Njósnari hennar hátignar James Bond er ofursvalur heimsmaður, fljótur að hugsa, skjótur í viðbrögðum og snillingur í að koma sér í og úr vandræðum. Fáar hetjur hafa oftar bjargað heiminum en hann en þessi einstaka hetja lætur ekkert á sjá þrátt fyrir ríflega fimmtíu ára feril á hvíta tjaldinu. Daniel Craig hefur látið af hlutverkinu en enginn veit ennþá hver mun leika Bond í næstu mynd sem væntanleg árið 2026. Nýlega var lekið myndbandi þar sem leit út fyrir að Henry Cavil tæki við keflinu og Margot Robbie léki klækjakvendi sem kæmi njósnaranum í vandræði en þetta er falsað þótt margir hafi verið hrifnir og haldið að þetta væri rétt.
Óhætt er að fullyrða að engar framhaldskvikmyndir hafa náð viðlíka vinsældum og langlífi og James Bond-serían. Hinn upphaflegi Bond var hugarfóstur breska rithöfundarins Ian Fleming. Tvennum og jafnvel þrennum sögum fer af því hver sé fyrirmyndin að njósnaranum. Margir segja að Flemming sjálfur sé Bond, enda starfaði hann með leyniþjónustu breska flotans á stríðsárunum og var þekktur fyrir lúxuslífsstíl og kvennafar. Aðrir hafa fært sannfærandi rök fyrir því að hann sé Íslendingur í húð og hár, nefnilega William Stephenson, bóndasonur fæddur í Kanada en ættaður frá Klungubrekku á Snæfellsnesi. Enn aðrir nefna Gus March-Phillips majór í breska hernum sem leiddi hóp manna í mikilli hættuför inn í spænsku höfnina Fernando Po til að eyðileggja birgðaskip þýsku kafbátanna og lama þannig neðansjávarhernað Þjóðverja. Í fyrra var frumsýnd kvikmynd um þessa aðgerð, The Ministry of Ungentlemanly Warfare en þar var ofannefndur Henry Cavil einmitt í hlutverki Gus. Hvort það svo boðar frekari njósnarahlutverk fyrir hann er óvíst enn.
Flemming gaf ekkert uppi um það hvort hann hafði einhvern tiltekinn mann í huga en hugmyndina fékk hann í sumarfríi á landareign sinni á Jamaica sem nefndist Goldeneye. Hann var mikill áhugamaður um fugla og hafði nýverið lesið bók eftir bandarískan fuglafræðing, James Bond að nafni. „Ég vildi einfalt og venjulegt nafn. Ekki gat ég látið hann heita Peregrine Maltravers,” er haft eftir Fleming.
Fyrsta bókin um Bond kom út árið 1953 og naut fádæma vinsælda. Alls skrifaði Fleming fjórtán bækur og smásögur um ævintýri njósnarans en eftir að hann lést árið 1964 hafa komið út nokkrar bækur um Bond, skrifaðar af ýmsum höfundum.
Þekktastur vegna kvikmyndanna
Líklega myndu fæstir þekkja James Bond nú á dögum ef ekki væri fyrir kvikmyndir Broccoli-fjölskyldunnar um kappann. Sú fjölskylda á höfundarréttinn af persónunni og þær tvær kvikmyndir og ein sjónvarpsmynd um njósnarann sem framleiddar hafa verið í Bandaríkjunum eru almennt ekki taldar ekta Bond-myndir. Ein þeirra var Never say never again sem skartaði Sean Connery í aðalhlutverki, en þar sneri hann aftur sem Bond eftir tólf ára hlé frá persónunni.
Þegar skipt er um Bond-leikara hafa nánast allir hafa skoðun á því, og sýnist sitt hverjum. Flestir eiga sinn uppáhalds Bond, en samkvæmt könnun á einni af fjölmörgum vefsíðum Bondáhugamanna, er Sean Connery í mestu uppáhaldi en fast á hæla hans fylgir sá nýjasti Daniel Craig. Nú er verið að ræða um eftirmann hans og margir nefndir til sögu sem líklegir. Einn þeirra er Idris Elba, þekktastur fyrir túlkun sína á lögreglumanninum Luther. Ef hann hreppir hlutverkið verður það ákveðinn vendipunktur því Idris er þeldökkur.
