Magnús Pétursson og bókin um föður hans

Magnús Pétursson fyrrum ráðuneytisstjóri með meiru, hefur skrifað sögu föður síns Péturs Péturssonar og nefnist hún Lífshlaup athafnamanns. Pétur var enda athafnasamur maður. Hann sat á Alþingi fyrir Alþýðuflokkinn, starfaði í Landssmiðjunni, var forstjóri Innkaupastofnunar ríkisins, framkvæmdastjóri Kísiliðjunnar, Álafoss og Norðurstjörnunnar svo það helsta sé nefnt.  Hann var tvíkvæntur og eignaðist átta börn og fósturbörn. Magnús er elsti sonur hans, en hann og bróðir hans Pétur Óli Pétursson ólust upp hjá móðurfólki sínu á Vindheimum í Skagafirði.  Í bókinni er það Magnús sem segir söguna og velur þá leið að taka föður sinn ímynduðu tali og leggja honum orð í munn. „Um frásögn hans má vitanlega deila en ég byggi hana á staðreyndum svo langt sem þær ná. Get í eyður og tengi efnið þannig að úr verði samfelld frásögn og raunsönn lýsing á lífslhlaupi manns sem lifði lungann úr tuttugustu öldinni“ segir hann í formála bókarinnar.

Það eru ýmsir sem setjast við á efri árum og skrá sögu foreldra sinna, forfeðra, eða jafnvel sína eigin sögu. Magnús segir í formálanum að honum hafi orðið hugsað til þess við dánarbeð föður síns að hann vissi allt of lítið um uppruna og störf mannsins sem stóð honum svo nærri að blóðböndum. Síðan segir hann.

Það er gömul saga og ný að stundum aðhefst maður of seint til að svala forvitni um menn og málefni. Eftir því sem aldurinn færist yfir verður stöðugt áleitnara að þekkja eigin bakgrunn og uppruna þeirra sem næst manni standa. Í daglegum önnum fólks á yngri árum er tími og áhugi minni að kynna sér hugðarefni sem þessi. Brauðstritið gengur eðlilega fyrir.

Pétur tyllir sér á bak koparhundi í Central Park

 

Pétur Pétursson var af kominn af bændafólki á Snæfellsnesi, en hugur hans stóð til náms. Að lokum fór hann til náms í New York, nýtrúlofaður móður Magnúsar, sem beið hans í festum í eitt ár. Það var auðvitað ævintýri líkast fyrir hann að koma til heimsborgarinnar til að sækja sér menntun og margt nýtt að sjá og upplifa. En námsdvölin varð ekki löng fyrir ungan mann af alþýðufólki kominn, enda engin námslán á þeim tíma. Það var þó hægt að sækja um tvennskonar styrki á þessum árum, annars vegar fyrir skólagjöldum og uppihaldi, en hins vegar ferðastyrk. Pétur sótti um en fékk afsvar.  Pétri segist svo frá í bókinni.

 

 

Sagan er ekki öll. Undir áramót 1944 endurtók ég umsókn mína og fékk meðmæli hjá Ásgeiri Sigurðssyni, forstjóra Landssmiðjunnar, þar sem hann mælir sterklega með að ég fái styrk til námsins. Umsóknin velktist hjá Menntamálaráði fram eftir öllu árinu 1945 en á endanum var mér veittur 2.000 króna styrkur og er eini styrkurinn sem ég fékk á námsleiðinni. Sendiráðinu í New York var falið að tilkynna mér um úthlutun styrksins og það var gert með bréfi dagsettu 22.maí undirrituðu af Thor Thors sendiherra. Í pósti fékk ég senda ávísun uppá $307.45 sem merkir að gengi krónunnar var 6,50 gagnvart dalnum. Styrkurinn dugði skammt og breytti engu um að ég fór aftur til Íslands að ári liðnu í stórborginni.

Það er áhugavert að lesa þessa sögu, sem jafnframt er aldarspegill og sýnir hvernig aðstæður fólk lifði við á þessum tíma, stöðu þjóðmála, fyrirgreiðslupólitík fyrri tíma, innflutningshöft og margt fleira.

Skömmtun á nauðsynjum hér á landi hófst að nýju fyrir alvöru í ágúst 1947 og varðaði kaffi, skófatnað og byggingavörur. Kaffiskömmtunin var afar óvinsæl meðal almennings og sínu verri en ákvörðun um að skóskammturinn á mann væri eitt skópar á tímabilinu 15.ágúst 1947 til 30.apríl 1948. Inniskór og gúmmískór voru reyndar undanþegnir,

Gefnar voru út skömmtunarbækur sem hvert heimili og einstaklingur átti og til varð svartamarkaður með vörur sem fengust út á skömmtunarseðlana. Bindindismaður gat til dæmis selt á „eftirmarkaði“ áfengiskvótann sinn fyrir sokkabuxur á konuna.

Bræðurnir með Mövehjól frá pabba 1956

 

Magnús segir í sögunni frá samskiptum þeirra bræðra við föður sinn, sem heimsótti þá í sveitina og sendi þeim líka ýmislegt gagnlegt. Þeir fóru svo til höfuðborgarinnar til að hitta hann. Bréfin sem þeir sendu honum voru mjög skemmtileg og hérna er dæmi um bréf sem Magnús sendi föður sínum úr sveitinni, lítill drengur.

 

 

Vindheimar 27.11 ´56

Elsku pabbi minn!

Ég þakka þér fyrir allar sendingarnar í haust og blöðin um daginn. Okkur vantar 16 og 17 blaðið af Sígildum sögum. Ég hef lítið að seia þér pappi minn. Ég hef ekkert farið á skólan í vetur vegna þess að það er altaf verið að vinna við hann, og ég fer líklega ekkert fyrir jól. Ég setti tvær kindur á í haust, ég verð að fara að ynga gránu mína upp, svo að ég gat ekki lagt neitt lamb inn í Kauffélagið en Óli tvö lömb. Við böðuðum kindurnar á laugardagin. Ég fékk oft að keira dráttarvélina þegar við vorum að keyra á túnið í haust. Það var vesta veður hér í daga og oft hefur verið voða kvast og leiðinlegt tíðarfar.

Nú á að fara að leggja miðstöðina í húsið ég held að þetta verði ansi skemtilegt hús. Hirðu pabbi minn þú gleimdir að senda okkur slöngurnar í hjólin okkar. Slöngurnar á hjólin okkar,  slöngu stærðin er 25x 1,75×2 heldur þú sendir þær efa þú hefur tíma til að kaupa þær. Nú hef ég ekki meira að segja þér núna. Allir biðja að heilsa þér.

Vertu blessaður og sæll. Þinn Magnús.

Pétur aðstoðaði Kjarval á tímum innflutningshafta svo hann gæti keypt liti til að mála með. Kjarval launaði honum með þessu málverki sem Magnús Pétursson höfundur bókarinnar stendur hér við

 

Ritstjórn nóvember 10, 2020 07:55