Læra að bjarga sér á ensku

„Við erum ekkert á leiðinni á elliheimili“ segir einn ensku nemandinn á enskunámskeiði hjá Félagi eldri borgara í Reykjavík, þegar blaðamaður Lifðu núna heimsækir hópinn. „Nei, það er ekkert pláss fyrir okkur þar“, segir annar og hópurinn hlær. Það er gaman í enskunni og Margrét Sölvadóttir sem kennir hópnum, er ánægð með nemendurna og aðsóknina að námskeiðinu sem byrjaði í haust. Þá byrjaði fyrsti hópurinn og var í sex vikur. Nú er hún hins vegar  að kenna þremur hópum, sem koma einu sinni í viku í Stangarhyl þar sem aðstaða félagsins er.

I would like to have a glass of white wine

Nemendur æfa sig að panta sér mat og drykk

Konurnar sem við hittum fyrir á námskeiðinu, byrjuðu í haust og eru því komnar á eins konar framhaldsnámskeið. Þær eru að lesa upphátt,þegar blaðamaður Lifðu núna bankar á dyrnar og tíminn að verða búinn.

Hvar eru sundfötin?

Þar sem þú settir þau býst ég við.

Eigum við að taka með okkur hádegismat?

Ég hélt að við ætluðum að fá okkur ís og hamborgara.

Þannig lesa þær áfram texta sem þær hafa þýtt, en að lokum kemur Margrét með matseðil, svo þær geti pantað sér mat á ensku, eins og gert er á veitingahúsum erlendis, já og líka á ýmsum veitingastöðum í Reykajvík, ef út í það er farið. Það er byrjað á drykkjunum.

I would like to have a glass of white wine, chardonnay, segir ein kvennanna við borðið

I want to have white wine also, segir önnur

Þegar þær eru búnar að panta bæði vín og mat, lýkur tímanum og Margrét bendir þeim að lokum á skemmtilegan þátt á Netflix, þar sem þær geti æft sig að hlusta á enskuna án þess að hafa texta. Grace and Frankie heitir þátturinn og fjallar um tvær eldri konur og líf þeirra eftir að eigimenn beggja til 40 ára, koma út úr skápnum og skilja við þær til að geta gift sig.

Vildi læra að tala sjálf

Margrét Sölvadóttir

Blaðamaður spyr konurnar hvers vegna þær hafi farið á námskeiðið.  Þær segjast hafa farið til að bæta enskukunnáttuna, fá meiri færni í að tala ensku og halda við þeirri ensku sem þær þegar kunna. Þær eru þarna til að æfa sig að tala og ná framburðinum.  Margrét segir að ein kona sem hafi komið á námskeið hjá henni, hafi viljað læra að tala ensku sjálf, en hún var vön því í útlöndum að eiginmaðurinn sem var góður í að tala, talaði fyrir þau bæði.

Vil að þær tali meira

Hún segir að konunum í hópnum frá í haust, hafi farið mikið fram. „Þær segjast skilja tal í sjónvarpinu betur og vera hættar að horfa jafn mikið á textann og áður“, segir hún og bætir við að hún láti þær lesa og þýða samtöl úr ensku yfir á íslensku og líka öfugt.  Þær skrifi því bæði íslensku og ensku og leggi orðin þannig betur á minnið. Hún leiðrétti það sem er rangt en leggi ekki mikla áherslu á málfræðina, en útskýri hana við leiðréttingar. Hún segir að þær séu mjög góðar að þýða og þurfi varla að nota orðabækur. „Ég vil að þær tali meira, en þær eru stundum óþekkar og skipta yfir í íslensku“, segir Margrét, sem í upphafi námskeiðsins fór vel yfir stafrófið og hljóð í ensku máli.  „Það er grundvallarmarkmið á námskeiðunum hjá mér að nemendurnir læri að bjarga sér á ensku. Ég vil að þeir geti lært að lesa á skilti í útlöndum, lært að taka strætó og svona ýmislegt“, segir hún. „Það virðist vera ánægja með tímana. Ég spurði síðasta hóp hvort óskir væru um að breyta kennslu tilhögun, en það komu ekki fram neinar óskir um breytingar“.

Á námskeiðinu sem Lifðu núna heimsótti var hópurinn sem byrjaði í haust en þá voru í honum átta konur og tveir karlmenn. Margrét segir að á námskeiðunum tveimur sem byrjuðu eftir áramótin séu karlar um þriðjungur nemenda.

 

Ritstjórn janúar 29, 2019 07:53