Heimildaþáttaröð um hin mörgu líf Mörthu Stewart var sýnd á bandarísku sjónvarpsstöðinni CNN nýlega. Þar er rætt við marga af nánustu samstarfsmönnum og vinum viðskiptamógúlsins og hæfileikakonunnar Mörthu en hún sjálf og hennar nánasta fjölskylda neitaði að koma í viðtal vegna þáttanna. Engu að síður verður að ætla að þeir dragi upp nokkuð heildsstæða og raunsanna mynd af henni og niðurstaðan er að Martha er óvenjulega greind, þrautseig og dugleg. Hún hefur gert alvarleg mistök en einnig tekist að afreka ótrúlega hluti.
Martha Stewart eða Kostyra fæddist ekki með silfurskeið í munni. Hún var önnur í röð sex barna þeirra Edwards og Mörthu Kostyra. Þau voru af pólskum uppruna, bæði kennarar að mennt en pabbi hennar vann lengst af sem lyfjasölumaður. Tekjur heimilisins voru ekki háar og Martha yngri hefur lýst því í viðtölum að allt hafi verið nýtt eins og hægt var. Móðir hennar kenndi henni að sauma og endurnýta gamlan fatnað. Pabbi hennar var góður garðyrkjumaður og ræktaði bæði blóm og nytjajurtir í garðinum við æskuheimilið. Á haustin tóku öll börnin þátt í að koma uppskerunni í hús, sjóða niður, sulta og sýra.
Frá unga aldri vandist Martha því að þurfa að vinna fyrir sínu. Hún var barnfóstra hjá nokkrum helstu leikmönnum hafnaboltaliðsins, New York Yankies tíu ára og var oft fengin til að skipuleggja og skreyta fyrir barnaafmæli kunningja fjölskyldunnar. Þá strax þótti hún frumleg og einkar lagin í að gera flotta hluti úr efniviði sem kostar lítið. Þrettán ára var hún farin að vinna sem módel hjá Bonwit-verslanasamsteypunni. Það leiddi til þess að hún fékk samning við umboðsskrifstofu og fimmtán ára sat hún fyrir í myndaþáttum og sjónvarpsauglýsingum fyrir nokkur af stærstu tímarit og snyrtivörufyrirtæki Bandaríkjanna.
Ætlaði að verða arkitekt
Hana dreymdi um að mennta sig og hinn virti Barnard-háskóli var óskaskólinn og það var ekki að sökum að spyrja henni tókst að komast þangað inn. Martha varð sjálf að kosta námið og það gerði hún með fyrirsætustörfum en hún náði ekki að vinna sér inn nægilega mikið til að borga heimvistargjöldin og þurfti því að taka lest að heiman frá sér á hverjum morgni í skólann og heim aftur að honum loknum. Nítján ára kynntist hún hinum tuttugu og þriggja ára Andrew Stewart og þau giftu sig í júlí árið 1961 en Martha varð tvítug í ágúst sama ár. Hann var í laganámi í Yale-háskóla og eftir að þau fóru að búa saman varð hún að ferðast í fjórar klukkustundir á dag með lestinni til að komast í skólann en þaðan lauk hún tveimur mastersprófum í listasögu og sögu arkitektúrs, árið 1963. Síðar sagði hún í viðtali að hún hefði ætlað að verða arkitekt.
Martha hélt áfram að vinna sem fyrirsæta og hún og Andrew eignuðust dótturina Alexis árið 1965. Tveimur árum síðar var bandaríski hlutabréfamarkaðurinn á mikilli siglingu og Mörthu langaði að reyna sig við verðbréfasölu. En sá hængur var á að konur voru jafn sjaldgæfar í kauphöllinni og hvítir hrafnar. Hún bað vinkonu sína að kynna sig fyrir Andy Monness, þekktum verðbréfasala, og Martha var heppin því Andy hreifst af henni og var nægilega framsýnn til að hafa trú á að konur gætu líka verið verðbréfasalar. Andy segir í þáttunum að hann hafi strax séð að hún hefði þá hæfileika sem þyrfti, hún hefði verið vingjarnleg, vel máli farin og úr fjölskyldu sem þurfti á peningum að halda. Martha sjálf hefur sagt að í kauphöllinni hafi hún lært hvernig eigi að takast á við samkeppni og hvað þyrfti til að reka fyrirtæki vel. Þar hafi hún séð hvernig góð fyrirtæki sem nutu velgengni væru uppbyggð.
