Konur 70% þeirra eldri borgara sem sækja námskeið hjá Endurmenntun

Yfir 2100 manns sem eru orðnir sextugir og eldri, skráðu sig í fyrra á námskeið hjá Endurmenntun HÍ. Um 70% þeirra voru konur, en 30% karlar. Elsti einstaklingurinn sem sótti þessi námskeið er 90 ára. Það var kona sem sótti námskeið í Egils sögu Skalla-Grímssonar í vor. Eldra fólkið sækir hvað mest námskeið um menningu, persónulega hæfni og tungumál  samkvæmt upplýsingum frá EHÍ og  vinsælustu námskeiðin í fyrra voru Íslendingasagnanámskeiðin bæði með Torfa Tulinius og Ásdísi Egilsdóttur. Á vef Endurmenntunar er að finna umsagnir nokkurra nemenda um námskeið Ásdísar um Fóstbræðrasögu sem lauk í byrjun desember.  Af þeim að dæma hefur Ásdís heillað nemendurna upp úr skónum.  Þannig segir einn nemendanna að efnistök kennara og allt skipulag hafi verið frábært. Fjallað hafi verið um efni sögunnar með áhugaverðum tengingum við annað efni. Þannig hafi þeim sem höfðu lesið söguna opnast nýjar víddir. Og klykkt er út með setningunni. „Með bestu námskeiðum sem ég hef sótt í Endurmenntun“.

Hjá EHÍ hlakka menn til að gefa Ármanni Jakobssyni orðið en hann kemur til með að taka fyrir hina rómuðu Flateyjarbók, sögu Ólafs Helga Tryggvasonar á námskeiði á nýju ári. Fyrsta námskeiðið hefst 25.janúar og kostar 36.700 krónur. Kennt verður bæði á staðnum og í fjarkennslu.

Vinsælustu tungumálanámskeiðin í fyrra, voru ítalska með Maurizio Tani og spænska með Steinunni Björk Ragnarsdóttur. Önnur vinsæl námskeið voru Fjármál við starfslok með Birni Berg Gunnarssyni, leikhúsnámskeiðin, jarðfræðinámskeiðin, ritlistarnámskeiðin ásamt námskeiðum í verkefnisstjórnun.

Endurmenntun selur gjafabréf, sem hægt er að gefa þeim í jólagjöf sem eiga allt . Stofnunin samdi við Yay um að selja gjafabréfin og mun sala og ahending þeirra fara í gegnum Yay. Smelltu hér til  að fara á sölusíðu Endurmenntunar hjá Yay.  Þegar búið er að velja upphæð á gjafabréfið er hægt að láta pakka því inn og jafnvel senda skemmtilega kveðju með til viðtakanda. Síðan er hægt að senda gjöfina beint til manneskjunnar sem á að fá hana, eða til kaupanda ef hann vill afhenda hana sjálfur.

 

Ritstjórn desember 17, 2021 16:00