Hróbjartur Jónatansson hefur komið víða við um ævina þótt lögfræðistörf hans hafi líklega vakið mesta athygli fram að þessu. Það sem færri vita er að Hróbjartur hefur komið við í leiklist og tónlist en eftir hann kemur út diskur með frumsamdri tónlist á sextugsafmælisárinu, sem er einmitt 2018. Hann hefur líka komið við í dagskrárgerð fyrir RÚV og starfaði með námi sem sumarmaður í rannsóknarlögreglunni og segist hefði getað lent hvar sem var varðandi ævistarf.
“Er ekki verra að verða ekki sextugur?” spyr Hróbjartur þegar hann er inntur eftir viðhorfi hans til þess að eldast. “Aldur er auðvitað afstæður en heilsan skiptir mestu máli til að okkur líði vel fram á efri ár. Við ráðum ekki alltaf ferðinni varðandi heilsuna en við getum gert nokkuð til að leggja okkar af mörkum til að líkami okkar endist.” Hróbjartur er búinn að halda sinni rútínu í mörg ár varðandi hreyfingu og segist ekki hafa breytt henni þótt árunum hafi fjölgað. Hann æfir fótbolta og golf og svo fer hann á skíði og fjallgöngur reglulega. “Mikill hluti af vinnu minni er að sitja við tölvuna og hugsa og skrifa. Þá er auðvitað bráðnauðsynlegt að búa sér til hreyfingu til að vega upp á móti kyrrsetunni. Ef mikið hefur verið að gera hef ég oft unnið líka á laugardögum á veturna og fer þá í fótbolta klukkan 5 til að rasa út eftir annasama vinnuviku.”
Langtímamarkmið að draga úr vinnu sextugur
Hróbjartur lenti, eins og margir lögfræðingar, í ýmsum erfiðum verkefnum eftir hrunið. Þau verkefni eru núna að klárast sem kemur vel saman við þá ætlun hans að draga úr vinnu. Hróbjartur segist hafa nú minni áhuga á að taka að sér flókin deilumál sem oft geta fylgt átök og stress. Hann sér fyrir sér að taka að sér í kennslu en verja tímanum minna í þrætumál. Hann minnist þess til dæmis að um haustið 2009 hafi hann verið kominn til Tyrklands til að taka verklega skemmtibátaprófið þegar kall kom að heiman 2009 frá einni slitastjórninni og Hróbjartur var beðinn að taka að sér stórt verkefni. “Ég lét til leiðast að koma heim strax og þar með hikstaði siglingaferillinn,” segir hann og brosir. “Nú gæti hins vegar verið kominn tími til að láta þann draum rætast,” segir Hróbjartur og bætir við að báðir afar hans hafi verið sjómenn svo að ekki sé undarlegt að sjórinn togi í hann.
Félagslegi þátturinn mikilvægur
Hróbjartur og eiginkona hans, Valgerður Jóhannesdóttir, eiga saman þrjú börn á aldrinum 24 – 29 ára og sá yngsti deilir fótboltaáhuganum með föður sínum. Fyrir átti Hróbjartur son sem býr núna í Noregi og á þrjú börn. “Yngsti sonur minn spilar í meistaraflokki með ÍR svo ég er enn með liðsmann í þeim kúltúr,” segir Hróbjartur. “Þegar Liverpool er svo að spila er mikil stemmning hjá okkur. Þá komum við saman og stundum fleiri og við horfum á leikinn og fáum okkur hamborgara,” segir Hróbjartur brosandi. “Allt í kringum íþróttir er svo mikið félagslegt atriði fyrir utan líkamlega ávinninginn þegar maður getur tekið þátt sjálfur.”
