Eitt af því sem mögum finnst ómissandi að taka með sér í sumarfríið er bók til að lesa. „Léttir krimmar í kiljuformi eru mjög vinsælir til að taka með sér í fríið,“ segir Katrín Vilborgardóttir Gunnarsdóttir, starfsmaður hjá Pennanum Eymundsson í Austurstræti og bætir við að norrænir sakamálasögurithöfundar séu sérstaklega vinsælir. „Fyrir jólin kaupir fólk íslensku krimmana og innbundnar bækur en það kaupir slíkar bækur í miklu minna mæli yfir sumarið,“ segir Katrín. Á topp fimm fyrir helgi, voru þessar bækur hjá Eymundsson:
Villibráð eftir Lee Child
Bak við luktar dyr eftir B.A. Paris
Kakkalakkarnir eftir Jo Nesbø
Járnblóð eftir Lisu Marklund
Hin myrku djúp eftir Ann Cleeves
„Svo má bæta við að bækurnar hennar Elenu Ferrante, Framúrskarandi vinkona og Saga af nýju ættarnafni, eru enn mjög vinsælar. Þær flokkast ekki sem krimmar, en eru mjög spennandi engu að síður. Léttar bækur eins og Ótrúleg saga Indverja sem hjólaði til Svíþjóðar á vit ástarinnar eftir Per J. Andersson eru líka vinsælar. Auk þess langar mig að minnast á tvær bækur í sama flokki, Maður sem heitir Ove eftir Fredrik Backmann og Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf eftir Jonas Jonasson,“ segir Katrín.