, eru minnugir sem fíllinn og ganga almennt í flest störf. En hvað er það sem gerir þessa eyjaskeggja svo hrausta? Vísindamenn eru sannfærðir um að það séu lifnaðarhættir þeirra. Þarna er tiltölulega streitulaust líf, mataræðið er mjög hollt, fólkið hreyfir sig mikið alla ævina og er hluti af mjög samheldnu samfélagi. Sardinía og Okinawa eru meðal svokallaðra bláu svæða en það eru staðir í heiminum þar sem fólk verður eldra en gengur og gerist annars staðar. Veikindi eru þar sjaldgæfari en annars staðar og færri þjást af krónískum sjúkdómum.

Þar höfum við það. Ef við einblínum á það sem þetta fólk gerir er lykillinn að löngu og farsælu lífi einfaldlega lagður í hönd okkar og aðeins eftir stinga honum í lásinn og opna. En það felur í sér að borða mikið af fiski, grænmeti og baunum, minnka neyslu á mjólkurvörum og kjötmeti. Taka til við að hreyfa sig á hverjum degi, fara í göngur, sinna garðyrkju, þrífa, dansa, hjóla, synda eða hvað annað sem veitir þér ánægju. En ekki gleyma að forðast alla streitu og rækta vel tengslin við sína nánustu.

Í dag eru lífslíkur kvenna í kringum 83 ár og karla litlu minni. Hins vegar er það svo að alltof margir á Vesturlöndum geta búist við að síðustu 13-25 árin af þeirra ævi verði lituð af alls konar sjúkdómum og kvillum. Það er ekki spennandi tilhugsun en gott til þess að vita að við getum mikið til stjórnað því sjálf. 20-30% af hreysti okkar ræðst af genum en allt að 80% af því hvernig við kjósum að lifa. Í dag er hægt að skoða genamengi manneskjunnar nokkuð nákvæmlega og merkja hvar hún er veikust fyrir. Sumir vísindamenn vilja meina að í framtíðinni verði það einfaldlega gert hver og einn fái sérsniðið skipulag að sínu besta líferni og með því að fara eftir því geti viðkomandi auðveldlega orðið sprækur og virkur fram yfir hundrað ára afmælið.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

 

Ritstjórn nóvember 19, 2024 09:16