Mars og Venus missa heyrn

Konur eru tilbúnari að viðurkenna að þær séu farnar að missa heyrn en karlar.

Við höfum lengi vitað að karlar og konur tjá sig á mismunandi hátt – og það gildir líka um hvernig kynin tala um það, þegar þau eru farin að heyra illa. Þetta kemur fram í grein eftir Katherine Bouton á systursíðu Lifðu núna í Bandaríkjunum aarp.org. Greinin fylgir hér í lauslegri þýðingu.

Rannsókn sem var gerð við Háskólann í Harvard leiddi í ljós, að konur eru meira en tvisvar sinnum líklegri til að greina frá því að þær hafi misst heyrn og segja fólki hvernig best sé að tala við þær. Kona myndi til dæmis segja „Ég er búin að missa heyrn á hægra eyranu, viltu færa þig og vera vinstra megin við mig?“

Karlar, sem á annað borð greina frá heyrnartapi, orða það frekar þannig að þeir eigi erfitt með heyrn og eru yfirleitt ekki í því að veita fólki sem reynir að tala við þá, ráð um það hvernig best sé að gera það.

Þeir sem að rannsókninni stóðu telja að karlmönnum myndi ganga betur að eiga við heyrnartapið ef þeir tækju upp viðhorf kvennanna og segðu hlutina bara hreint út.

Konur gefa yfirleitt einfalda skýringu á því, hvers vegna þær hafa misst heyrn og benda þeim sem þær eiga í samræðum við á, hvernig unnt er að hjálpa þeim til að heyra betur.

Það er margt sem hefur áhrif á hvernig fólk ræðir málin. Konur hafa tilhneigingu til að sýna sterkari tilfinningar og eiga auðveldara með augnkontakt í lengri tíma, en karlar. Þetta er mat sérfræðinga.  Það er mikil hjálp í því fyrir þá sem kunna varalestur, að konur tjá sig meira með svipbrigðum, líkamstjáningu og hreyfingum en karlar.  Það er verulegur kostur fyrir marga sem eru heyrnarskertir.

Erfiðleikar í samskiptum fólks með skerta heyrn, kann einnig að stafa af því að fólk notar – eða notar ekki- heyrnartæki.  Könnun sem var gerð í Sviss, meðal tæplega fimm hundruð karlmanna og rúmlega þrjú þúsund og fjögur hundruð kvenna sýndi, að það er líklegra að konurnar noti heyrnartæki reglulega og í lengri tíma hvern dag, en karlarnir. Nýleg rannsókn í Bandaríkjunum meðal eldra fólks, sýndi hins vegar að karlmenn virtust nota heyrnartæki í svipuðum mæli og konurnar.

En bandaríska könnunin sýnir líka – og það gildir áreiðanlega fyrir bæði kynin – að einungis um þriðjungur þeirra sem myndu njóta góðs af að nota heyrnartæki, gerir það.

Það er náttúrulega hindrun í samskiptum fyrir þá sem veigra sér við að nota heyrnartæki, en sýnir að það er full ástæða til að láta tékka í sér heyrnina. Ef læknirinn kemst að þeirri niðurstöðu að þú ættir að nota heyrnartæki, búðu þig þá undir að fá þér slíkt tæki.

 

Ritstjórn apríl 19, 2018 08:05