Fátt vekur jafnástríðufullan áhuga hjá mönnum og matur. Jafnvel þeir sem segjast engan áhuga hafa á mat tala um hann í tíma og ótíma og velta fyrir sér hvað eigi að hafa í matinn og hvað að borða næst. Hjá öðrum er eldamennska áhugmál og ekki undarlegt því það er endalaust hægt að skapa gómsæta, fallega og nærandi rétti. Í ljósi þessa er ekkert skrýtið að gerðir hafi verið ótal sjónvarpsþættir sem hverfast um eldamennsku og fjölmargar kvikmyndir þar sem söguþráðurinn snýst öðrum þræði um mat.
Margir sjónvarpskokkar hafa hlotið heimsfrægð og svo spennandi eru þættir þeirra að meira að segja fólk sem aldrei hefur getað soðið vatn skammlaust fylgist af með af miklum áhuga. Þar nægir að nefna Gordon Ramsey, Nigellu Lawson, Jamie Oliver og Rick Stein. Nú er til að mynda verið að sýna fjórðu þáttaröð The Bear, en þeir þættir fjalla um ungan matreiðslumann sem starfaði við fræga háklassa veitingastaði en snýr heim til að taka við litlum veitingstað bróður síns. Masterchef Gordons Ramseys er einnig í fullum gangi. Boiling Point með Stephen Graham voru sýndir á RÚV nýlega og þá má enn nálgast í sarpinum en þeir fengu frábærar móttökur í Bretlandi þegar þeir voru frumsýndir þar árið 2023. Menn voru líka mjög hrifnir af dönsku þáttaröðinni Bag Enhver Mand sem sýnd var nýlega á RÚV. En kíkjum á nokkrar dásamlegar kvikmyndir þar sem matur leikur stórt hlutverk
Gestaboð Babettu
Babette gæstebud er einstaklega falleg dönsk mynd um frönsku flóttakonuna Babette Hersant sem vinnur í lottó og ákveður að verja vinningnum í að elda dýrindis máltíð handa öldruðum systrum sem hún er þjónustustúlka hjá og vinum þeirra. Myndin er byggð á smásögu eftir Karen Blixen og sýnir hvernig lystisemdir lífsins geta mýkt og opnað fólk þegar það loksins leyfir sér að njóta.
Súkkulaði bræðir alla
Í hinni dásamlegu Chocolat kemur hin unga fallega Vianne til lítils þorps í Frakklandi og opnar súkkulaðiverslun. Hún hefur einstakt lag á að finna út hvers konar molar falla hverjum og einum í geð og smátt og smátt þiðnar siðafestan og harðneskjan í samfélaginu og umburðarlyndið og kærleikurinn vex að sama skapi. Þessi bráðskemmtilega og manneskjulega mynd er byggð á sögu eftir Joanne Harris.
Líkt og vatn og súkkulaði
Allir góðir kokkar vita að súkkulaði og vatn blandast ekki. Það er punkturinn í skáldsögu Lauru Ezquivel og sömuleiðis í mexíkósu kvikmyndinni sem gerð var efiir henni. Hvers vegna í ósköpunum titillinn Como aqua para chocolate var þýddur Kryddlegin hjörtu á íslensku verður hver að svara fyrir sig en saga Titu og Pedro sem elskast en ná ekki saman vegna kreddufestu samfélagsins er heillandi. Titu er ætlað það hlutverk að hugsa um móður sína í ellinni og sú gamla ekki á því að sleppa henni undan skyldum sínum. Tita fær útrás fyrir tilfinningar sínar í eldhúsinu og maturinn sem hún ber á borð er kryddaður ástríðu hennar, reiði, ástúð og gleði. Allir sem borða af matnum smitast og innra með þeim kvikna sömu tilfinningaviðbrögð.
Hundrað feta ferðalag
The Hundred-Foot Journey segir frá Kadam-fjölskyldunni sem hrekst frá Indlandi til Frakklands. Mann fram af manni hefur þessi indverska ætt rekið veitingahús og Hassan elst upp við það frá blautu barnsbeini að anda að sér ilminum af hráefnum, smakka réttina í pottunum hennar mömmu og bragðbæta sjálfur. Þegar fjölskyldan sest að og setur upp veitinghús beint á móti eina staðnum í héraðinu sem státar af tveimur Michelin-stjörnum er ekki að undra að eiganda þess veitinghús lítist ekki á. Helen Mirren leikur Madam Mallory en bæði hún og Kadam-fjölskyldan þurfa að leggja upp í ferðalag yfir götuna. Ferð sem er ekki bara hundrað fet heldur yfir hyldýpisgjá tveggja menningarheima en fljótlega sést að góður matur getur brúað öll bil. Þessi dásamlega mynd er byggð á sögu eftir Richard C. Morais og Lasse Hallström leikstýrir en hann var einnig leikstjóri Chocolate.
Stóra kvöldið
Kvikmyndin Big Night frá árinu 1996 fjallar um tvo bræður sem flytja til Ameríku til að setja þar upp ítalskt veitinghús. Þetta er draumur þeirra en þrátt fyrir snilld Primo í eldhúsinu koma fáir gestir og veitingahúsið rambar á barmi gjaldþrots. Secondo er hinn snjalli almannatengslamaður og hann fær bróður sinn til að fallast á að skella í stórkostlega veislu og bjóða áhrifafólki að smakka í von um að þar með nái þeir að bjarga staðnum. Stanley Tucci leikur Secondo en hann skrifaði einnig handritið að hluta.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.