Andrew og Martha voru samhent hjón og áttu mörg sameiginleg áhugamál, m.a. að fegra umhverfi sitt og gera hlutina sjálf. Andrew stofnaði eigið útgáfufyrirtæki og þegar það tók flugið keyptu þau saman gamlan bóndabæ frá árinu 1805 og hófust handa við að gera hann upp. Á lóðinni var líka hlaða sem fylgdi eigninni og hjónin lögðu nótt við dag að endurbyggja hana og innrétta. Hún skipulagði einstakan skrúð- og matjurtagarð í kringum húsið og plantaði sjálf öllum jurtunum og viðhélt þeim. Það eitt og sér er ótrúlegt afrek. Martha hafði þegar þarna var komið við sögu fengið nóg af verðbréfasölu og skynjaði sennilega einnig að hrun væri yfirvofandi. Hún hætti og stofnaði með vinkonu sinni, Normu Collier, veisluþjónustu fyrirtæki. Þær stöllur réðu til sín hóp kvenna sem áttu það sameiginlegt að hafa áhuga fyrir mat og veisluhaldi og fljótlega varð mikið meira en nóg að gera. Það var ekki hvað síst því að þakka að Martha sætti sig aldrei við lélegt hráefni. Margt kom úr hennar eigin garði en oft vaknaði hún fyrir allar aldir til að ná með þeim fyrstu á matarmarkaði New York-borgar og tryggja sér þannig ferskasta og besta hráefnið.
Vinslit og frægð
Fljótlega kom í ljós að Norma og Martha áttu ekki fyllilega skap saman þegar kom að vinnu. Normu fannst Martha erfið í samstarfi og úr varð að sú síðarnefndi keypti þá fyrrnefndu út úr fyrirtækinu. Fljótlega eftir það kviknaði sú hugmynd að skrifa bók. Martha leitaði til annarrar vinkonu, Elizabeth Hawes, og þær settu saman bókina Entertainming sem kom út árið 1982. Bókin náði strax metsölu og hið sama mátti segja um þær næstu. Af þessu leiddi að Martha fékk þá hugmynd að gefa út tímarit. Hún setti sig í samband við nokkra stærstu útgáfurisa í þeim geira en engum leist vel á fyrr en hún náði að gera samning við Time Publishing Ventures. Martha Stewart Living varð til árið 1990. Þetta var gósentíð í tímaritaútgáfu og á flestum bandarískum heimilum voru keypt á milli fjögur og fimm tímarit mánaðarlega. Martha varð fljótt meðal þeirra allra vinsælustu og á örskömmum tíma fór salan upp 2 milljónir eintaka á hverju tölublaði.
Í kjölfar velgengni tímaritanna hóf Time gerð hálftíma sjónvarpsþátta í hverri viku sem sendir voru út jafnhliða útgáfu hvers tölublaðs. Þar fór Martha nánar ofan í efnisþætti og sýndi hvernig átti að umpotta blómum, búa til blómaskreytingar, elda mat, baka, leggja á borð, búa til fallegt páska- og jólaskraut, laga eitthvað sem hafði bilað, raða upp í stofunni svo að vel færi og fleira og fleira. Hún fékk líka gjarnan í heimsókn meistarakokka, oftast lítt þekkta, og fékk þá til að elda með sér og gefa góð ráð um hvernig auðvelda mætti flóknar uppskriftir þeirra og þannig bjóða upp á ljúffengan mat heima fyrir sem jafnaðist á við það sem fékkst á fínustu veitingahúsum. Þetta sló auðvitað í gegn og Martha Stewart var orðin fræg um allan heim. Meira að segja hér á Íslandi birtust greinar í tímaritum og blöðum byggðar á hugmyndum Mörthu og gjarnan vitnað í hana ef fjallað var um veisluundirbúning.
Segja má að allt sem Martha snerti hafi orðið að gulli en einkalífið gekk ekki eins vel. Hún vann nánast allan sólarhringinn og Andrew fannst hann afskiptur. Hann leitaði huggunar í örmum starfsmanns konu sinnar, Robin Fairclough. Hjónin skildu á borði og sæng árið 1987 en skilnaðurinn gekk ekki endanlega í gegn fyrr en 1990. Martha tók hann ákaflega nærri sér og vildi allt gera til að reyna að bæta sambandið og halda hjónabandinu gangandi. Andrew fékk samþykkt nálgunarbann á fyrrum eiginkonu sína og þau hafa ekki talast við síðan árið 1988. Alexis varð eftir hjá móður sinni og þær eru mjög nánar en Andrew hefur ekkert samband við hana. Hann hefur sagt í viðtölum að valdi sér mikilli sorg en hún hafi kosið að standa með móður sinni.
