Gullveig Sæmundsdóttir, fyrrverandi ritsjóri skrifar.
Flestir gera sér dagamun á ákveðnum tímamótum eins og jólum, áramótum og stórafmælum. En það má líka segja að hver dagur og hver stund séu viss tímamót. Í gærkvöldi var himinninn rauðbleikur þegar sólin var að ganga til viðar og í morgun var birtan óvenju falleg. Hvorugt verður endurtekið á nákvæmlega sama hátt. Þess vegna er svo mikilvægt að njóta stundarinnar hverju sinni. Ekkert í lífinu er sjálfgefið og við vitum aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Í rauninni er sú staðreynd að við erum dauðleg eina fullvissa lífsins. Hátíðis- og tyllidagar eru líka mun færri en hversdagarnir og því full ástæða til að gefa þeim síðari gaum. Hinir gleymast ekki svo glatt. 😊
Með árunum beini ég sífellt oftar athyglinni að ýmsum smáatriðum í daglegu lífi sem í raun eru undirstaða tilverunnar. “Hvernig var nóttin? Varstu með verki? Kaffið er til. Viltu ost á brauðið? Heyrðirðu fréttirnar í morgun? Ég las frábæra grein í Morgunblaðinu. Þú ættir endilega að lesa hana. Langar þig í eitthvað sérstakt í kvöldmat?” Allt eru þetta hversdagsleg atriði sem eru samt undirstaða lífsins þegar grannt er skoðað. Svefn og verkir hafa óneitanlega áhrif á allt okkar líf og næring ekki síður. Ég nefni grein í Morgunblaðinu og fréttir sem dæmi um hversdagsleg samskipti sem eru samt óendanlega dýrmæt í fábreytni sinni. Það er mér líka eðlilegt að spyrja vinkonur mínar hvernig þeim líði og hvernig gangi og ég á oft frumkvæði að samskiptum við þær. Ég nefni vinkonur mínar til sögunnar þar sem flestar eru þær á svipuðum aldri og ég og standa frammi fyrir hliðstæðum áskorunum sem tilheyra hækkandi aldri. Mér þykir líka vænt um þegar þær sýna mér hlýju og áhuga. Ekki bara hvað heilsu mína varðar heldur líka þegar þær spyrja kannski hvaða skoðun ég hafi á tilteknu málefni, hvað ég hafi verið að lesa, hvernig hafi gengið með ákveðin verkefni, hvernig fólkinu mínu vegni eða hvort ferðalög séu framundan svo nokkur dæmi séu tekin. Í slíku felst sannarlega engin hnýsni heldur fyrst og fremst alúð og vinátta. Forsenda góðrar vináttu, á öllum aldri, er gagnkvæmur áhugi og virðing.
Ég velti oft fyrir mér muninum á frumkvæði og stjórnsemi og hvort umhyggja geti ekki átt hlut að máli hvað þessi atriði varðar. Miðað við þau störf sem ég hef sinnt um ævina er ljóst að ég er stjórnsöm og vonandi ekkert verulega slæmt um það að segja. Það er nú varla merkilegur kennari sem ekki getur haft stjórn á nemendum sínum og vitanlega hefði ég ekki verið ritstjóri í aldarfjórðung, farsæll þó að ég segi sjálf frá, ef ég gæti ekki stjórnað. Samt finnst mér alltaf viss neikvæður tónn felast í því þegar sagt er að tiltekin persóna sé stjórnsöm. Ekki hvað síst þegar rætt er um konur af minni kynslóð. Þegar við tókum að stjórna var lítil sem engin hefð fyrir því að konur gegndu stjórnunarstöðum hér á landi en sem betur fer hefur orðið breyting þar á. Stjórnendur gegna mjög mikilvægu hlutverki. Þeir verða að geta metið og ýtt undir frumkvæði og áhuga samstarfsmanna sinna en þessi atriði eru undirstaða þess að árangur náist og að nýjar og fjölbreyttar hugmyndir líti dagsins ljós og verði að veruleika. Þó að ég hafi hætt fastri vinnu utan heimilis og farið á eftirlaun lagði ég frumkvæðið, eða stjórnsemina, ekki til hliðar, enda kannski aldrei mikilvægari eiginleikar en einmitt þegar aldurinn færist yfir. Við hættum ekki að hugsa, gera eða vera þó að við höfum náð tilteknum aldri og sjálfsagt og eðlilegt að við látum til okkar taka þegar svo ber undir. Ég viðurkenni samt að bestu samskiptin finnst mér felast í því að jafnvægi sé á milli stjórnsemi, frumkvæðis og umhyggju minnar og þeirra sem ég umgengst. Þess vegna gleðst ég alltaf þegar ég fæ skilaboð sem segja til dæmis. “Get ég hjálpað þér? Eigum við að fá okkur hádegismat saman? Ertu til í að koma út að ganga með mér? Máttu vera að því að keyra mig heim? Mig langar að bjóða þér í mat. Eigum við að kíkja í búðir? Ertu heima, ég er að hugsa um að kíkja í heimsókn.”
