Píanóleikari á hátindi lífsins

Agnes Löve píanóleikari gekk með gleraugu í skóla og „þess vegna urðu það örlög mín að verða kennslukona“ segir hún í samtali við Lifðu núna. Agnes sem ólst upp í Laugarneshverfinu byrjaði að læra á píanó átta ára gömul og tók strætó niður í bæ til að fara í tíma hjá Helgu Laxnes, systur Nóbelskáldsins, sem bjó á Lokastíg. „Mamma fór með mér einu sinni eða tvisvar til að kenna mér hvernig maður fer í strætó“ segir hún og bætir því við að þetta hafi verið aðrir tímar en í dag, þegar umferðaröngþveiti myndist við skólana á morgnana vegna þess að öllum börnum er ekið í skólann.

Á sólarhringsvakt að passa barnabörnin

Agnes segir að margir á hennar aldri séu á kafi í kringum barnabörnin, mæti á tónleika og annað sem hafi hreint ekki tíðkast þegar hún var ung. „Aldrei man ég eftir því að afi og amma kæmu og hlustuðu á mig spila og þegar strákarnir mínir voru litlir og spiluðu fótbolta, voru afar og ömmur ekki á ferðinni að fylgjast með. Núna eru afar og ömmur á sólahrings bakvakt. Það þarf að keyra og sækja barnabörnin, það þarf að passa svo foreldrarnir komist í ræktina og þegar börnin eru veik. Við þetta bætast gistingar allar helgar svo foreldrarnir geti farið út og suður“.

Sæi þýskar kerlingar láta bjóða sér það

Agnes segir að þetta hafi ekki verið svona þegar hún var með syni sína. Hún hafi séð um þá sjálf, enda búsett í Þýskalandi og enginn til að passa. „Fólk í dag gerir allt aðrar kröfur og við afar og ömmur þurfum að vera til staðar til að þau geti uppfyllt þessar kröfur, en átti þetta ekki að vera tíminn sem maður er ekki bundinn yfir börnum?“ spyr hún. „Mér er ekki treyst til að vera á vinnumarkaði, en mér er treyst til að annast veik börn. Mér finnst þetta skrítið og trúi ekki að þetta sé svona í öðrum löndum. Ég sæi þýskar kerlingar láta bjóða sér það, að vera á vakt allan sólarhringinn tilbúnar til að passa“.

Enginn tími til að annast börnin

„Það er eitt sem mér finnst ljótt í íslensku samfélagi“, heldur hún áfram „ Það er þessi samræmda þvingun sem er til staðar. Þegar fólk er komið í samband er strax farið að spyrja, á ekki að fara koma með barn, er eitthvað að, eða? Og svo þegar barn er komið, þá er umsvifalaust farið að spyrja hvort ekki eigi að koma með annað barn. En svo hefur enginn tíma til að annast þessi börn. Hvað ef við sem eldri erum missum heilsuna og börnin þurfa að vera á bakvakt yfir okkur, ég er ekki viss um að þau verði tilbúin í það, eða veist þú um einhvern?“

Elsti tónlistarskóli heims

Agnes lærði á píanó, fór síðan í Kennaraskólann og þaðan í framhaldsnám í píanóleik í Tónlistarháskólanum í Leipzig í Austur-Þýskalandi.  Hana dreymdi um að verða heimsfrægur píanóleikari. Maðurinn hennar Dr. Ingimar Jónsson fór í íþróttaháskóla þangað og parið dreif sig út nýtrúlofað. Agnes stundaði píanónám í skólanum í 7 ár, en tónlistarháskólinn í Leipzig er elsti tónlistarháskóli í heimi. Mendelson var stofnandi og fyrsti skólastjóri skólans, Schumann var þar kennari og Grieg lærði þar. Meðal þeirra Íslendinga sem gengu í skólann voru Páll Ísólfsson, Jón Leifs og Hallgrímur Helgason.

Salt og edik seldist upp

Þau fluttu til Leipzig árið 1960 og þar fæddust þeim tveir synir. „Það var ekki slæmt fyrir fátæka námsmenn að búa í Austur-Þýskalandi, því húsaleiga kostaði ekkert og maturinn var ódýr það litla sem fékkst, segir Agnes. En svo var múrinn reistur og þá versnaði allt. Það var ekkert til í búðunum nema salt og edik, en þegar bandarísk útvarpsstöð sem náðist í Leipzig, fór að greina frá því að hægt væri að verjast geislum frá kjarnorkusprengjum með því að blanda saman salti og ediki og úða á gluggana hjá sér, þá hvarf það líka. En svo lagaðist þetta“.

