Ríflega helmingur hlakkaði til starfslokanna

Vinnan eða starfið sem menn gegna, er snar þáttur í lífið fólks á vinnumarkaði. Það eru oft viðbrigði þegar menn hætta að vinna og fara á eftirlaun í kringum 67 ára aldurinn. Rannsókn sem var gerð við Háskólann á Akureyri árið 2007,  á hlutverkum aldraðra og reynslu þeirra af starfslokum er forvitnileg, en þar kemur fram að næstum 53% fólks hlakkaði til starfslokanna, þótt álíka margir segðust sakna félagsskaparins á vinnustaðnum. Einungis 17% þeirra sem tóku þátt í rannsókninni höfðu undirbúið starfslokin. En fók var líka spurt um hlutverkin sem það gegnir í lífinu.

Þegar hlutverk sem þátttakendur sinntu voru skoðuð með tilliti til fortíðar, nútíðar og framtíðar kom í ljós að það voru ákveðin hlutverk sem fólk hafði alltaf sinnt og reiknaði með því að sinna áfram. Þessi hlutverk voru þátttakandi í heimilishaldi, vinur, fjölskyldumeðlimur og þátttakandi í tómstundastarfi. Umsjáraðili var einnig tilgreint sem framtíðarhlutverk margra þátttakenda en ekki í eins ríkum mæli. Það vakti athygli rannsakenda að þessi hlutverk fela öll í sér félagslegt samneyti við fólk. Enginn munur var sjáanlegur þegar hlutverk kvenna og karla voru borin saman.

Konur voru sáttari við tímasetningu starfsloka sinna en karlmenn. Það voru sérstaklega þær konur sem höfðu verið í hlutastarfi fyrir starfslokin sem voru sáttar við þau enda fannst þeim starfsmannahlutverkið ekki hafa neina þýðingu. Þá voru þeir sem höfðu litla menntun eða höfðu unnið skemur en 21 ár á sama stað, sáttari við tímasetningu starfsloka sinna en aðrir. 32% karlanna sögðust hafa viljað vinna lengur en þeir gerðu, en 15% kvennanna.

Rúmlega helmingur þátttakenda (53%) hlakkaði til að láta af störfum. Það voru helst eldri karlmenn sem einkenndu þann hóp sem hlakkaði ekki til starfsloka sinna. Menntun og starfstími virtust ekki hafa áhrif á tilhlökkun þátttakenda til starfsloka og aðeins 17% höfðu undirbúið sig á einhvern hátt undir starfslokin. Alls voru 94% þátttakenda ánægðir með lífið í dag með tilliti til þeirra hlutverka sem þeir sinntu og var enginn munur á milli kynja. Þeir sem voru óánægðir áttu það allir sameiginlegt að hafa verið 21 ár eða lengur í sama starfi, höfðu unnið fullt starf og voru lítið menntaðir.

Könnunin „Hlutverk aldraðra og reynsla af starfslokum“ var gerð við Háskólann á Akureyri. Það voru Daðey Arnborg Sigþórsdóttir, Marzenna Katarzyna Cybulska og Tinna Hrönn Svavarsdóttir sem gerður hana. Spurningakönnunin var lögð fyrir 53 einstaklinga, 65 ára og eldri, sem höfðu látið af störfum vegna aldurs. Þetta voru 25 konur og 28 karlar á aldrinum 65-93ja ára. Meðalaldur þáttakenda var rúmlega 74 ár. Þátttakendur bjuggu ýmist í eigin húsnæði eða í þjónustuíbúðum, en meirihlutinn þó í eigin íbúð.

 

Ritstjórn febrúar 3, 2015 13:43