Ár hvert set ég að mestu upp sama jólaskrautið, baka sömu sortirnar, reyndar fækkar þeim með árunum, og elda svipaðan hátíðamat. Ekki samt á aðfangadag eða gamlársdag því þá er ég svo heppin að njóta samvista við son minn og hans fólk á þeirra heimili. En þrátt fyrir hefðir, siði og venjur breytast þessar hátíðir í takt við tímann. Litlu jólabörnin stækka hratt, verða unglingar og fullorðið fólk og við eldra fólkið eldumst “smátt og smátt” og látum öðruvísi til okkar taka en á árum áður. Það er helst “millikynslóðin”, börn og tengdabörn okkar eldra fólksins og foreldrar jólabarnanna, sem breytast ekki mikið. Trúlega myndu ljósmyndir reyndar sýna að þau hafi líka breyst eitthvað en það sem hefur ekki breyst er að þau bera hitann og þungann af að halda utan um okkur hin, eldra og yngra fólkið, og reyna að sjá til þess að allir njóti sín. Þannig hefur það alltaf verið enda hef ég sjálf verið í þeirra sporum. Samt ekki alveg þeim sömu enda getum við aldrei sett okkur fullkomlega í spor annarra.
Eftir því sem árin færast yfir koma fram ýmis líkamleg merki sem minna okkur á að lífið er stöðugum breytingum undirorpið. Sum eru alvarleg en önnur má rekja til kennitölunnar sem segir sannarlega sína sögu og lýgur ekki.😊 Þessi merki læðast að okkur smátt og smátt og við tökum varla eftir þeim fyrr en þau eru orðin verulega ágeng og jafnvel komin til að vera. Þegar þannig er komið skiptir umhyggja, frumkvæði og stjórnsemi verulegu máli. Það er ekki endilega víst að vinum okkar eða maka líki að við skulum hafa orð á að þau séu að verða bogin í baki, hreyfingarnar orðnar óstöðugar eða að þau séu að verða of grönn og verði að gera eitthvað í málinu. Það séu fyrst og fremst vöðvar sem hafi rýrnað og hættan á að þau hrasi og slasi sig aukist fyrir bragðið. Sumum finnst slíkar athugasemdir bera vott um neikvæða stjórnsemi frekar en velvilja eða umhyggju. Eins og flestir sem komnir eru á minn aldur þekki ég hvoru tveggja af eigin raun og veit að “stjórnsami” makinn tekur af skarið af því að hann finnur og veit að ábyrgð á að breyting verði til batnaðar er ekki síður í hans höndum en makans sem þarf aukna aðstoð. Og vinurinn sem hefur orð á holdafari og bognu baki vill okkur vel. Við verðum líka að geta treyst því að hið opinbera veiti þá aðstoð og aðhlynningu sem leikmenn geta ekki veitt en því miður er misbrestur á því. Fyrir nokkrum áratugum átti ég samtal við hjúkrunarfræðinga um heilbrigðismál. Þær voru sammála um að heilbrigðismarkmið tuttugustu og fyrstu aldarinnar ætti að vera að “bæta lífi við árin – en ekki bara árum við lífið.”Því miður hefur sú draumsýn ekki orðið að veruleika. Meðalævin hefur reyndar lengst en töluvert vantar upp á að nægu lífi hafi verið bætt við tilveru eldra fólks. Ég veit samt vel að við sjálf erum aðalgerendur í eigin lífi og berum mesta ábyrgð á hvernig til tekst.
Fáir komast hjá því að mæta mótlæti eða sorg um ævina og engin ein leið er fær til að takast á við slíkt. Kannski er helst hægt að segja okkur að við verðum að reyna að læra að lifa með því sem við fáum ekki breytt. En þrátt fyrir áföll og mótlæti er ég þakklát fyrir lífið. Ég er þakklát fyrir að búa í landi þar sem hagur og öryggi íbúanna er með því besta sem þekkist í veröldinni þó að alltaf megi gera betur. Ég er þakklát fyrir að eiga einstaklega góð samskipti við fólkið mitt og þakklát fyrir að eiga marga og góða vini. Ég er líka þakklát fyrir að geta stutt við fólkið í kringum mig og tekið af skarið þegar þess gerist þörf. En ég er líka þakklát fyrir frumkvæði annarra í samskiptum við mig. Umhyggja eða stjórnsemi geta dregið úr einmanakennd og aukið lífsgæði okkar. Mér finnst líka mikilvægt að segja frekar “já” en “nei” þegar ég er beðin um að taka þátt í tilteknu verkefni eða gera eitthvað. Þess vegna skrifa ég þennan pistil. Ég finn að ég hef gott af því að velta vöngum. Gleðilega hátíð. Njótið lífsins og tilverunnar.