Allt ókeypis

Agnes segir að þau hafi búið við mikið öryggi í Leipzig. Það var ódýrt að lifa og þau fengu námsstyrk.   Öll læknisþjónusta var ókeypis og fólk fékk meira að segja gleraugu, falskar tennur og heyrnartæki fyrir ekki neitt. En heldur þótti Íslendingunum vistin í Þýskalandi daufleg, því Þjóðverjarnir vöknuðu klukkan 6 á morgnana og fóru að sofa klukkan 10 á kvöldin. Agnes flutti heim eftir sjö ár í Austur-Þýskalandi og fór að kenna á píanó. Hún átti afar fjölbreyttan tólistarferil. Spilaði með innlendum og erlendum tónlistarmönnum og kórum og var æfingastjóri tónlistar í Þjóðleikhúsinu í 10 ár. Hún var skólastjóri Tónlistarskóla Rangæinga í 7 ár og seinna Tónlistarskólans í Garðabæ, en lét af því starfi vegna aldurs árið 2012.

Dettur ekki í hug að minnka við sig

Agnes segist búa á elliheimili fyrir tvo. Hún er gift Reyni Jónassyni harmonikuleikara og saman búa þau í stóru glæsilegu húsi í Breiðholti, enda eiga þau tvo flygla og þurfa að hafa rúmt um sig. Hún segir að sér detti ekki í hug að minnka við sig eins og margir vilji gera á hennar aldri. Minnka við sig og fara að ferðast. Hún eigi vini sem hafi gert það, minnkað við sig og farið í ferðir, meðal annars vikuferð til Mexíkó og í helgarferð til Egyptalands. Það sé varla hægt að kalla þetta ferðalög. Svo hafi peningarnir verið búnir og þau setið uppi með litlu íbúðina.

Búin að sjá allt

Eigum við kannski að hætta að vera tónlistarmenn, flytja í pínulitla íbúð og fara að ferðast?“ spyr Agnes. Hún segir að maður sem fór til Nýja Sjálands hafi ekki átt orð yfir því hvað þar væri fallegt. „Það var alveg eins og Ísland, bara tvöfalt stærra“ sagði hann. „Ég myndi ekki fara neitt til að sjá Ísland tvöfalt“, segir Agnes. „Svo er ég búin að sjá allt. Fara til Kína, Suður-Ameríku og Evrópu. Ég nenni þessu ekki. Það var gaman að ferðast í gamla daga þegar fólk klæddi sig í sparifötin og fékk góðan mat í fluginu. Nú eru þetta bara ægilegar vegalengdir á flugvöllunum“

Gamla fólkið sést ekki

Agnes segir að lífið hafi ekki breyst mikið eftir að hún fór á eftirlaun. „Ég lifi eins og áður nema hvað ég er með svo léleg eftirlaun, samt var ég lengst af millstjórnandi og stjórnandi. Hvernig ætli það sé þá hjá öðrum?“ segir hún. Hún segir að það hafi fokið í sig, þegar forsætisráðherra ræddi um að bæta kirkjunni upp niðurskurðinn í hruninu. „Hvað með öryrkja og eldri borgara, hvenær á að gera upp við þá?“ Henni finnst eins og ekki sé ætlast til að fólk yfir 67 ára sé þáttakendur í lífinu. „Gamla fólkið á Íslandi sést ekki“ segir hún. „Því er séð fyrir einhverri dægradvöl svo það sé ekki að þvælast innanum annað fólk“.

Komin á hátind lífsins

Agnes æfir sig á píanóið í 3-4 tíma á dag og gaf nýlega út geisladiskinn Píanóleikur í 60 ár, en diskurinn spannar allan hennar feril. Þar er að finna valdar upptökur úr Ríkisútvarpinu með leik Agnesar og hljóðritun frá tónleikum hennar og ömmubarnsins Agnesar Þorsteins. Elsta hljóðritunin er frá því Agnes var 12 ára gömul. Í textanum sem fylgir með diskinum segir meðal annars , „Agnes og eiginmaður hennar Reynir Jónasson njóta nú þess að sinna tónlist, fjölskyldu og vinum ásamt hvoru öðru komin á hátind lífsins“. Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir úr myndasafni Agnesar. Mynd af henni með Reyni og önnur af henni 12 ára.  Fjölskyldumynd frá Leipzigtímanum og svo mynd af Agnesi á kvennafrídaginn og með foreldrum sínum.

Samsett mynd Agnes

 

 

Ritstjórn janúar 9, 2015 16:04