Tengdar greinar

Forboðin fæða eftir fimmtugt

Það er best að segja bara eins og er. Að borða hollt eftir fimmtugt krefst aðgerða af tvennum toga. Það þarf að auka neyslu fæðu sem er góð fyrir okkur svo sem eins og berja, grænnar fæðu, heilkorns og mátulega miklla próteina, en minnka neyslu fæðu sem hleðst upp í æðakerfinu og eykur við mittismálið með ótrúlegum hraða.  Þannig byrjar grein sem birtist á vef Bandarísku eftirlaunasamtakanna AARP, sem birtist hér í lauslegri þýðingu Lifðu núna.

Þegar kemur að því síðara af þessu tvennu, er ekki líklegt til árangurs að bannfæra ákveðna fæðu. Hvern langar ekki í súkkalaðibita ef honum er sagt að hann megi alls ekki borða hann?  Það er líklegra til að skila árangri ef menn einbeita sér að þeirri staðreynd að heilsan er mikilvægari en sykuát sem framkallar skyndilega orku. Þegar það er mögulegt segðu nei takk. En  byrjaðu á  því að sleppa þessum fimm fæðutegundum sem eru listaðar upp hér fyrir neðan.

Djúpsteikt fæða sem þrefaldar hitaeiningarnarnar

Ef það hjálpar staldraðu við og hugsaðu um hvernig frönskum kartöflum  eða laukhringjum hefur verið drekkt í mettaðri fitu. Hún hefur mjög neikvæð áhrif á kólesterólmagnið í blóðinu. En hvernig á að minnka neyslu þessara fæðutegunda? Sérfræðingar ráðleggja fólki til dæmis að fjárfesta í svokölluðum Air Fryer og hætta að djúpsteikja matinn, því djúpsteikning þrefaldar fitumagnið í honum. Einnig að borða einungis fitu í aðalmáltíðinni en forðast hana á morgnana og í hádegisverðinum. „Fáið ykkur grillaðan mat, ekki djúpsteiktan“ ráðleggur einn, á meðan annar segir fólki að velja salat í staðinn fyrir franskar kartöflur.

200 gramma skammtur af mat, ætti ekki að innihalda meira en 2 grömm af mettaðri fitu.

Sykraðir drykkir

Gosdrykkir eru ekki eini óvinurinn. Te á flöskum, hvers konar kaffidrykkir og hreinir ávaxtadrykkir, geta verið fullir af sykri. Bent er á að „chai latte“ hjá Starbucks innihaldi 42 grömm af sykri.

Menn eru líka hvattir til að taka ekki of mikið mark á því sem stendur á flöskunum. Þó það sé tekið fram að drykkirnir séu hreinir, teið grænt eða með hunangi, þýði það ekki að þeir innihaldi minni sykur. Heldur ekki þó það sé tekið fram að sykurinn sé lífrænn, kókossykur eða hrásykur. „Sykur er alltaf sykur“, segir næringarfræðingur sem rætt er við í greininni.

Aðalatriðið sé að stefna að því að sykur sé ekki meira en 10% af daglegri hitaeininganeyslu. Ef hitaeiningar sem neytt er yfir daginn eru 2000, þýðir það að sykurneyslan má ekki fara yfir 200 hitaeiningar sem eru 50 grömm af viðbættum sykri á dag.

Sykur sem leynist í mat sem er innpakkaður.

Falinn sykur er að finna í pasta sósum, jógúrt, granóla stöngum, haframjöli í einstaklingspakkningum og í morgunkorni. Hvað er svona slæmt við það? Jú segja sérfræðingarnir, sykurinn veldur álagi á ýmis líffæri, svo sem eins og brisið og lifrina. Það veldur því svo að blóðsykurinn eykst. og blóð triglyceride hækkar, sem getur valdið lifrarbólgu.

Sykur eykur hættuna á hjartasjúkdómum og sykursýki, sjúkdómum sem færast í vöxt eftir því sem fólk eldist. Á þeim tíma ævinnar, þegar hver hitaeining ætti að innihalda góða næringu, þá bætir viðbætti sykurinn við hitaeiningum sem við höfum enga þörf fyrir.

Lykilatriðið er að menn athugi næringargildi vörunnar til að sjá hvort þar er að finna viðbættan sykur. En ekki hafa áhyggur af náttúrulegum sykri í ávöxtum eða mjólk.    

Skyndifæði sem er mikið saltað

Um 75% Bandaríkjamanna yfir sextugt eru með of háan blóðþrýsting. Jafnvel þótt menn séu á lyfjum við því, er ástæða fyrir þá að draga úr saltneyslu. Þó menn telji sig borða lítið salt vegna þess að þeir salta ekki grillaðan kornmat eða súpur velta þeir kannski ekki fyrir sér frosnu pizzunni eða súpudósinni sem þeir voru að hita upp.

Um 75% af saltinu í fæðunni sem við neytum berst til okkar í gegnum unnin mat, ekki saltstaukinn sem við notum. Til að fylgjast með saltinu sem við látum ofan í okkur þarf að lesa innihaldslýsinguna á matvörunni. Saltið þarf að vera 5% eða minna af fæðunni sem við neytum yfir daginn. Fari saltið yfir 20% ættu rauðu ljósin að fara að blikka. Það er einfaldlega orðið of mikið. Lykilatriði er að saltneyslan fari ekki yfir 1.500 eða 2.300 mg á dag.

Snakk sem er sérstaklega mikið unnið

Ef þú borðar eplin ekki af trjánum eða færð mjólkina beint úr kúnni, er megnið af fæðunni sem þú neytir unninn matur. Sérstaklega mikið unninn matur er nokkuð sem menn yfir fimmtugt ættu ekki að setja inn fyrir sínar varir. Lítið unnin vara eins og grænmeti í sérstökum umbúðum, niðursneitt grænmeti og hnetur eru góður matur. Tómatar í dósum og grænmeti er líka fínt.

En margvíslegum aukaefnum er bætt í mikið unna vöru sem er tilbúin til neyslu, svo sem eins og kökuduft, snakk, flögur, tómatsósu, sykraða jógúrt og frosnar pizzur. Salti, rotvarnarefnum og öðrum aukaefnum sem erfitt er að bera fram heitin á, er bætt í þessar vörur í þeim eina tilgangi að gera þær gómsætari fyrir neytandann. Svona fæða er ekki góð fyrir þá sem eru að eldast.

Það vantar trefjar í margar unnar fæðutegundir, einnig efni eins og potassium eða magnesium og þær eru flestar mjög hitaeiningaríkar. Innihalda mikið af fitu og salti. Sérfræðingar segja að sum geymsluefni, eins og til dæmis nítrat geti verið skaðlegt í of háum skömmtum og leiði jafnvel til að menn eldist fyrir aldur fram. En lykilatriðið fyrir heilsuna eftir fimmtugt,  er að gera það að vana að lesa innihaldslýsingar vörunnar í búðinni eða, og það er enn betra, að elda matinn heima.

Ritstjórn mars 30, 2022 06:50