Dr.Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar
Barnabarn í Costa Rica hringdi í mig á aðfangadag og spurði hvort maður ætti að borða grautinn á undan eða eftir steikinni. Hann sagði að þetta væri reyndar skrýtinn grautur af því að það væru tvær möndur í honum. Ein ætluð hvorum dreng. Ég sagði honum að venjan í okkar fjölskyldu hefði verið sú að borða grautinn um hádegi og rjúpurnar um kvöldið. Skýringin á þeirri hefð var sú að elsti bróðir minn hafði svo mikið keppnisskap að hann bara varð að fá möndluna. Hann át og át þar til mandlan varð hans. Hann hefði sprungið á staðnum ef rjúpurnar hefðu komið strax í kjölfarið. Þarna lærði ég ung að tapa.
Þegar ég var að alast upp í kringum miðja síðustu öld var helsta tilbreyting helgarinnar að fara á tombólu. Fjölskylda mín bjó ská á móti Alþýðuhúsinu á Akureyri, sem var aðalmiðstöðin fyrir tombólurnar, eða hlutavelturnar eins og þær heita á góðri íslensku. Ég fékk stundum að fara með áðurnefndum bróður á þessa menningarviðburði með nokkra aura upp á vasann. Þær heimsóknir enduðu alltaf með ósköpum. Hann fékk stærstu vinningana og ég dró miða með núlli eða miða með möguleika á vali milli eldspýtustokks eða karmellu. Hann kom heim með stórt útvarpstæki, gullkross eða tuttugu kílóa poka af saltfiski. Listinn yfir vinningana hans var endalaus og glæsilegur. Ég grét.
Seinna í lífinu fékk hann stóra vinninga í Ríkishappdrættinu sem afi hafði gefið okkur miða í. Hann fékk líka umtalsverðar upphæðir í Happdrætti háskólans, en ég fékk aldrei neitt. Hann vann ef hann keypti miða. Einu sinni fann hann spurningalista sem hafði komið inn á heimilið með pakka af dömubindum með vængjum sem dóttir hans hafði keypt. Hann svaraði spurningum vandalega um hvers oft hann notaði vængjuð dömubindi og hvernig honum líkaði við þau. Svörin voru að sjálfstöðu neikvæð, enda er þörf karla fyrir dömubindi takmörkuð. Hann sendi spurningalistann inn í nafni dótturinnar og auðvitað vann hann – ferð fyrir tvo til London. Hann tók frúnna með.
Ég lærði ýmislegt af þessu. Mér er ekki ætlað að eignast nokkuð sem ég hef ekki unnið fyrir. Ég kaupi reyndar oft happdrættismiða fyrir ýmis góðgerðarsamtök, en ýmist hendi ég þeim eða tek ekki við þeim. Ég skil ekki nennu sambýlingsins að fara út í myrkur og hálku til þess að kaupa lottó-miða. Og enn minna skil ég í því af hverju sumir fá alltaf vinning og aðrir ekki. Möndlugrauturinn hefur af gefnu tilefni verið aflagður á mínu heimili.