Eftirfarandi sex leikarar hafa farið með hlutverk Bonds: Sean Connery á árunum 1962–1967 og svo aftur 1971 og 1983, George Lazenby 1969, Roger Moore lék hann á árunum 1973–1985, Timothy Dalton 1987–1989, Pierce Brosnan var í hlutverkinu árin 1995–2002 og Daniel Craig tók svo við árið 2006.
Bond númer eitt
Thomas Sean Connery fæddist árið 1930 í Skotlandi og er í hugum margra hinn eini, sanni Bond. Í byrjun var Ian Fleming ekki sérlega uppveðraður yfir leikaravalinu og kallaði Connery ofmetinn aukaleikara. En síðar átti Fleming eftir að skipta um skoðun. Eftir herskyldu starfaði Connery meðal annars sem mjólkurpóstur og múrari og stundaði kraftlyftingar í frístundum. Hann var fulltrúi Skotlands í keppninni Herra alheimur árið 1950 og eftir það opnuðust honum ýmis tækifæri á leiklistarsviðinu en hann var tiltölulega óþekktur þegar hann hreppti hlutverk Bonds. Orðheppni, kynþokki og fullkomnir mannasiðir einkenna Bond í túlkun Connerys. Hann vildi ekki festast í hlutverkinu og ákvað því að snúa sér að öðru og átti einstaklega farsælan leikferil. Sean Connery lék Bond sjö sinnum og er þar með talinn leikur hans í Never say never again sem reyndar er yfirleitt ekki talin með „alvöru Bond myndum” vegna þess að hún var framleidd af bandarískum aðilum.
Einu sinni Bond
George Lazenby lék Bond aðeins einu sinni. Það var í myndinni On her Majesty’s Secret Service árið 1969. Margir telja myndina vera eina af bestu Bond-myndunum, sumir segja að Lazenby hefði getað orðið besti Bond- leikarinn ef hann hefði fengið tækifæri til að leika hann áfram. Viðbrögð áhorfenda við honum voru hins vegar ekki góð því flestir vildu sinn Connery og engar refjar. Lazenby fæddist í Ástralíu árið 1939 og starfaði við auglýsingagerð og sem fyrirsæta þar til leiklistin kallaði. Eftir að hafa leikið Bond lék hann í nokkrum kvikmyndum og birtist af og til í ýmsum hlutverkum í bandarískum sjónvarpsþáttaröðum. Honum var boðinn samningur um að leika í sjö Bond-myndum en hann afþakkaði, því hann þóttist sjá að hinn smókingklæddi Bond væri tímaskekkja sem passaði illa inn í hippamenninguna sem þá var allsráðandi.
Hinn kímni Bond
Roger Moore lék Bond sjö sinnum, rétt eins og Sean Connery. En það var á miklu lengra tímabili eða á árunum 1973 – 1985. Roger Moore var fyrsti Englendingurinn til að leika breska njósnarann. Hann fæddist í London árið 1927 og var fjörutíu og fimm ára þegar hann tók við hlutverki Bonds og fimmtíu og átta ára þegar hann sagði skilið við hann. Eftir herþjónustu í heimstyrjöldinni síðari hélt hann á vit frægðarinnar í Hollywood og lék þar í hinum ýmsu kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Hann kom til greina sem fyrsti Bondinn en þá var hann samningsbundinn við sjónvarpsþáttagerð. Það var svo árið 1973 sem hann steig fram á sjónarsviðið sem Bond og þó hann væri eldri en Sean Connery þá þótti hann yngja Bond nokkuð upp. Moore lagði mikla áherslu á húmor og hnyttin tilsvör í túlkun sinni á 007. Roger Moore var lengi sendiherra Sameinuðu Þjóðanna og var aðlaður af Englandsdrottningu fyrir starf sitt að góðgerðarmálum.
