Kynning

Mikilvægt að byrja snemma að kynna sér lífeyrismál

Víða erlendis byrjar fólk að undirbúa eftirlaunaárin um leið og það ræður sig í sitt fyrsta starf. Hér á landi er mjög mismunandi hvenær og hvort fólk fer að huga að réttindum sínum og stöðu þegar kemur að starfslokum. Björn Berg Gunnarsson fyrirlesari og ráðgjafi er meðal þeirra sem boðið hafa upp á námskeið fyrir þá sem vilja undirbúa þriðja æviskeiðið og tryggja sér efnahagslegan stöðugleika og áhyggjuleysi þegar þar að kemur. Lifðu núna tók hann tali.

Þú veitir fólki alhliða fjármálaráðgjöf en hvers konar námskeið býður þú upp á fyrir þá sem þiggja lífeyri eða eru á mörkum þess að byrja að taka hann?

„Stór hluti minna vinnustunda fer einmitt í að halda námskeið hjá samtökum og vinnustöðum en ég býð auk þess sjálfur upp á námskeið á vefnum og í sal og þar hafa stéttarfélög verið dugleg að styrkja þátttöku félagsmanna,“ segir hann. „Mestur áhugi er á hagnýtri fræðslu um undirbúning starfsloka, Lífeyrismál og starfslok, sem nýtist þeim sem nálgast sextugt og eldri. Ég finn þó fyrir auknum áhuga á lífeyrisnámskeiðum fyrir yngra fólk og held námskeiðið, Lífeyrismál á öllum aldri, nær vikulega í dag, sem gleður mig mjög.

Næsta námskeið mitt um lífeyrismál og starfslok verður haldið á fjarfundi laugardaginn 31. ágúst næstkomandi kl. 9-11 (hlekkur: https://tix.is/is/event/17905/lifeyrismal-og-starfslok/) en nú býð ég auk þess upp á námskeiðið í veffræðslukerfi þar sem þátttakendur fara í gegnum námsefnið á sínum hraða og hafa aðgengi að miklu magni ítarefnis, prófa og tékklista. (hlekkur: https://www.bjornberg.is/namskeid-og-fyrirlestrar/vefnamskeid-lifeyrismal-og-starfslok).

Lífeyrismál á Íslandi flókin

Þegar lífeyrissjóðakerfinu var komið á í kjarasamningum árið 1969 töldu margir að þar með væri velsæld allra tryggð á efri árum. Síðan þá höfum við komist að því að margt spilar þar inn í og hver og einn verður að vera meðvitaður um eigin stöðu. Hvað er að þínu mati mikilvægt að hafa í huga varðandi undirbúning þriðja æviskeiðsins á Íslandi?

„Það mikilvægasta er að kynna sér málin snemma og mjög vandlega. Það hljómar sjálfsagt, en er það ekki. Lífeyrismál á Íslandi eru afar flókin og það er allt of algengt að fólk gefist upp eða treysti sér ekki í að berjast í gegnum efnið. En við höfum engan annan valkost. Ég orða það stundum sem svo að það sé gott að velja sér tvö herbergi á heimilinu í undirbúninginn. Í öðru þeirra fussum við og sveium yfir hvað allt sé flókið og ósanngjarnt og ræðum hvernig það ætti að vera, í hinu bítum við fast á jaxlinn og lærum að skilja okkar réttindi og nýta þau eins vel og kostur er, miðað við okkar þarfir,“ segir Björn með áherslu.

Sumir munu án efa velja sér að dvelja lengur í fyrrnefnda herberginu en því síðarnefnda en þá getur stuðningur og fræðsla einmitt  komið sér vel. Efnahagslegur stöðugleiki er sennilega í forgangi hjá flestum. Eru Íslendingar almennt illa að sér í fjármálastjórnun og illa undir það búnir að hætta að vinna?

„Ég vil ekki ganga svo langt að segja að við séum almennt illa að okkur í fjármálastjórnun enda hitti ég oft fólk sem heldur heimilisbókhald, skipuleggur sig vandlega og fer vel með peninga. En lífeyrisaldurinn getur verið ansi frábrugðinn starfsævinni. Tekjurnar breytast og verða flóknari, við göngum jafnvel á eignir og útgjöld geta auk þess verið mjög ólík eftir því hvaða aldur við lítum á. Þar mættu margir vanda sig betur. Varðandi undirbúning starfsloka erum við því miður almennt mjög illa undirbúin, að því leyti að við þekkjum réttindi okkar og lífeyriskerfið almennt ekki nógu vel til að geta tekið þær ákvarðanir sem koma til með að henta okkur best. Það er synd og þar þurfum við að bæta okkur.“

Borgar sig að vinna markvisst að fjármálalæsi

Hvaða leiðir telur þú bestar til að spara og koma sér vel fyrir þannig að hægt sé að njóta hvers æviskeiðs tiltölulega áhyggjulaust?

„Það er of lítið talað um mikilvægi þess að vinna markvisst að fjármálalæsi barnanna sinna. Ég ræði merkilega oft við fólk sem hefur þurft að aðstoða fullorðin börnin sín fjárhagslega með slíkar fjárhæðir að það hefur veruleg áhrif á stöðu þeirra á lífeyrisaldri. Önnur atriði sem gott er að huga að er að hámarka greiðslur í viðbótarlífeyrissparnað, sem býr til aukinn sveigjanleika við starfslok, greiða skuldir niður sem fyrst á lífsleiðinni og byrja snemma að reikna út þá stöðu sem í stefnir miðað við gefnar forsendur. Því fyrr sem slíkt er gert, því líklegra er að hægt verði að bæta stöðuna og njóta lífeyrisáranna.“

Björn er alvarlegur á svip því staða á húsnæðismarkaði undanfarin ár hefur einmitt gert það að verkum að það hefur færst í vöxt að foreldrar styðji börn sín með lánum eða fyrirframgreiddum arfi til að þau geti keypt fyrstu íbúð. Hann bætir við:

„Það er mikilvægt að vara sig á umræðu um lífeyrismál á Íslandi. Kerfin eru flókin og það getur verið erfitt að átta sig á þeim, en verra er hve mýtur og rangfærslur eru útbreiddar, ekki síst á kaffistofunni og á samfélagsmiðlum. Þessi mál eru of mikilvæg til að við  treystum þeim háværasta í heitapottinum fyrir lífsviðurværi okkar. Ég hvet fólk því til að gefa sér rúman tíma, kynna sér málin vel og vanda sig við útfærslu sinnar lífeyristöku,“ segir hann að lokum.

Frekari upplýsingar um starf Björns má finna á heimsíðu hans; https://www.bjornberg.is/

Ritstjórn ágúst 21, 2024 10:21