Ótrúleg örlagaflétta

Blái pardusinn; Hljóðbók ber öll höfundareinkenni Sigrúnar Pálsdóttur, er frumleg, fjörlega skrifuð og óvæntar uppákomur og snúningar nánast á hverri blaðsíðu. Þrjár ólíkar manneskjur eru að hlusta á sömu bókina, Bláa pardusinn og upplifa hana hvert á sinn hátt.

Unnur Andersen Jones notar hana til að sofna út frá henni en er einnig að leita eftir einhverju kunnuglegu í sögunni sem á að vera byggð á sönnum atburðum. Sagnfræðingurinn Bjarni lætur hins vegar fara í taugarnar á sér sögulega ónákvæmni hennar en Bjarni á ókláraða doktorsritgerð ofan í skúffu og undanfarin ár unnið óviljugur í súkkulaðiverksmiðju föður síns. Svo er það flugþjónninn Elín Helena Lacroix sem er fyrst og fremst í leit að skáldlegum innblæstri, upplifun og nýjum skilningi á lífinu. Höfundur Bláa pardussins er Guðrún Jónsdóttir en enginn veit hvort um skáldanafn sé að ræða eða hver sú kona er.

Saga Lönu Marteinsdóttur í Bláa pardusnum minnir óneitanlega mjög á ævi Kristínar Björnsdóttur en mjög skemmtilegir hlaðvarpsþættir um hana eftir þær Guðrúnu Hálfdánardóttur og Önnu Maríu Björnsdóttur voru fluttir á RÚV í sumar undir yfirskriftinni, Stína sterka, en það var Kristín jafnan kölluð af fjölskyldu sinni. Sigrún leikur sér með þá sögu en eins og alltaf í hennar bókum er atburðarrásin svo sérstæð og óvænt að þær eru engu líkar.

Sigrún er sérlega lipur penni og skrifar lifandi og skemmtilegan stíl. Henni tekst alltaf að flétta spennandi og áhugaverðan söguþráð. Í öllum hennar bókum er einnig að finna ótal smáatvik athyglisverð og fyndin sem stundum ráða úrslitum um örlög manna og ákveðinn undirtónn  kaldhæðni er gott krydd í þessari sögu.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.