Húsið þótti mjög nýstárlegt

Lifðu núna heldur áfram að birta pistla og myndir af húsunum hans Guðjóns Friðrikssonar, en hann hefur birt myndir og upplýsingar um 160 hús á Facebook. Sjálfur tekur hann nánast allar myndirnar. En hér er pistillinn.

Hús dagsins (145). Gunnarshús Dyngjuvegi 8 í Reykjavík. Í þessu húsi var síðasti bústaður Gunnars Gunnarssonar skálds og Franzisku konu hans. Það sýnir víðsýni þeirra, þegar þau komu í bæinn frá Skriðuklaustri og voru orðin roskin, að fela kornungum arkitekt með nýjar hugmyndir að teikna fyrir sig hús. Sá var Hannes Kr. Davíðsson og var húsið teiknað og byggt á árunum 1950-1952. Það þótti ærið nýstárlegt miðað við hvað fram að því hafði tíðkast hér á landi. Má nefna að stiginn milli hæða er opnu rými í stofunni en ekki í lokuðu stigahúsi. Hæðirnar tvær tengjast í sama rými þar sem ofanljós flæðir niður. Skrifstofa Gunnars á efri hæð er með innanhússglugga með útsýn niður í stofu. Á ytra byrði hússins eru mótaförum leyft að haldast sýnilegum í stað þess að múra veggina slétta og var það nýjung á þeim tíma. Einnig má nefna stóra óskipta hverfiglugga og fleira mætti nefna. Húsið þykir því nokkurt tímamótaverk í íslenskum arkitektúr. Gunnar lést árið 1975 og Franziska ári síðar. Eftir þeirra dag bjó sonardóttir þeirra, Franziska Gunnarsdóttir blaðamaður, í húsinu um skeið en Reykjavíkurborg keypti húsið 1991. Óljóst var í nokkur ár hvað gert yrði við það en sumarið 1997 var gengið frá samningi um ótímabundin afnot Rithöfundasambands Íslands af því. Gunnarshús hefur síðan hýst skrifstofur sambandsins og félaga innan þess og verið félagsheimili rithöfunda. Á Menningarnótt 2012 afhenti Jón Gnarr, þáverandi borgarstjóri, Rithöfundasambandinu húsið til fullrar eignar. Þess skal getið að Franziska yngri var á sínum tíma mikill hvatamaður að því að rithöfundar fengju húsið og lét af hendi ýmis húsgögn úr eigu afa síns og ömmu, sem prýða húsakynni, og einnig röð mynda sem Gunnar Gunnarsson yngi listmálari, faðir hennar, hafði gert við verk föður síns. Í kjallaranum er íbúð til afnota fyrir erlenda rithöfunda sem sækja landið heim. Einnig hefur Sögufélagið fengið inni í húsinu í seinni tíð.

Ritstjórn nóvember 7, 2020 17:25