Eldri borgarar dragast aftur úr í kjörum þegar litið er á tekjur þeirra sem hafa ellilífeyri frá Tryggingastofnun samanborið við lágmarkslaun. Tekjur þeirra allra lægstu hjá TR hafa lækkað sem hlutfall af lágmarkslaunum um 6,7 prósent og voru heildartekjur þeirra 11,8 prósentum undr lágmarkslaunum. Grái herinn lætur á það reyna fyrir dómstólum hvort það samræmist stjórnarskrá að skerða lögbundin eftirlaun frá almannatryggingum. Lifðu núna hafði samband alla nefndarmenn velferðarnefndar Alþingis og bað þá að svara eftirfarandi spurningum; Hvað finnst þér um skerðingar á ellilífeyri í almannatryggingakerfinu og málssókn Gráa hersins? Finnst þér eðlilegt að tekjur eldri borgara hækki einu sinni á ári og þá í samræmi við neysluvísitölu en ekki launavísitölu einsog staðreyndin er? Ert þú þeirrar skoðunar að það eigi að afnema skerðingarnar? Hvað með skerðingar vegna atvinnutekna? Hér birtast svör Ólafs Þórs Gunnarssonar, fulltrúa VG í nefndinni:
Hvað finnst þér um skerðingar á ellilífeyri í almannatryggingakerfinu og málssókn Gráa hersins?
Það var eitt af fyrstu verkum núverandi ríkisstjórnar að hækka frítekjumark atvinnutekna, og í vor er leið var stigið annað skref til að bæta kjör þeirra eldri borgara sem hafa það lakast, þ.e. þeirra sem hafa takmörkuð lífeyrisréttindi. Skerðingar á greiðslum almannatrygginga, vegna lífeyrisgreiðslna úr lífeyrissjóðum eru nú 45 aurar á móti hverri krónu. Þetta gerir að verkum að þeir sem hafa hærri lífeyrisgreiðslur fá tiltölulega litlar greiðslur frá almannatryggingum. Þó er það þannig að fyrstu 100 þúsund krónurnar í atvinnutekjum skerða ekki bætur almannatrygginga, og fyrstu 25 þúsundin í lífeyristekjum ekki heldur. Með þessu móti er leitast við að beina greiðslum almannatrygginga til þeirra sem sannarlega hafa minnst á milli handanna og þurfa mest á stuðningi ríkisins til framfærslu að halda.
Mín skoðun er sú að það sé réttlátast fyrir opinbera aðila að beina stuðningi sínum þangað sem mest þörf er fyrir hann, fremur en að hafa kerfi þar sem allir fá jafnt, óháð öðrum þáttum. Ég tel að GH hafi fullan rétt á að fá álit dómstóla eins og þau hafa gert. Ég treysti mér hins vegar ekki til að leggja mat á hver niðurstaða dómstóla verður.
Finnst þér eðlilegt að tekjur eldri borgara hækki einu sinni á ári og þá í samræmi við neysluvísitölu en ekki launavísitölu einsog staðreyndin er?
Ég geri ekki athugasemdir við að kjör eldri borgara í almannatryggingakerfinu séu leiðrétt einu sinni á ári. Vísitala neysluverðs mælir þær breytingar á verðlagi á vörum og þjónustu sem verða svo að tryggt er að kjör rýrni ekki. Í íslenskri hagsögu eru dæmi þess að launavísitala hafi ekki haldið í við verðbólgu og þar með hafi orðið kjaraskerðing.
Ert þú þeirrar skoðunar að það eigi að afnema skerðingarnar?
Eins og fram kemur að ofan hefur verið dregið úr skerðingum á greiðslum almannatrygginga vegna atvinnutekna á þessu kjörtímabili. Ég tel æskilegt að halda áfram á þeirri braut, þó þannig að við notum almannatryggingakerfið til að bæta stöðu þeirra mest sem verst standa.
Hvað með skerðingar vegna atvinnutekna?
Það var eitt fyrsta verk ríkistjórnar Katrínar Jakobsdóttur að hækka frítekjumark eldra fólks vegna atvinnutekna í 100 þúsund á mánuði. Þá hafa aðgerðir stjórnvalda til að bæta kjör eldra fólks, s.s. með lækkun kostnaðarþátttöku vegna heilbrigðisþjónustu, einnig skipt máli. Ég tel mikilvægt að haldið verði áfram á þeirri braut að bæta kjör þeirra eldri borgara sem lakast standa.