“Ég er svo heppin að geta verið að gera alla daga það sem mér þykir skemmtilegast,” segir Ólöf Kolbrún Harðardóttir brosandi. Allir vita hver Ólöf Kolbrún er en fyrir utan að hafa lengi vel verið ein af okkar fremstu söngkonum var hún í hópi frumkvöðlanna sem stóðu að stofnun Íslensku Óperunar 1980 með Garðar Cortes í broddi fylkingar. Ólöf var aðstoðarmaður Garðars frá upphafi, var framkvæmdastjóri Óperunnar og tók við sem óperustjóri þegar hann fór sem óperustjóri til Gautaborgar í þrjú ár. Þau starfa saman enn í dag í Söngskólanum í Reykjavík. Ólöf segir að þegar óperuunnendurnir Helga Jónsdóttir og Sigurliði Kristjánsson kaupmaður arfleiddu Óperuna að veglegri fjárhæð 1980 hafi verið kominn grundvöllur til að stofna íslenska Óperu formlega. Þá voru fest kaup á Gamla bíói sem var aðsetur og heimili Íslensku Óperunnar um árabil eða allt til 2012 þegar hún var flutt í Hörpuna. Að mati Ólafar var það ekki gæfuspor fyrir starfsemi Óperunnar þar sem allt of mikill peningur fór í leigu á skrifstofuhúsnæði og söluandvirði húsnæðisins í Ingólfsstræti því löngu uppurið og ekkert svo kallað heimili eða fast aðsetur óperu til lengur.
“Óperan var ekki fyrirtæki sem bar há laun á meðan á uppbyggingunni stóð,” segir Ólöf. “Við reiknuðum okkur lágmarkslaun í störfum óperu-og framkvæmdastjóra og þáðum þau ekki þegar við sungum sjálf á sviðinu heldur einungis söngvaralaun eins og hinir söngvararnir. En auðvitað var þetta skemmtilegur og uppbyggjandi tími eins og frumkvöðlastarfsemi er. Þegar erlendir gestir s.s. hljómsveitarstjórar, æfingastjórar og einstaka söngvarar komu, sáum við sjálf um að sækja, senda og bjóða heim í mat. Enginn risnukostnaður var í reikningshaldi óperunnar á þeim tíma segir Ólöf. Stofnun Óperunnar var sannkallað hugsjónastarf og það frumkvöðlastarf skilaði sér svo um munaði og varð til þess að Óperan hlaut þennan ómetanlega stuðning í formi dánargjafar Helgu og Sigurliða. Þá var hægt að kaupa húsnæði undir starfsemina og Gamla bíó í Ingólfsstræti varð fyrir valinu. Þegar Ólöf og Garðar hættu eftir tuttugu ára uppbyggingu var Óperan komin á opinbert framlag frá ríkinu upp á 50 – 60 milljónir króna á ári. Skömmu síðar var framlagið aukið í 3-400 milljónir enda flestir búnir að átta sig á því hvaða gildi slík stofnun hafði fyrir samfélagið.
Ólöf hefur ekki sungið opinberlega í nokkur ár eða allt frá því eiginmaður hennar, Jón Stefánsson organisti og kórstjóri í Langholtskirkju, féll frá 2015. Hún segist ekki beinlínis hafa tekið ákvörðun um að hætta að syngja opinberlega heldur hafi það æxlast þannig og eitt verkefni tekið við af öðru. “Ég hef alla tíð kennt söng með þeim söngverkefnum sem ég hef tekið að mér,” segir Ólöf. “Ég hef þess vegna fylgst með mörgum okkar efnilegustu söngvurum allt frá því þeir byrjuðu feril sinn í söngtímum bæði við Kórskóla Langholtskirkju og hjá okkur við Söngskólann í Reykjavík. Hér við skólann erum við með deild fyrir byrjendur frá 8 ára aldri og svo er haldið áfram að Burtfararprófi sem er á háskólastigi, allt þar til þeir fljúga út í heim í framhaldsnám.”
Ólöf stofnaði minningarsjóð um Jón þegar hann lést og segist vera svo lánsöm að hafa getað veitt úr honum tvisvar til samtals 9 íslenskra efnilegra tónlistarnemenda sem eru í framhaldsnámi erlendis.
Um árabil hefur Ólöf verið deildarstjóri söngdeildar Söngskólans í Reykjavík og tekur þátt í áframhaldandi uppbyggingu skólans. “Ég er lukkunnar pamfíll að geta enn starfað við það sem mér þykir skemmtilegast að gera,” segir Ólöf. Hún hóf kennslu við Söngskólann 1976 og er enn að kenna þar með einu hléi þó þegar hún fór í nám við Tónlistarháskólann í Vín í tvö ár. Ólöf kennir líka og hefur kennt undanfarin ár við Söngdeild Listaháskóla Íslands.
Hún starfaði líka mjög mikið með eiginmanni sínum í Langholtskirkju við að byggja upp kórskóla þar. Ólöf hefur því sannarlega komið að uppbyggingu söngmenningar á Íslandi. “Það er ótrúlega mikils virði að fá að vakna á morgnana með tilhlökkun yfir því hvað dagurinn muni bera í skauti sér. Ég er svo lánsöm að hafa átt þess kost að koma að uppbyggingu tónlistarlífs á Íslandi,” segir Ólöf og er sátt við hlutskipti sitt.
Ólöfu þótti miður að daginn sem viðtalið fór fram var verið að taka fyrir mál íslenskra söngvara gegn Íslensku óperunni í Héraðsdómi en styr hefur staðið um launamál í nokkurn tíma.