Margir Íslendingar fara á þessum árstíma, annað hvort í sólina á Tenerife eða á skíði, til dæmis til Ítalíu eða Austurríkis. Þeir sem eru komnir á eftirlaun ráða sínum tíma og virðast margir hverjir verja töluverðum tíma í að ferðast. Við ræddum við þrjá eftirlaunamenn um það sem þeir eru að gera þessa stundina og yfirleitt á þessum árstíma í svartasta skammdeginu.
Fer ekki með í skíðaferðina
„Maðurinn minn, Sigurður Guðmundsson, sem er 75 ára ætlar í tvær skíðaferðir núna á næstunni, aðra í janúar og hina í febrúar“, segir Auður Stefánsdóttir, en sjálf fór hún nýlega í mjaðmaaðgerð og er að jafna sig eftir hana og fer ekki. Helgi Pétursson sem nú býr í Danmörku er hins vegar ekkert að velta fyrir sér að fara á skíði. „Nei, ég hef aldrei verið mikill skíðamaður. Hef raunar bara einu sinni rennt mér á skíðum og þá nokkuð stjórnlaust niður brekku og lenti á einhverjum vélaskúr fyrir skíðalyfturnar. Þar lauk minni skíðaiðkun“, segir hann. Hrafn Magnússon sagði hins vegar að hnéð væri að gera sér grikk eftir skíðaslys fyrir 25 árum og er því ekki á leiðinni á skíði og hefur ekki stundað mikið skíði eftir slysið. En hann ætlar að láta lækni skoða hnéð.
Þarf bara að vera á pallinum til að fá sól
Hrafn og Kristín Erlingsdóttir konan hans eru vön að skreppa í sól á þessum árstíma, en að þessu sinni brugðu þau útaf vananum og fóru til Tenerife í þrjár vikur í nóvember og desember síðast liðinn. „Við erum með hugmynd um að fara eitthvað út í febrúar, en þau áform eru enn á teikniborðinu og ekkert ákveðið“, segir hann. Helgi er hins vegar ekki á leið í sólina. „Ég bý á Jótlandi og bíð eftir eins góðu sumri og hér var á síðasta ári. Þá þarf maður ekkert að fara nema út á sólpallinn, til að vera í sólinni“, segir hann. Auður Stefánsdóttir fer hins vegar árlega í golf með sínum manni og í vor er planið að fara til Valle del Este á Spáni til að spila golf. Þau ætla að vera þar í 14 daga ásamt vinafólki, en venjulega er það 6-8 manna hópur sem fer saman í þessar ferðir.
Halda uppá stórafmæli í útlöndum
Hjá Helga Pé og Birnu Pálsdóttur konu hans, er golfvöllurinn í 300 metra fjarlægð frá heimilinu og því ekki langt að fara. „En það gæti verið gaman að fara eitthvað lengra einhvern tíma“, segir Helgi og líklega verður raunin sú í vor, þar sem þau hjónin eru að undirbúa að dvelja í nokkurn tíma í Normandy héraði í Frakklandi, að vísu ekki aðallega til að spila golf. Þangað hefur þau alltaf langað að fara aftur eftir stutta heimsókn fyrir 20 árum. „Ég verð sjötugur í vor og er undir pressu að gera eitthvað af því tilefni, sem mér þykir ekkert sérstaklega merkilegt“, segir hann. Lifðu núna veit raunar um fleiri sem halda uppá stórafmæli í útlöndum.
Vinahópar fara að hittast meira
En hvað gerir eftirlaunafólk að öðru leyti til að njóta lífsins á þessum árstíma hér heima. Efit samtöl okkar við þetta fólk, kom ýmislegt í ljós. Fólk er til dæmis að sinna áhugamálum sínum auk þess sem það er í ýmsum klúbbum og félögum. Það er líka mikið um að alls kyns gamlir vinahópar fari að hittast meira þegar vinirnir eru komnir á eftirlauna aldur. Þá er það líka ærið verkefni að jafna sig eftir mjaðmaaðgerð, eins og Auður Stefánsdóttir er að gera, en hún er á leið í endurhæfingu í Hvragerði.
Hlustar mikið á útvarp
Hrafn Magnússon hefur gaman af að fylgjast með því sem er að gerast í þjóðfélaginu og hlustar mikið á útvarp. Svo hlustar hann á hljóðbækur og einnig á bækur í símanum sínum. „Ég er núna að hlusta á seinni bókina hennar Ásdísar Höllu. Þetta er vel skrifað hjá henni og gaman að lesa. Það er forvitnilegt að fylgjast með henni, hún er mikið að leita að sjálfri sér, er leiftrandi penni og gæti skrifað skáldsögur“, segir Hrafn, sem á enn sæti í stjórn lífeyrissjóðs og er formaður framkvæmdasjóðs aldraðra, auk þess að taka þátt í alls kyns félagslífi.
Hittu dönsku jómfrúna Idu Davidsen
Auður Stefánsdóttir er í vatnsleikfimi í Árbæjarlauginni tvisvar í viku, alltaf í útilauginni hvernig sem viðrar. „Ég er nýhætt að spila badminton en gerði það í 40 ár með tveimur góðum vinkonuhópum. Annar hópurinn hittist alltaf einu sinni í mánuði í hádeginu og borðar saman og hluti heldur saman saumaklúbb. Seinni hópurinn hittist líka einu sinni í mánuði og alltaf fyrsta laugardag í desember á Jómfrúnni, nema í ár áttum við 20 ára afmæli og fórum í 4 daga til Kaupmannahafnar í nóvember og borðuðum hjá dönsku jómfrúnni, þeirri ekta, Idu Davidsen, og fengum meira að segja mynd af okkur með henni“, segir Auður.