„Það er auðvitað alveg út í hött að reka sína bestu menn af velli. Það hljómar eins og lygasaga. En hún er sönn. Að minnsta kosti hvað varðar vinnumarkaðinn á Íslandi. Fólk er rekið út af þrátt fyrir mikla reynslu, dugnað, samviskusemi, hollustu, alúð og áhuga. Hér er átt við launafólk sem komið er yfir fimmtugt. Atvinnurekendur virðast ekki hafa smekk fyrir því fólki,“ segir Katrín Baldursdóttir stjórnmála- og atvinnulífsfræðingur í pistli á vef Kjarnans.
„Þrátt fyrir alla þá kosti sem meirihluti þessa hóps býr yfir. Þarna kasta menn á glæ gífurlegum verðmætum og öllum arðinum í krafti reynslunnar. Arðinum sem íslenskt þjóðfélag myndi annars njóta ávaxtanna af. Það má með sanni segja að þessi hópur 50+ sé komin í meistaradeildina á vinnumarkaði. Þetta eru meistararnir sem ekki einungis hafa reynsluna heldur hafa í gegnum árin lært af mistökunum sem er gríðarlega mikilvæg reynsla. Þetta er fólkið sem sér heildarmyndina, hefur reynslu af því hvað virkar og hvað virkar ekki,“ segir Katrín.
Hún ræðir langtímaatvinnuleysi meðal eldra fólks og segir: „Og það er sérstaklega erfitt fyrir konur að fá vinnu eftir fimmtugt. Mun fleiri konur en karlar búa við langtímaatvinnuleysi og fá jafnvel aldrei vinnu eftir fimmtugt. Alveg sama þó þær hafi átt farsælan starfsferill og hafi góð meðmæli. Þetta á líka við um konur sem hafa góða menntun. Oft er það svo að konur í þessum aldurhópi fá ekki einu sinni svör þegar þær sækja um vinnu. Þær sækja um vinnu eftir vinnu en fá enginn svör. Þetta á auðvita líka við um karlana. Þvílíkt virðingaleysi.“
Í lok pistilsins spyr Katrín? En hvað er til ráða? Þetta er auðvitað mál sem þarf að gera samninga um á vinnumarkaði, við hið opinbera og atvinnurekendur. Verkalýðshreyfingin verður að taka þetta mál föstum tökum og leiðrétta þetta. Það ætti ekki að vera erfitt, því eins og fyrr segir tapa allir á því að fleygja fólki 50+ frá borði. Það þarf að setja málið á dagskrá og það strax. Menn þurfa að kasta milli sín hugmyndum um hver sé besta lausnin. Kannski aldurskvóti í anda kynjakvóta. Hver sem lausnin verður er ekki hægt að halda áfram þeirri reginheimsku að reka meistardeildina út af vinnumarkaði. Hér er hægt að lesa pistil Katrínar í heild.