Dýrasta bók sem sögur fara af var seld á 30.8 milljón dollara. Það var dagbók Leonardo Da Vinci með teikningum af ýmsum uppgötvunum hans og enginn annar en Bill Gates keypti.
Á ensku er til orð yfir að elska lyktina af gömlum bókum. Orðið er vellichor og við þurfum að fá íslenskt nýyrði yfir þetta mjög svo áhugaverða hugtak, enda er mjög líklegt að fólk eigi eftir að nota það í miklum mæli í daglegu tali.
Lengsta setning sem vitað er til að hafi verið rituð í nokkra bók er 823 orð. Hún er í Vesalingunum eftir Victor Hugo, auðvitað.
Þegar bókaútgáfa byrjaði óttuðust menn að sögur og annað ritað mál myndi draga ungdóminn frá vinnu og ala upp ónytjunga. Reynt var að takmarka aðgang manna að rituðu efni og fleira til að draga úr hættunni á þessu. Ef einhverjum finnst umræðan kunnugleg þá má nefna hið sama var uppi þegar útvarpið kom, svo sjónvarpið, næst tölvurnar og nú snjalltæki.
Það er líka áhugavert að þegar bókaútgáfa var að stíga fyrstu skrefin voru nöfn höfunda almennt ekki höfð á bókakápum. Menn töldu það aukaatriði en áttuðu sig svo fljótt á að lesendur voru líklegri til að kaupa ef þeir þekktu höfundinn.

Það var alveg sama hversu margar bækur Louisa skrifaði og hversu vinsælar þær voru henni tókst aldrei að losna undan þeim klafa að þurfa að sjá fyrir fjölskyldu sinni.
Vissuð þið þetta um bækur og höfunda?
Fólk sem hefur gaman af að lesa lýsir sjálfu sér oft sem bókaormum og aðrir taka sér einnig gjarnan þetta orð í munn. Flestir halda að þetta sé bara skemmtileg myndlíking en svo er ekki. Það kann kannski að koma einhverjum á óvart en bókaormar eru raunverulega til og þeir éta lím og pappír í kjölum bóka. Í bókasöfnum má oft finna gamlar bækur þar sem er að finna merki um át þeirra. Brúna bletti, raufar og holur í síðurnar. Þetta eru lirfur nokkurra tegunda skordýra, bjalla, næturfiðrilda og kakkalakka. Þótt okkur finnist ósköp sætt að tala um bókaorma er ekkert sætt við hvernig þeir stórskemma oft gamlar og verðmætar bækur.
Stundum gleymist að rithöfundar eru líka fólk og þeir geta oft ýmislegt annað en að skrifa. Jane Austen var til dæmis lunkinn bruggari og bjórinn hennar þótti alveg sérlega góður. James Joyce talaði sjö tungumál reiprennandi og gat lesið sér til gagns á tveimur öðrum. Vladimir Nabokov var fiðrildafræðingur og starfaði sem slíkur við Harvard-háskóla um tíma. Guy de Maupassant þoldi ekki Eiffel-turninn. Hann neitað ævinlega að setjast til borðs á veitingahúsum þar sem útsýni var til turnsins.

Bækurnar hennar Sigurveigar
Að skrifa eða ekki skrifa
Það er oft fróðlegt að heyra hvernig rithöfundar vinna og hvernig þeir finna innblástur. Stundum kviknar hugmynd og það er eins og allt flæði. Sumir lýsa því þannig að það sé eins og einhver skrifi í gegnum þá meðan aðrir vinna skipulega og vandlega. Margvinna oft eina og sömu bókina. Þannig vann Halldór Laxness, hann mótaði hverja setningu og stóð við skriftir tiltekinn tíma á dag hvernig sem hann var upplagður.
Guðrún Eva Mínervudóttir lýsti því eitt sinn í viðtali að hún hafi verið í mörg ár að skrifa bókina Yosoy. Hún greip í hana af til, missti síðan þráðinn einhvern veginn og varð að hvíla sig áður en hún tók til við hana aftur. En efnið lét hana ekki í friði og að lokum lauk hún við hana.
Alexander McCall Smith höfundur bókanna um Kvenspæjarastofu nr. 1 í Botswana þar sem hin óborganlega Mma Precious Ramotswe ræður ríkjum er ótrúlega afkastamikill höfundur og hefur skrifað margvíslegar bækur. Hann gengur ævinlega með minnisbækur á sér og skrifar niður allar hugmyndir, jafnt að söguþræði sem og setningum sem hann síðan finnur stað í bók.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







