Of gamall fyrir BDSM og erótískt jóga?

„Ég er alltof fljótur að segja fólki að ég sé sextugur. Síðan bíð ég eins og þurftafrekur smákrakki eftir að það segi að ég líti alls ekki út fyrir að vera sextugur. Eitt af því sem allsendis óvænt fylgir þessum aldri er að geta ómögulega giskað á aldur fólks undir fertugu, það lítur allt út fyrir að vera sextán. Og ég trúi ekki fagurgalanum um að maður sé í rauninni ekki eldri en manni þykir sjálfum. Endemis þvæla [. . .] Aldur er þroski, ekki tilfinning. Maður er eins gamall og maður man,” segir AA Gill, breskur rithöfundur, pistlahöfundur og gagnrýnandi m.a. í grein sem hann skrifaði í The Sunday Times að áeggjan ritstjórans. Einhverja klisju um að sextugir væru eins og fertugir, skildist honum.

Tilefnið var að þessi kaldhæðni og oft kjaftfori samfélagsrýnir til margra ára átti 60 ára afmæli á dögunum. AA Gill tileinkaði greinina klárum, ofurmenntuðum kollegum sínum, sem eru miklu, miklu yngri en hann, og verða eins og spurningarmerki í framan þegar hann skírskotar til atburða sem honum sjálfum finnst hafa gerst í gær. „Þeir hafa aldrei horft á svart/hvíta bíómynd og skilja ekki muninn á 78, 45 og 33⅓”. Og líklega ekki heldur unga stúlkan, sem bauðst til að standa upp fyrir honum í troðfullum strætisvagni í fyrra. Hann undraðist sjálfur hversu sárlega honum gramdist við hana.

„Allt í einu“ orðinn eldri borgari

Þótt AA Gill, sé breskur í húð og hár, kannast jafnaldrar hans víða í heiminum, svokallaðir Baby Boomers, fæddir 1945 – 1964, efalítið við ýmislegt í lýsingum hans á þeirri upplifun að verða „allt í einu” orðinn eldri borgari. Undrun og þakklæti er AA Gill þó efst í huga, enda var hann sem ungur maður áfengis- og fíkniefnaneytandi, sem læknar höfðu ekki spáð langlífi. Hann sá villur síns vegar og hefur fyrir löngu sigrast á fíkninni, þótt hann þráaðist lengi við að hætta að reykja af því honum fannst hann taka sig svo ljómandi vel út með sígarettuna.

AA Gill fæddist í Edinborg þegar Churchill var forsætisráðherra, vöruskömmtun var við lýði og allir eldri menn sem hann þekkti höfðu barist í fyrri heimsstyrjöldinni og allir ungir í þeirri síðari. Áhrif stríðsins grúfðu yfir og lyktuðu eins og blautar, þungbúnar minningar, segir hann og prísar sig sælan fyrir að tilheyra fyrstu kynslóðinni, sem ólst upp við sjónvarp, popptónlist, miðstöðvarkyndingu og heilsugæslu.

„Allt lafir og ég er of gamall fyrir BDSM og erótískt jóga,” er yfirskrift greinarinnar, sem fer út um víðan völl. Til dæmis segir AA Gill frá jafnaldra sínum, sem eignaðist nýja kærustu, helmingi yngri og forkunnarfagra. Þótt hún drykki í sig hvert einasta orð sem af vörum hans hraut, lét hann hana róa eftir tvo mánuði. Þegar AA Gill spurði hvers vegna í ósköpunum, stúlkan hefði jú verið fullkomin, svaraði hann dapur í bragði að þau hefðu bara ekki átt neitt sameiginlegt. „Eins og hvað?”, spurði AA Gill. „Nú, sjöunda áratuginn,” svaraði vinurinn.

Síðan víkur AA Gill að kynlífi sextugra og segir enga vilja hugsa um að sextugir „geri það”, síst af öllu sextugir. Sjálfur kveðst hann hafa gert lista yfir kynlífsathafnir, sem hann sé orðinn of gamall til að stunda. Framsætið á Alfa Romeo á fullri ferð er í þeirri frásögn. Þá býst hann ekki við að eiga eftir að taka þátt í hlutverkaleik, því hann sé líka orðinn of gamall til að leika sjóræningja, lögregluþjón, víking eða mjólkurpóst. „Kynlífið breytist tvímælalaust. Því svipar minna til íþróttatilburða en áður, er rómantískara, ástríðufyllra, meiri viðburður. Ekki af því að það er fátíðara, heldur af því það er takmörkunum háð.“

