Félag eldri borgara í Reykjavík vill að lífeyrir aldraðra frá almannatryggingum verði hækkaður í þremur áföngum og að miðað verði við neyslukönnun Hagstofunnar. Á aðalfundi FEB sem haldinn var fyrir helgi var samþykkt ályktun þar sem segir að meðaltalsútgjöld einhleypinga til neyslu séu 321 þúsund krónur á mánuði samkvæmt könnun Hagsofunnar. Lífeyrir eldri borgara frá Tryggingstofnun er 192 þúsund krónur á mánuði eftir skatt. Mánaðarlegur mismunur er því 129 þúsund krónur.
Jafnað í áföngum
FEB telur að jafna eigi þennan mun í þremur áföngum, á þremur árum þannig að mánaðarlegur lífeyrir hækki um 43 þúsund krónur í hverjum áfanga. Fyrsti áfangi gæti komið til framkvæmda um næstu áramót. Kjaranefndin skorar á félagsmálaráðherra að beita sér fyrir því við afgreiðslu fjárlaga að fyrsti áfangi leiðréttingarinnar komi til framkvæmda um næstu áramót.
Greiðslur úr lífeyrissjóðum
Þá var samþykkt ályktun um afnám skerðingar tryggingabóta aldraðra hjá TR vegna greiðslna úr lífeyrirssjóði. Í ályktuninni segir að ekki hafi verið reiknað með að greiðslur úr lífeyrissjóði myndu skerða lífeyri aldraðra frá almannatryggingum þegar lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir. Kjarnaefnd FEB skorar á ríkisstjórn og Alþingi að afnema þessar skerðingar. Ef það þyki of kostnaðarsamt að afnema þær í einum áfanga megi gera það í tveimur til þremur áföngum.
Eftir að efna stærsta loforðið
Félag eldri borgara í Reykjavík vill líka benda á að ríkisstjórnin er aðeins búin framkvæma lítinn hluta þeirra kosningaloforða, sem öldruðum og öryrkjum voru gefin fyrir síðustu alþingiskosningar. Eftir sé að hrinda stærsta kosningaloforðinu í framkvæmd sem sé að leiðrétta kjaragliðnun krepputímans en það kosti ríkið 17 milljarða að efna það loforð.