Með Íslendingasagnabakteríu á háu stigi

Mikil aðsókn hefur verið að námskeiðum um Íslendingasögurnar síðustu áratugi, en Jón Böðvarsson var frumkvöðull í slíku námskeiðahaldi.  Þáttakendur hafa yfirleitt verið þroskað fólk.

Tryggvi Sigurbjarnarson að kenna Gunnlaugs sögu

Tryggvi Sigurbjarnarson að kenna Gunnlaugs sögu

Konur virðast áhugasamari

„Það liggur við að ég haldi það“, segir Tryggvi Sigurbjarnarson, aðspurður hvort áhugi manna á Íslendingasögunum aukist með aldrinum. „Fólk sem er komið á eftirlaun hefur að minnsta kosti meiri tíma og vill gera eitthvað skemmtilegt“.  Tryggvi sem er rafmagnsverkfræðingur að mennt, heldur námskeið í fornsögunum hjá Félagi eldri borgara í vetur, eins og hann hefur gert undanfarin ár.  Rúmlega hundrað manns hafa skráð sig á námskeiðið sem var að hefjast, en nú er verið að lesa Gunnlaugs sögu ormstungu.  Milli 60 og 70% þeirra sem sækja námskeiðið eru konur.

Fjöldinn hefur margfaldast

Tryggvi aðstoðaði Jón Böðvarsson á sínum tíma, einkum við að skipuleggja ferðir á söguslóðir sagnanna sem lesnar voru á námskeiðum hjá honum.  Jón byrjaði með námskeið hjá Tómstundaskólanum, sem fljótlega fóru að vinda uppá sig.   Magnús Jónsson tók við af Jóni og hélt Tryggvi áfram og aðstoðaði hann.   En árið 2010 þegar Tryggvi var hættur að vinna, byrjaði  hann sjálfur að kenna á námskeiðum hjá eldri borgurum.  Hann segir ekkert lát á áhuga fólks fyrir Íslendingasögunum. Á fyrsta fyrirlestrinum sem hann var með voru um 20 manns en núna eru þeir 120.

Ásta Jóhannsdóttir

Ásta Jóhannsdóttir

Mikil örlög

Lifðu núna hitti þennan áhugasama hóp og tók tali þrjá þáttakendur sem áttu það sammerkt að hafa allir verið á fornsagnanámskeiðum áður, jafnvel byrjað hjá Jóni Böðvarssyni.  Ásta Jóhannsdóttir segir að áhuginn á Íslendingasögunum hafi kviknað hjá sér um fimmtugt.  Hennar uppáhaldssaga er Laxdæla.  „Þetta er falleg og fjölbreytt saga“, segir hún, „og mikil örlög.  „Þannig er það líka í lífinu sjálfu, þótt endirinn sé ekki alltaf góður“.  Henni finnst hún líka reka sig á það, að við lifum enn þann dag í dag, eftir vísdómi Íslendingasagnanna.

Inga Björk Sveinsdóttir les söguna á Ipad

Inga Björk Sveinsdóttir hér t.h. les söguna á Ipad

Öll með bakteríuna

Inga Björk Sveinsdóttir er með Íslendingasagnabakteríu. „Ætli við séum ekki öll með hana hér“, segir hún.  Hjá henni blundaði áhuginn á fornsögunum og svo fór hún að hafa meiri tíma.  Henni finnst áhuginn á þeim vera að vakna hjá yngri kynslóðinni og er nýbúin að gefa sonarsonum sínum hljóðsnældu, með Fóstbræðrasögu og Grettissögu.  Egilssaga er í uppáhaldi hjá Ingu Björk.  Það er einkum stíllinn og uppbygging sögunnar sem hrífur hana, auk magnaðra mannlýsinga.

 

Reynir Vilhjálmsson

Reynir Vilhjálmsson

Les Gunnlaugs sögu í annað sinn

Reynir Vilhjálmsson hafði gaman af Íslendingasögunum strax í menntaskóla og las þá Gunnnlaugs sögu ormstungu.  Honum þykir gaman að lesa hana aftur.  Segist vera ættaður af sunnanverðu Snæfellsnesi, þannig að það tengist sögunni.  Þá hafi hann gaman af íslensku sem tungumáli.  En uppáhaldssaga Reynis er Gíslasaga Súrssonar, sem verður einmitt lesin á öðru námskeiði hjá eldri borgurum eftir áramótin.  „Hún er dramatisk“ segir hann og ýmislegt merkilegt í henni svo sem eins og hvernig morðin á Vésteini og Þorgeiri áttu sér stað.

Það kostar 12.500 krónur á námskeiðið hjá Tryggva, fyrir þá sem eru félagsmenn í Félgi eldri borgara, en 14.000 fyrir þá sem ekki eru í félaginu.   Í júní er svo stefnt að ferð til Þrándheims, á söguslóðir Gunnlaugs ormstungu.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá námskeiðinu

 

Ritstjórn október 6, 2014 10:52