Kominn á leikaldurinn
Hróbjartur lærði á píanó í nokkur ár sem barn og eitthvað glamraði hann á gítar. Svo komu unglingsárin og lífið tók völdin og leiddi hann í ýmsar áttir og þá var ekki pláss fyrir æfingar lengur. Fyrir um það bil fjórum árum tók Hróbjartur síðan upp þráðinn, fann píanókennara, Pétur Hjaltested, sem var tilbúinn að hjálpa honum en Pétur er líka með stúdíó. “Tímarnir hjá Pétri leiddu til þess að ég fór að semja tónlist, Pétur hjálpaði mér við útsetningar og það samstarf þróaðist úr í það að ég byrjaði 2015 að hljóðrita eigin tónsmíðar með fyrsta flokks hljóðfæraleikurum.” Hann nefnir Sigurð Flosason, Pál Rosenkranz og Pálma Gunnarsson og fyrr en varði var Hróbjartur búinn að semja níu lög. “Ég var alls ekki með það í huga til að byrja með að gefa þetta út heldur var þessi vinna fyrir mig eins og veiðiferðir eru fyrir aðra. Tónlistin er svo alger andstæða við lögfræðiþrasið og þess vegna svo mikil endurnæring. Svo þróaðist þetta út í það að búa til nógu mörg lög til að þau dygðu í disk og nú er hann að verða að veruleika,” segir Hróbjartur og á honum er augljóslega að sjá tilhlökkun því diskurinn er um það bil að verða tilbúinn. “Ég syng sjálfur nokkur lög á disknum og það er hluti af því að leika mér. Er maður ekki kominn á þann stað í lífinu sextugur að maður á að leika sér ef maður getur?” segir hann og hlær.
Ætlaði í leiklistarnám til Bretlands
Hróbjartur segist hafa varið miklum tíma í félagslíf á menntaskólaárunum og minna í lærdóm. Hann tók þátt í öllum skólaleikritum sem leiddi hann í þátttöku á uppfærslu í Iðnó á leikritinu Sonur skógarans og dóttir bakarans eftir Jökul Jakobsson. Þar var Hróbjartur í ýmsum aðstoðarhlutverkum og það leikrit gekk svo vel að sýningum ætlaði aldei að linna. “Ég hafði haft væntingar um að leiklistin gæti nú verið spennandi að leggja fyrir sig. Ég var búinn að sjá að skemmtilegast væri að fara í leiklistarnám til Bretlands og búinn að leggja drög að því. En við það að taka þátt í uppfærslum hér heima var ég búinn að sjá að veruleiki leikaranna var alveg jafn hversdagslegur og annarra. Ég hlustaði oft á stóru leikarana ræða vandamál sem voru langt frá því að vera rómantísk og að líf leikara væri kannski ekki svo eftirsóknarvert og svo voru launin ekki til að hrópa húrra fyrir. Vinnutíminn var auk þess afleitur og þegar allt kom til alls hætti ég þessum pælingum. Þá var ég svolítið í loftinu með hvað ég ætti að taka mér fyrir hendur. Pabbi hafði ekki verið hrifinn af leiklistarpælingum mínum en hafði mælt með því að ég skoðaði vélstjóranám en hann var frá Ólafsvík. Það fannst mér ekki spennandi og þá ákvað ég að prófa lögfræðina og náði vel aðal síunni, almennu lögfræðinni. Þá var framtíðin ráðin og leiðin nokkuð greið eftir það.”
Sér eftir að hafa ekki byrjað fyrr
“Ég sé ekki eftir að hafa lagt lögfræðina fyrir mig því hún getur verið skemmtileg en ef ég sé eftir einhverju í lífinu er það að hafa ekki byrjað fyrr í tónlistarpælingunum. Lögfræðistörfin eiga það til að gleypa mann alveg og vinnan hefur verið of mikið fyrir mér til þess og tónlistin hafi komist að en nú er ég að reyna að breyta því,” segir Hróbjartur. “Það er svo óendanlega mikil afslöppun fólgin í að föndra við tónlist. Ég geri mér fulla grein fyrir því að ég verð aldrei góður miðað við alvörutónlistarmenn en það gerir ekkert til. Ég fæ mitt út úr því að semja lög og texta og það er nóg fyrir mig. Ef einhver nennir að hlusta á diskinn þá er það fínt,” segir Hróbjartur en hann ætlaði að koma diskinum út í tengslum við sextugsafmælið og nær því næstum því en diskurinn klárast á næstu vikum. Hróbjartur er ólíkindatól en segist sjálfur vera ágætur í mörgu en ekki góður í neinu einu og segir í hálfkæringi að næsta verkefni gæti alveg eins orðið bókaskrif.