Sigurður Kristjánsson er með áunna sykursýki og eftir rúmar tvær vikur á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði, hefur hann náð því að minnka insúlíneiningarnar sem hann notar á hverjum sólarhring, úr 20 í 10. „Ég held mig frá sykrinum“, segir hann „en borða að öðru leyti eins mikið og ég vil enda kom ég líka hingað til að þyngjast og hef þyngst um tvö kíló“.
Byrjaði eldsnemma í tækjasalnum
Sigurður segir að þetta hafi náðst með breyttu mataræði og skipulagðri hreyfingu. „Ég byrjaði til dæmis í tækjasalnum klukkan 6:30 í morgun og eftir morgunmat var það sundleikfimin, en blaðamaður Lifðu núna náði einmitt tali af honum við innisundlaugina á Heilsustofnuninni. Eftið viðtalið var hann svo kominn í göngu upp í fjall.
Regla í mataræði skiptir máli
Sigurður hafði reynt að gera átak í sínum málum heima hjá sér, en það var mikið að gera hjá honum í vinnunni og þetta gekk ekki upp. Það tók hann 4-6 mánuði heima að minnka insúlínmagnið um tvær einingar, úr 20 í 18, en tvær og hálfa viku í Hveragerði að minnka það um helming. „ Ég hefði ekki trúað þessu“, segir hann. „Það skiptir greinilega miklu máli að vera með reglu á mataræðinu“.
Langar ekki í kjöt
Hann segir að það hafi verið frábært að komast í Hveragerði og maturinn hafi komið honum á óvart. Árangurinn af dvölinni sé skýr skilaboð til sín. Nú þurfi hann að temja sér að 90-95% af fæðunni sé úr jurtaríkinu. „Ég horfi á kjötauglýsingarnar frá búðunum í blöðunum og hugsa, nei, mig langar ekkert í þetta“. Hann stefnir að því að vera kominn með insúlínskammtinn niður í 4 einingar þegar dvölinni í Hveragerði lýkur.