Hinn myrki Bond
Hinn ítalsk-velski Timothy Dalton fæddist árið 1946. Hann var fyrst og fremst sviðsleikari og lék meðal annars í Konunglega Shakespeare-leikhúsinu en einnig hafði hann leikið í sjónvarpsmyndum og kvikmyndum. Hann lék í tveimur Bond myndum; The Living Daylights og Licence to Kill árin 1987 og 1989. Reyndar var hann ráðinn til að leika í þremur Bond-myndum en vegna lagadeilna dróst framleiðsla þriðju myndarinnar á langinn og Dalton ákvað þá að snúa sér að öðrum hlutum. Með tilkomu Daltons sýndi Bond á sér nýja og alvarlegri hlið en áður hafði sést á hvíta tjaldinu. Hann var meira í stíl við persónuna sem Ian Fleming skapaði upprunalega. Timothy Dalton hefur leikið í fjölda sjónvarpsmynda og kvikmynda frá því hann sagði skilið við Bond.
Írskur Bond
Pierce Brendan Brosnan lék í fyrstu 007 myndinni árið 1995 þegar hann var 42 ára gamall. Hann fæddist á Írlandi árið 1953 og fékk ungur áhuga á leiklist og lék í fjölda leikrita og sjónvarpsþátta. Pierce Brosnan hlaut fyrst frægð í hlutverki Remington Steele í samnefndum sjónvarpsþáttum en þar lék hann heillandi og orðheppinn einkaspæjara. Honum bauðst hlutverk Bonds fyrst árið 1986 en varð að hafna því vegna þess að hann var samningsbundinn annars staðar. En síðar hreppti hann hlutverkið og gegndi því til ársins 2002. Brosnan lék í fjórum Bond myndum og hefur einnig leikið í fjölda annarra kvikmynda.
Ljóshærður Bond
Daniel Craig útskrifaðist úr hinum virta leiklistarskóla Guildhall School of Music and Drama og lék í sinni fyrstu kvikmynd árið 1992. Craig, sem er fæddur árið 1968, hefur leikið í fjölda sjónvarpsþátta, leikrita og kvikmynda og verið tilnefndur til fjölda leiklistarverðlauna. Hann var einn af mörgum sem komu til greina í hlutverk Bonds en meðal keppinauta hans um hlutverkið voru Hugh Jackman, Colin Farrell og Ewan McGregor. Casino Royale var beðið með mikilli eftirvæntingu þegar hún var frumsýnd í nóvember 2006 ekki síst vegna þess að þar var kominn nýr Bond. Flestir eru sammála um að Craig hafi leyst hlutverkið einkar vel af hendi.
Konurnar í lífi Bonds
Ekki er Bond mynd án Bond-stúlku. Þær koma frá hinum ýmsu heimshornum og eru af ólíkum kynþáttum. Þær eiga það eitt sameiginlegt að vera gullfallegar og allar enda þær á milli rekkjuvoða njósnarans. Þær gegna ýmsum störfum, stundum er Bond-stúlkan njósnari og á tímum kalda stríðsins var ekki óalgengt að hún kæmi frá einhverju Austantjaldsríkinu. Af öðrum starfsgreinum Bond-stúlkna má nefna einkaflugmaður, leigumorðingi, smyglari og forritari. Nöfnin er yfirleitt fremur framandi; Honey, Pussy, Plenty, Kissy, Onatop og Jinx.
Óvinirnir
Óvinir Bonds hafa verið af ýmsum toga í gegnum árin og margir hverjir fremur skrautlegir. Bond virðist einkar lagið að komast upp á kant við einstaklinga sem eru illa haldnir af mikilmennskubrjálæði, eins og Dr. No og Elliott Carver. Ýmsum brögðum er beitt í tilraunum til að ráða niðurlögum Bonds, fyrir honum er eitrað á allan mögulegan og ómögulegan hátt, honum er kastað út úr flugvélum og ósjaldan er hann hákarlabeita. En sama hvaða aðferðir eru reyndar; engum tekst ætlunarverkið. Bond hefur sýnt og sannað að hann hefur ekki bara níu líf eins og kötturinn heldur ótæmandi brunn þeirra. Hann er ódauðlegur, að minnsta kosti þar til annað kemur í ljós.