Skorinort ástarbréf

Jónas Haraldsson.

Jónas Haraldsson blaðamaður skrifar:

Ég minnist þess ekki að svokallaðar pikköpplínur hafi verið til í minni orðabók þegar ég var ungur. Sjálfsagt hafa þær þó verið notaðar þegar þannig stóð á, strákur var skotinn í stelpu eða stelpa í strák – og ákjósanlegast ef það var gagnkvæmt. Á því gat þó verið allur gangur, það muna flestir frá þeim tíma er hormónarnir ólguðu í ungum kroppunum.

Yngra fólk en ég og mín kynslóð veit hins vegar vel að slíkar viðreynslulínur eru til og margar þeirra má jafnvel finna á veraldarvefnum, eins og flest annað. Þær eru misgóðar og ekki endilega víst að þær virki, þótt sjálfsagt sé að prófa.

Sennilega yrði viðreynslumaður, af hvoru kyninu sem er, að hitta á Miðflokksmann ef hann vildi að ná árangri með því að brydda upp á léttu spjalli um þriðja orkupakkann. Hætt er við að aðrir en innvígðir forðuðu sér hið snarasta. Þá er aldeilis óvíst að það beri skjótan árangur að spyrja um skoðun á Evrópusambandinu. Fleira vont má finna á vefnum, eins og til dæmis þessa fullyrðingu í upphafi viðreynslu: „Ef þú værir hestur þá byggir þú í sveit.” Ég sé alls ekki framhald geti orðið á viðræðum, hvað þá sambandi. Lítið skárri er þessi: „Ef þú værir kartafla þá værir þú sæt kartafla.”

Þeir rómantísku geta reynt fyrir sér með þessu, að því er vefurinn segir: „Ég trúði ekki á ást við fyrstu sýn fyrr en ég leit í augun þín,” eða: Ég hljóp svo hratt að ég hrasaði og datt þegar ég sá þig.”

Ef ekkert af þessu gengur má spila út trompinu, að minnsta kosti fyrir þá sælgætissjúku: „Ég er lakkrís, þú ert súkkulaði. Saman erum við Draumur.”

Í þessum efnum er einfaldleikinn sennilega bestur, að koma til dyranna eins og maður er klæddur – og ganga beint til verks. Það gerði 8 ára sonarsonur okkar hjóna á dögunum. Maður getur nefnilega orðið skotinn þótt maður sé bara átta ára gamall. Þessi ljúfi og fallegi drengur býr með foreldrum sínum og systkinum í Danmörku. Þegar haf skilur að ömmu og afa og barnabörnin kemur áðurnefndur veraldarvefur sér vel. Við erum, eins og margir aðrir í svipuðum sporum, með okkar eigin fjölskyldugrúppu á Facebook, þar sem við skiptumst á tíðindum af fjölskyldunni og deilum myndum. Það kemur sér vel því auk dönsku fjölskyldunnar okkar eigum við aðra á Spáni þar sem dóttir okkar býr með sínu fólki. Ónefndur er hinn helmingur stórfjölskyldunnar sem býr hérlendis og sendir okkur sitthvað skemmtilegt frá sínu stússi. Með þessum hætti sjáum við okkar fólk vaxa og dafna – og eigum til í stafrænu albúmi.

Í þennan sarp bættist sem sagt lítil frásögn og mynd af ást okkar manns í Danmörku til skólasystur sinnar, sem líka er átta ára. Þar var ekkert verið að tvínóna við hlutina eða finna tilheyrandi pikköpplínu, enda hefur ljúflingurinn sá sennilega ekki heyrt um slíkt, frekar en afi hans forðum. Hann sendi því fallegu stúlkunni í bekknum, sem brætt hafði hjarta hans, fyrsta ástarbréfið og það án allra málalenginga, raunar aðeins einni spurningu með tveimur valmöguleikum:

„Hei Alba – vil du være min kæreste?

Ja – Nej.”

Þetta stutta en skorinorða ástarbréf undirritaði hann síðan með nafninu sínu.

Joðið í Ja sneri að vísu öfugt en það skrifast sennilega á taugaóstyrk þess sem sendir í fyrsta sinn svo merkilegt bréf. Mestu máli skipti að það var skiljanlegt og ólíklegt að Alba hafi gert sér rellu út af öfugu joði. Nokkur dráttur varð þó á svari Ölbu litlu, sem von er. Þegar maður er bara átta ára kemur fyrsta ástarbréfið trúlega á óvart, hvað þá hin afdráttarlausa spurning.

En ungir menn deyja ekki ráðalausir þegar ástin er annars vegar. Fyrst Alba dró við sig svarið við handskrifaða bréfinu fór okkar maður aðra og nýrri leið að sinni stúlku. Hann sendi henni stutt myndband þar sem hann ávarpaði hana fallega og spurði sem fyrr, hvort hún vildi verða kærastan sín. Hún gæti svarað þessari frómu ósk á morgun eða hinn. Ef svarið væri nei, þá gerði það ekkert til.

Þetta stóðst Alba ekki og sagði já við hinn unga sjarmör. Barnadrengurinn okkar á því sína „kæreste” í bekknum. Það er fallegt orð, hvort heldur er á dönsku eða íslensku og dásamlegt að vita að hjarta þess sem er manni kær slær takt við manns eigið.

Vonandi helst vinskapur barnanna, annað er það nú ekki, á meðan hinn ungi aldur heldur hormónum þeirra í dvala.

Jónas Haraldsson júní 10, 2019 10:00