Margir búa við endalausa biðlista og kveðja þennan heim án þess að komast að

Ingibjörg H Sverrisdóttir

Það kennir ýmissa grasa í Félagstíðindum Félags eldri borgara í Reykjavík, sem nú hefur verið dreift til þeirra 15.000 félagsmanna sem eru skráðir í félagið. Ingibjörg H Sverrisdóttir formaður félagsins skrifar grein í blaðið um þá endurskoðun sem nú fer fram á vegum ríkisstjórnarinnar á þjónustu við eldra fólk í landinu. Verkefnið heitir Gott að eldast.  Í greininni segir Ingibjörg meðal annars:

Aldraðir eru eðli málsins samkvæmt meirihluti sjúklinga á sjúkrahúsum. Sjúkrahúsin glíma hins vegar við svokallaðan útskriftarvanda. Útskriftarvandinn felst í því að ýmsir, sérstaklega hinir öldruðu sem hafa fengið þá lækningu em unnt er að veita á sjúkrahúsinu, en þurfa áframhaldandi aðstoð heima hjá sér eða á hjúkrunarheimilum fá ekki þessa þjónustu. Þetta fólk geta heiðarleg sjúkrahús auðvitað ekki útskrifað. Afleiðingin er að sjúkrarúm sem nýst gætu fyrir aðra sjúklinga teppast á stpítölunum og hinir öldruðu sem í þeim liggja og aðstandendur þeirra búa við sífellda óvissu og ótta um hvað við taki.

Þetta er auðvitað ástand sem ekkert samfélag með sjálfsvirðingu getur liðið til lengdar. Samt hefur það viðgengist hér árum saman og fer fremur vaxandi en hitt. Ábyrgðin er auðvitað valdhafanna, þeirra sem eru svo duglegir við að rífa af fólki skattana. Þeir hafa ákveðið að verja þessu fé skattgreiðenda í eitthvað allt annað en að sinna nauðsynlegum þörfum aldraðra og fjölskyldna þeirra. Þeir hafa m.a. látið undir höfuð leggjast að byggja nægilegan fjölda hjúkrunarheimila og annað sérhæft húsnæði til að mæta mismunandi þörfum aldraðra.  Og þegar húsnæðið er fyrir hendi berst reksturinn iðulega í bökkum og er jafnvel af vanefnum því hið opinbera þrjóskast við að greiða sannanlegan rekstrarkostnað. Afleiðingin er að fjölmargir aldraðir eru á sífelldum hrakhólum, búa við endalausa biðlista eftir flestri þjónustu sem þeir þurfa á að halda og margir kveðja þennan heim enn á biðlistunum. Tæplega þarf að lýsa þeirri skerðingu á lífsgæðum sem ekki aðeins aldraðir heldur og fjölskyldur þeirra verða fyrir af þessum sökum.

Þetta veðrur að breytast. Aldraðir og fjölskyldur þeirra þurfa að taka höndum saman um að knýja stjórnvöld til að breyta háttum sínum á þessu sviði. Gera þarf stórátak til að koma þessum málum í lag.

Ingibjörg segir í greininin að það sé einnig  að hluta til á ábyrgð eldra fólks að huga að eigin heilsufari, gæta að réttri næringu, hreyfingu og ekki síður að félagsþættinum. Öldrunarþjónustan sé að breytast og fara meira í átt að forvörnum. Fólk vilji gjarnan búa heima hjá sér sem lengst, en þurfi frekari þjónustu við færnimissi.

Ljóst er að búseta á eigin heimili hentar ekki öllum, þó þeir þurfi ekki dvöl á hjúkrunarheimili. Búsetuúrræði eldra fólks þurfa að vera fjölbreyttari til að mæta mismunandi þörfum. Samvera og öryggi veður þungt hjá þeim einstaklingum sem hafa misst færni og eru kvíðnir. Því er nauðsynlegt að hafa aðgang að sjálfstæðri búsetu með ákveðinni vaktþjónustu sem sannarlega er vöntun á.

Smelltu hér til að sjá Félagstíðindin í heild.

 

Ritstjórn apríl 13, 2023 07:00