Einar Sigurmundsson skrifar
Tennur okkar hafa mikilvægt hlutverk. Með tönnunum tyggjum við matinn , auk þess að nota þær til þess að mynda ýmis hljóð í tali okkar, svo eitthvað sé nefnt. Það skiptir því miklu máli að hugsa vel um tannheilsu ekki síður en aðra heilsufarsþætti. Ef við lendum í því að missa tönn eina eða fleiri þá er rétt að leita til tannlæknis og fá þar ráð sem við eiga, en þá tekur annað við sem er kostnaður sem oftar en ekki er ansi hár. Áður fyrr var algengt að þeir sem misstu tönn, eða tennur, fengu sér gervigóma. Nú er hins vegar vinsælt að fá stakar gervitennur, svokallaða tannplanta.
Tannplantar
Þegar talað er um tannplanta þá er átt við aðgerð þar sem skrúfa úr títanmálmi er skrúfuð niður í rótarstæði tannar og gegnir hlutverki undirstöðu fyrir nýja krónu eða brú. Stóri kosturinn við þetta er að tannplanti á að endast eins og tönn og er það því undir hverjum og einum komið hversu vel eða illa er staðið að tannhirðu og þar með hversu vel þetta endist.
Gunnar Rósarsson starfar sem tannlæknir í Reykjavík segir hann að ískrúfaður tannplanti kosti um 180.000 krónur og þá eigi eftir að festa á hann það sem koma eigi, en það getur verið laus gómur, gervitönn eða postulínstönn.
Ef nota á tannplanta með gervitönnum er algengt að festa tvo tannplanta í neðri góm og á þá eru síðan festar smellur og þar ofan á settar gervitennur. Við þetta verði neðri gómurinn fastari en neðri gervitanngómar eru þekktir fyrir að vera lausir og til vandræða. Gunnar segir að þetta myndi kosta um 500.000 krónur, en verð fer samt alltaf eftir hverjum og einum einstaklingi.
Tannplanti með stakri krónu kostar i kringum 350.000 krónur. Gunnar segir að stundum séu settir tveir plantar með bili á milli og gerð svokölluð brú. Þá eru ein til tvær tennur festar við tennurnar á tannplöntunum svo út koma þrjár til fjórar tennur í það heila. Slík aðgerð kosta á bilinu 7 – 800.000 krónur. Sem betur fer þurfa ekki allir að velta fyrir sér kostnaðinum og hefur Gunnar gert aðgerðir á fólki sem hefur pantað sex til átta innplanta og allt að tólf tennur í hvorn kjálka en þá er verðmiðinn í kringum fjórar milljónir króna.
Það má vera alveg ljóst að tannplantar eru mun þægilegri og betri en gervitennur og ættu því að útrýma gervitönnumum, en er það svo? Að sögn Gunnars er fólk enn að fá heila góma og er aðalástæða þess sú að þeir eru töluvert ódyrari en hin nýja aðferð. Samkvæmt verðskrá tannlæknastofu í Reykjavík er hægt að fá gervitennur, heilgóm á báða tanngarða á um það bil 290.000 krónur og er þar tannsmíðin innifalin. Það ber þó að taka fram að meta þarf hvert tilfelli fyrir sig með tilliti til kostnaðar.
Hlutur hins opinbera
Einhver verðmunur kann að vera á milli tannlækna en Gunnar telur að það sé innan við 10% enda séu allir að berjast við sömu kostnaðarliðina. Hann nefnir einnig hlut Sjúkratryginga Íslands í þessum málum sem hann telur ekki til fyrirmyndar:
Á hinum Norðurlöndunum taka sjúkratryggingar verulegan þátt í kostnaði við tannplanta. Hér greiða þær 60.000 krónur á hverju ári í „styrk“ vegna tannplantaaðgerða. Það má kannske geta þess að endurgreiðslur SÍ hafa eiginlega ekkert hækkað, að krónutölu, í 22 ár. Þær hafa heldur ekki fylgt tækniframförum að heitið geti. Semsagt – ríkið er með allt niðrum sig í tannlækningum.
Það er að mörgu að hyggja í þessum efnum og er rétt að ráðleggja fólki sem er í þessum hugleiðingum að tala við fleiri en einn tannlækni og leita eftir tilboðum.