Mikil eftirspurn eftir leiguíbúðum aldraðra

Mikil eftirspurn er eftir  leiguíbúðum hjá Leigufélagi aldraðra en vonast er til að íbúðirnar verði tilbúnar í kringum áramót.

Tvö fjölbýlishús eru að rísa við  Sjómannaskólann í Reykjavík. Þar eru í byggingu 51 leiguíbúð á vegum Leigufélags aldraðra hses. Húsið sem stendur nær skólanum er Vatnsholt 3, en hitt húsið sem stendur nær Háteigsveginum er Vatnsholt 1. Ólafur Örn Ingólfsson stjórnarformaður Leigufélagsins segir Vatnsholt 3 lengra komið í byggingu. „Þar er verið að setja upp innréttingar núna og vonandi verða íbúðirnar tilbúnar fyrir áramótin“, segir hann en gerir ráð fyrir að íbúðirnar í hinu húsinu Vatnsholti 1, verði tilbúnar á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.

Ólafur Örn Ingólfsson

200 manns hafa skráð sig í félagið

Á heimasíðu Leigufélagsins www.leigald.is er hægt að skoða íbúðirnar og hvar þær eru staðsettar í húsunum. Til að fá íbúð hjá félaginu verður fólk  að vera skráð í Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni og þurfa einnig að skrá sig í Leigufélag aldraðra. Ólafur Örn segir að yfir 200 manns hafi þegar skráð sig í Leigufélagið og þeir greiði 5.000 krónur í árgjald. „Það sem ræður úrslitum þegar kemur að úthlutun, er hversu lengi viðkomandi hafa verið fullgildir félagar í Leigufélaginu. Þeir sem hafa verið lengst í félaginu eru efstir á úthlutunarlistanum. En það er ekki nóg að skrá sig í Leigufélagið, menn þurfa að greiða árgjaldið til að teljast fullgildir félagar“, segir hann.

Ætlaðar tekjulægra og efnaminna fólki

Samkvæmt lögunum sem leiguíbúðirnar falla undir, lög um almennar íbúðir frá 2016, er úthlutun einnig háð því hversu háar tekjur fólk hefur og hvað það á miklar eignir. Íbúðirnar eru ætlaðar tekjulægra og eignaminna fólki.  Ólafur Örn segir að tekjuviðmiðið gagnist eldra fólki nokkuð vel, en miðað er við tekjur á milli 500 og 600 þúsund  krónur á mánuði. Þeir sem hafi hærri tekjur uppfylli ekki skilyrðin til að fá íbúð hjá Leigufélaginu.  Eignaviðmiðið mætti hins vegar vera hærra að hans mati. Það sé miðað við það í reglugerð að menn eigi ekki meira en 7-8 milljónir króna hreina eign. Leigufélagið hefur átt fund með innviðaráðuneytinu og lagt til  að eignaviðmiðið verði hækkað.

Lægra en markaðsverð á leigumarkaði

Það hefur enn ekki verið gefið út hversu há leigan verður hjá Leigufélagi aldraðra, en félagið er líka með 31 íbúð í byggingu á Akranesi, sem hefur aukið hagkvæmni félagsins og mun að sögn Ólafs stuðla að lægra leiguverði. „Við vitum að þetta verður hagkvæmt og ódýrara en markaðsverð á leigumarkaðinum vegna góðra samninga við birgja og verktaka sem og þess að 30% af framkvæmdakostnaðinum er fjármagnaður með stofnframlögum frá ríki og borg. Þau þarf ekki að greiða tilbaka fyrr en lánin sem eru tekin á íbúðirnar hafa verið greidd upp“.

Hér sést Vatnsholt 3 sem stendur við Sjómannaskólann og er núna verið að innrétta

Hyggjast byggja fleiri leiguíbúðir

Íbúðirnar sem nú eru í byggingu í Vatnsholti eru 2ja og 3ja herbergja, 60-80 fermetrar að stærð og nýtast vel, að sögn Ólafs Arnar. Hann segir félagið hafa fullan hug á að reisa fleiri leiguíbúðir, það sé greinilegt á fjölda félagsmanna í Leigufélaginu að þörfin sé fyrir hendi.  Leigufélag aldraðra hefur þegar fengið vilyrði fyrir lóð við Leirtjörn í Úlfarsárdal og stefnt er að því að hefja framkvæmdir við íbúðir þar á næsta ári.

Ritstjórn ágúst 24, 2022 07:00