Söknuður og eftirsjá

Á stundum kennir angurværðar í greininni. AA Gill viðurkennir að vera farinn að hugsa um þann takmarkaða tíma, sem hann hefur til að öðlast meiri reynslu. Og telja hversu oft hann eigi eftir að gera eitt og annað um ævina, t.d. að borða með gömlum vinum í hádeginu – og hversu marga gamla vini hann eigi á lífi. „Þetta hljómar væmið, en tilfinningin er það ekki. Hún eykur mér unað og viðkvæmni gagnvart öllu – gefur lífinu auka fiðlutóna. Núna staldra ég við til að njóta svo margs; blóma, tunglskins, Schuberts, hádegisverða og bókabúða. Mér stendur líka meira á sama en áður þótt ég þurfi að standa í biðröð, bíða eftir strætó og að símtölum mínum sé svarað eða ég sé fastur í umferðarteppu. Allt þetta kryddar tilveruna og hefur yfir sér melódramatískan blæ, sem ég kann að meta.”

Aldrei áður hefur víðförlari kynslóð litið dagsins ljós en eftirstríðsárakynslóðin, sem gat ferðast tiltölulega ódýrt nánast hvert á land sem var. Þó kannski í minna mæli en unga kynslóðin núna, sem AA Gill telur að sé trúlega víðförlari en Livingstone og Stanley. Sjálfur er hann ævarandi þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að ferðast mikið um dagana og segist sakna sumra staðanna, sem hann hefur komið til.

Þegar hann lítur yfir farinn veg bærist líka með honum annars konar söknuður. Hann sér eftir að hafa ekki ræktað vini sína betur og segir sína kynslóð yfirleitt vera undir sömu sök seld, öfugt við kynslóð foreldranna. „Stríðið kenndi þeim hversu mikils virði vinirnir voru”, segir hann. „Vinir okkar eru ekki einnota, en reynast auðgleymdir. Ég sé eftir að hafa ekki lagt mig meira fram um að halda sambandi við þá, fylgjast með þeim og vera nánari þeim sem mér þótti vænt um. Fjarvera þeirra núna og andvaraleysi mitt áður að þessu leytinu truflar mig.“

AA Gill fjallar um heilsufar, sjúkdóma, tennur og táneglur og óttann við Alzheimer, sem var raunar ekki til í venjulegum orðabókum á hans ungdómsárum. „En á þeim tíma var krabbamein líka talið jafn skammarlegt og hjónaskilnaður,“ minnir hann á og segir að núna sé hræðslan við Alzheimer alltumlykjandi, nokkuð sem við getum ekki gleymt. „Við förum í ræktina, erum með þjálfara og sjálfur stunda ég pilates. Allt er þetta bara viðhald, ég fæ aldrei kropp til að státa mig af á ströndinni [ . . . ] ég vil bara geta klætt mig í sokkana hjálparlaust.“

Líka gengið til góðs

Í lok greinarinnar veltir hann fyrir sér hvernig Baby Boomers kynslóðin hafi svona í heildina staðið sig; kynslóðin sem situr undir ámæli fyrir sjálfselsku, sjálfhverfu og linkind og er jafnframt sökuð um að hafa hækkað húsnæðisverð og gert næstu kynslóð skuldum vafða og heimilislausa. Ekki alsaklaus, viðurkennir hann, en heldur uppi vörnum:

„Við erum fáránlega upptekin af mat, kaupum of marga hluti og eigum of mikið af fötum. En við hófum þó hvorki stríð, a.m.k. ekki mikið, né köstuðum kjarnorkusprengjum á fólk. Við aftengdum kalda stríðið. Þótt látbragð og raunverulegar aðgerðir hafi svolítið þvælst fyrir okkur og við höldum að við bætum heiminn með kröfugöngum og bréfaskriftum, trúðum við almennt á það góða í heildinni.“

Uppúr stendur þó, að mati AA Gill, að eftirstríðsárakynslóðin, var óþreytandi í baráttu sinni fyrir hvers kyns mannréttindum, jöfnuði og sanngirni og sætti sig hvorki við rasisma né ritskoðun og stóð dyggan vörð um tjáningarfrelsi og trúarskoðanir. „Bretland er ríkara, réttlátara og farsælla samfélag en fyrir 60 árum,” fullyrðir hann í lok greinarinnar. Og við þá, sem halda að sú staðhæfingin sé ýkjur og upphafning af hans hálfu og hans kynslóðar, segir hann að þeir hafi enga hugmynd um hversu Bretland var nöturlegt á sjötta áratugnum. Enda voru þeir ekki fæddir.

 

 

Ritstjórn júlí 4, 2014 13:14