Nöfn á hverfanda hveli

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar

gudrunsg@gmail.com

Nöfn eru mikilvægur þáttur í sjálfsmynd og lífi fólks. Lengi vel gengu ýmis nöfn „í ættir“, sem kallað var. Nánast var hægt að ganga að því vísu að börn reyndu að koma upp nöfnum foreldra sinna eða annarra skyldmenna og jafnvel vina.

Nú er þetta töluvert mikið að breytast. Ungir foreldrar leita ekki síður og jafnvel fremur fyrir sér með nafngiftir til dæmis í fornum og nýjum ritum, í skáldsögum og til vinsælla sjónvarps- og kvikmynda. Tölvuleikirnir gefa líka sumum hugmyndir.

Fyrir nokkru heyrði ég athyglisverða kenningu. Vitað er að nöfn eru það sem einna fyrst fer úr minni fólks er það eldist . Algengt er í samræðum eldra fólks (og jafnvel þess yngra) að þar kemur sögu að vitnað er til einhvers; „hvað heitir hann/hún aftur“. Svo er viðkomandi lýst eftir bestu getu, sagt hvað hann vinnur við, hvaðan hann kemur, hverrar ættar hann er og svo framvegis. Allt kemur fram í hugann  nema nafnið á einstaklingnum sem til umræðu er.

Kenning konu sem ég átti tal við um daginn var að  nöfn gleymdust fyrr en annað vegna þess að þau væru „abstrakt“, hefðu ekki beina tengingu við einstaklinginn. Áður var að hennar sögn nöfn gjarnan lýsing á viðkomandi manneskju. Hún nefndi sem dæmi nafnið Höskuldur sem þýðir að hennar sögn sá ljósi/grái. Við eigum ýmis nöfn sem eru þannig eru vafalaust tilkomin, svo sem Kolbrún, Birta, Hrafn og þannig mætti telja. Sá eða sú sem upphaflega bar nafnið hefur fengið það vegna einkenna sinna. Síðan festist viðkomandi nafn í ættum og var sett á börn sem engan veginn litu út í samræmi við nafnið.

Oft var talað um að þessi eða hinn hafi „fengið nafnið sitt“ þegar skírt er eftir viðkomandi. Áður fyrr voru jafnvel sum barnabörn í meira afhaldi en önnur vegna nafna sinna. Sá sem heitið var eftir hafði þá uppáhald á „nafna sínum eða nöfnu“. Allt er þetta að breytast, meðal annars vegna þess að nafngiftir eru sennilega orðnar enn meira „abstrakt“ en áður var.

Draumnöfn hafa lengi haft yfir sér sérstakan blæ, Þau eru á einhvern hátt „yfirnáttúruleg“, komin að handan. Löngum hefur þótt heldur ógæfumerki að skíra börn ekki eftir manni eða konu sem beðið hafði um nafn sitt í draumi einhvers. Um draumnöfn eru mýmörg dæmi.

Áður fyrr lögðu afar eða ömmur mikla áherslu á að koma upp nöfnum úr ættinni. Eina sögu þekki ég um slíkt. Hún er um lítinn dreng sem fékk nafn langafa síns bæði eiginnafn og föðurnafn. Segjum að hann hafi fengið nafnið Jón Sveinbjörnsson Jónsson. Afi barnsins sem fór fram á þessa nafngift við foreldranna, bauðst til að gefa drengnum „inn á bók“ í sparisjóði álitlega upphæð. Foreldrarnir treystu sér ekki til að hafna þessu góða boði vegna veraldlegra hagsmuna litla sonarins. Liðu svo árin og tíminn tók til sinna ráða eins og venjulega. Drengurinn sat uppi með nafn sem honum var stundum strítt á en þá var huggunin að seinna fengi hann borgað í peningum.

Loks kom að þeim degi að Jón Sveinbjörnsson Jónsson mátti taka út úr bókinni þá upphæð sem inni var. Verðbólgan illræmda hafði því miður séð til þess að sú upphæð dugði naumlega fyrir einum hamborgara. Svona fór um sjóferð þá og þóttu Jóni S. Jónssyni þetta slæm skipti þegar upp var staðið.

Í bók Árna ÓLa: Horft á Reykjavík, er kafli sem heitir Söðulsteinn. Rekur Árni þar leit sína að þessum steini sem talinn var gamall landamerkjasteinn milli Bústaða og Laugarness. Fann hann steininn beint fyrir neðan enda raðhússins Réttarholtsvegur 81 – 97. Lýsir hann steininum sem sérkennilega ljósum að lit og lögun og þótti með ólíkindum að hann skyldi enn vera á sínum stað eftir að öllu var umbylt við byggingarframkvæmdir Bústaða- og Réttarholtshverfis.

„Það er eins og bending um að hann skuli varðveitazt. Og þótt hann geti ekki talizt frægur, finnst mér rétt að bærinn leggi á hann verndarhönd, þótt ekki væri til annars en geyma þennan „einkennilega stein“ og örnefnið. Þau eru ekki svo mörg örnefnin í Reykjavíkurlandi, sem hlíft hefur verið.“

Svo mörg voru þau orð Árna Óla árið 1961. Nú bendir margt til þess að ekki aðeins örnefnin séu á hröðu undanhaldi heldur líka ýmis íslensk nöfn sem lengi hafa verið í ættum landsmanna mann fram af manni. En svona er lífið; allt á hverfanda hveli – líka nafngiftir.

Guðrún Guðlaugsdóttir ágúst 18, 2019 16:07