Aðalmeðferð í skerðingamáli Gráa hersins í Hæstarétti fór fram í morgun. Málin eru höfðuð í nafni þriggja einstaklinga, þeirra Ingibjargar H. Sverrisdóttur, Sigríðar Guðmundsdóttur og Wilhelms Wessman. Það er hæstaréttarlögmaðurinn Daníel Ísebarn Ágústsson sem flytur málin fyrir Hæstarétti.
Dómur var kveðinn upp í málinu í Héraðsdómi 22. desember 2021. Þrátt fyrir að málið tapaðist þar, taldi Flóki Ásgeirsson sem fór með málið fyrir Gráa herinn, að niðurstaðan væri áfangasigur. Dómurinn hefði „hafnað bæði vörnum ríkisins sem byggðust á formsatriðum og þeirri megin málsástæðu ríkisins að ellilífeyrir almannatrygginga njóti ekki verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Eftir stendur ágreiningur um það hvort núverandi skerðingar standist þær kröfur um jafnræði og meðalhóf, sem leiða af þessu stjórnarskrárákvæði. Málinu verður áfrýjað og áfram verður því tekist á um þetta fyrir Landsrétti“ eins og hann orðaði það eftur að dómurinn féll. En í kjölfarið var samþykkt í Hæstarétti að málinu yrði áfrýjað beint þangað, þannig að það fór aldrei fyrir Landsrétt. Þetta styttir málsmeðferðina umtalsvert og er búist við að dómur falli í Hæstarétti eftir nokkrar vikur, þannig að endanleg niðurstaða liggi þá fyrir í málinu.