Plastjólatré eða lifandi tré

Margir velta því fyrir sér hvort sé umhverfisvænna að vera með gervijólatré eða lifandi tré. Samkvæmt því sem kemur fram á vef Umhverfisstofnunar þá er umhverfisvænast að vera með íslenskt tré sem er náð í í skógarreit nærri heimilinu. Við ræktun íslensku trjánna er lítið sem ekkert notað af varnarefnum.  Innflutt jólatré eru gjarnan ræktuð á stórum ökrum og mikið notað af illgresis- og skordýraeitri ásamt ýmsum efnum sem eiga að hraða vexti trjánna. „Einnig ber að nefna þá hættu sem stafar af sjúkdómum sem geta borist með trjám þegar þau eru flutt hingað til lands. Þegar orkunotkun vegna flutninga er skoðuð þá hefur íslenska tréð augljóslega forskot; því styttri flutningsleið, því minni eldsneytisnotkun og útblástur. Íslensk jólatré hafa því yfirburði fram yfir innflutt tré þegar horft er á efna- og orkunotkun,“ segir á vef Umhverfisstofnunarinnar.

Margir eiga gervijólatré en þau eru ekki sérlega umhverfisvæn. Gervitrén eru úr plasti og það er upphaflega framleitt úr olíu auk þess sem framleiðslan er orkufrek og trén flutt um langan veg þar sem þau eru flest framleidd í Asíu. Mikið af úrgangi myndast síðan þegar þessum trjám er hent, ef þau eru ekki flokkuð og endurunnin. Ef plasttré er notað í mörg ár má segja að neikvæðu umhverfisáhrifin þynnist út. Hins vegar þarf að nota plastjólatréð í 20 ár svo það verði að betri kosti en ekta tré.

Ritstjórn desember 14, 2016 11:22