Kvikmyndaveisla á rigningarpáskum

Það er óvenjumikið framboð af góðum kvikmyndum þessa páska, bæði á VOD leigunni og líka í Ríkissjónvarpinu og  víðar. Fyrir þá sem vilja taka því rólega heima yrir framan sjónvarpið um páskana er stiklað á stóru í kvikmyndaframboðinu hér.

Sem dæmi um myndir í Ríkissjónvarpinu má nefna þessar:

Aldrei of seint, sem sýnd er á föstudaginn langa klukkan 19:40. Þetta er saga íslensku konunnar sem fékk fyrst kvenna leyfi til að giftast bandarískum hermanni og flutti vestur um haf í lok síðari heimsstyrjaldarinnar.

Andið eðlilega

Andið eðlilega er íslensk mynd sem fléttar saman sögum tveggja ólíkra kevnna, íslenskrar einstæðrar móður í húsnæðisvandræðum, sem vinnur við vegabréfaskoðun á Keflavíkurflugvelli og hælisleitanda frá Gíneu-Bissá. Hún er líka sýnd á föstudaginn langa, strax á eftir myndinni Aldrei of seint, eða klukkan 20:25.

Kona fer í stríð, verðlaunamyndin eftir Benedikt Erlingsson verður sýnd í Ríkissjónvarpinu á páskadagskvöld klukkan 21:15, en þar segir frá kórstjóra á fimmtugsaldri sem ákveður að bjarga heiminum.

Sænska myndin The Square, er sýnd á eftir Konu fer í stríð, eða klukkan 22:55. Sú mynd var tilnefnd til Óskarsverðlauna á sínum tíma, sem besta erlenda myndin. Í henni segir frá virtum sýningarstjóra við sænskt nútímalistasafn.

Á VOD-inu er verðlaunamyndin Green Book.  Yndisleg mynd sem segir frá píanista sem er blökkumaður og dyraverði sem er fenginn til að aka honum á tónlistarferðalagi um Suðurríkin á sjöunda áratugnum, en það var hættuspil fyrir blökkumann að vera þar á ferð á þeim tíma. Íslandsvinurinn Viggo Mortensen leikur dyravörðinn og fer á kostum. Þeir sem ekki sáu hana í bíó, geta nú bætt úr því. Það má geta þess að bandarísku efirlaunasamtökin AARP völdu Green Book, bestu myndina fyrir fullorðna á verðlaunahátíð í vetur. Þ.e. fyrir þá sem þeir kalla Grown-ups.

Bohemian Rhapsody

Aðrar myndir sem voru tilnefndar til verðalauna á Oskarsverðlaunahátíðinni síðast, en eru á VOD-inu og hafa verið þar í nokkurn tíma, eru A Star Is Born með Lady Gaga og Bradley Cooper og svo náttúrulega Bohemian Rhapsody, sú fræga mynd um rokkhljómsveitina The Queen og aðalsöngvara hennar Freddie Mercury.

Svo eru alltaf einhverjar gamlar og góðar myndir á VOD-inu sem gaman er að horfa á aftur. Til dæmis myndin Notting Hill, með Julíu Roberts og Hugh Grant. Sígild mynd um heimsfrægu leikkonuna og feimna bóksalann.

Ritstjórn apríl 19, 2019 12:02