Það virðist vera ákveðin vakning að halda á lofti minningu formæðra sinna. Þannig hafa að undanförnu verið haldnir fyrirlestrar á Þjóðminjasafninu í samstarfi við RIKK, þar sem fólk segir frá ömmum sínum og á morgun, sunnudag, verður í Hannesarholti sögustund þar sem þrjár konur segja frá formæðrum sínum. Þetta eru sagnakonurnar Sigurborg Kr. Hannesdóttir og Sigurbjörg Karlsdóttir, en sérstakur gestur verður Ragnheiður Þóra Grímsdóttir.
Dreymdi um að eignast upphlut
Sigurborg segir frá móðurömmu sinni og nöfnu, verkakonu og einstæðri móður sem dó ung. Hún bjó í Stykkishólmi, átti tvö börn með sitt hvorum manninum og deildi heimili með fjölskyldu Kristínar, hálfsystur sinnar. Sigurborg segir að þetta hafi verið á kreppuárunum og fólk hafi virkilega þurft að hafa fyrir lífinu. Amma hennar hafi unnið í ýmsu sem til féll, saltfiski, dúntekju og farið milli húsa í bænum og þvegið þvotta. „Hún átti sér þann draum að eignast upphlut“, segir Sigurborg. Hún hafi safnað öllu gyllta silfrinu í hann, en ekki náð að ljúka við að sauma hann áður en hún lést. Hún hafi síðan gefið dóttur sinni hann, en hún hafði ekki áhuga á að eignast upphlut. „Ég fékk silfrið og lét sauma á mig upphlut“, segir Sigurborg „og mér þykir vænt um að hafa getað látið þennan draum ömmu minnar rætast“.
Sagan tengir fjölskylduna saman
Sigurborg segir að hennar áhugi á að halda á lofti minningu formæðra sinna hafi kviknað í kringum ættarmót í fjölskyldunni, þar sem henni var falið að segja sögur forfeðranna. Hún var með efni frá frænku sinni sem hún fléttaði saman og setti í samhengi við þjóðfélagsaðstæðurnar sem voru ríkjandi á þeim tíma þegar þetta fólk var uppi. „Sagan tengdi okkur saman“, segir Sigurborg.
Vill deila magnaðri upplifun
Það upplifði hún einnig mjög sterkt þegar ættarmót var haldið með afkomendum langömmu hennar í móðurætt, en hún hafði eignast börn með þremur mönnum. Hver leggur hafði lítið haft af hinum að segja, en þarna var fólk jafnvel að hittast í fyrsta sinn. Þannig kviknaði hugmyndin að verkefninu, Til fundar við formæður. „Mér þótti þetta svo mögnuð upplifun og langaði til að deila henni með öðru fólki“, segir Sigurborg.
Sögustundin í Hannesarholti á sunnudaginn klukkan 16 er öllum opin, en aðgangseyrir er 2000 krónur. Í kjölfarið verður haldið fjögurra vikna námskeið fyrir konur, þar sem þær velja sér sögu einnar formóður til að vinna með.
Frekari upplýsingar má finna á www.ildi.is