Billjóner á einum degi
Martha skildi við Time-fjölmiðlafyrirtækið árið 2004 og eignaðist sjálf sitt eigið „brand“ eins og réttilega má kalla fyrirtæki hennar því það byggði að langmestu leyti á henni sjálfri, hugmyndum hennar og viðhorfum. Ellefu árum síðar setti hún fyrirtækið á markað í kauphöllinni og fékk að hringja bjöllunni á Wall Street en þegar hún hljómar má hefja viðskipti dagsins á gólfinu. Viðmiðunarverð á hlutabréfum í fyrirtæki hennar var 18 dollarar þegar viðskipti hófust en verðið hækkaði á örskotsstundu upp í 37 dollara. Martha Stewart hafði verið vellauðug þegar hún mætti á Wall Street en var billjóner þegar hún gekk þaðan út í lok dags. Engin önnur kona að Opruh Winfrey undanskilnni komst með tærnar þar sem hún hafði hælana hvað varðaði auð og áhrif í Bandaríkjunum.
Þrátt fyrir að Martha hefði sannað dugnað sinn, hæfni og sjálfstæði var hún ævinlega þyrnir í augum femínista. Þeim fannst hún leggja of mikla áherslu á eldhúsverk og þá kröfu að konur væru fullkomnar húsmæður. Þær hefðu margt annað fram að færa en að geta eldað óaðfinnanlegan mat og lagt á borð þannig að gestir gripu andann á lofti. Martha fór heldur aldrei leynt með að hún er fullkomnunarsinni og tilbúin til að leggja mjög hart að sér til að ná þeim standard sem hún telur nauðsynlegan en það kostar ómælt erfiði og iðulega meira en venjulegir einstaklingar eiga til.
Óneitanlega er þessi þversögn óþægileg að ein kona hafi með hörku og dugnaði getað komist til áhrifa og náð svo ríkulegum árangri í viðskiptalífinu með því að gera út á þá ímynd að konur eigi að vera fullkomnar hvar sem á þær er litið og geta stundað garðyrkju, reitt fram dýrinds máltíðir og staðið fyrir stórum veislum án þess að blása úr nös eða njóta aðstoðar. Sjálf segir hún að þetta snúist ekki um kröfur heldur það að njóta þess góða sem lífið hafi upp á að bjóða. Hún elski fegurðina og vilji þess vegna hjálpa öðrum til að fegra, bæta og blómstra í lífinu.
Hátt fall og upprisa
En því hærra sem fólk klífur metorðastigann því hærra er fallið þegar gæfan snýr baki við þeim. Árið 2002 tókst Mörthu að komast hjá því að tapa miklum peningum þegar hún seldi tímanlega öll bréf sín í lyfjafyrirtækinu ImClone Systems að því er talið er vegna innherjaupplýsinga sem hún fékk gegnum verðbréfamiðlara sinn Peter Bacanovic. Málið var flókið en eigandi fyrirtækisins, Samuel D. Waskal hafði verið í ástarsambandi við dóttur hennar og þau voru góðir vinir. Þetta var gríðarlegt hneyksli og bandarískir fjölmiðlar fylgdust spenntir með rannsókninni næstu þrjú árin. Martha var að lokum ákærð fyrir að hafa logið að alríkislögreglunni og hindrað framgang réttvísinnar. Hún mátti ekki vera í forsvari fyrir fyrirtæki sitt meðan á þessu stóð og steig til hliðar.
Í júní 2005 var hún dæmd til fimm mánaða fangavistar í Alderson-fangelsinu og til áframhaldandi fimm mánaða stofufangelsis heima hjá sér. Tveggja ára fangavist var svo skilorðsbundin í tvö ár. Flestir töldu að þetta væri endirinn á veldi heimilisgyðjunnar óbrigðulu og nú myndi Martha Stewart loks bogna og jafnvel brotna en annað kom á daginn. Martha gekk í öll störf í fangelsinu möglunarlaust, þreif klósett og klefa, vann í garðinum og studdi samfanga sína með ráðum og dáð. Hún kom út grennri en hún fór inn en glöð í bragði og lýsti því yfir að hún tæki nú aftur við stjórnartaumum fyrirtækis síns og ætlaði að snúa þar vörn í sókn.
Það var hins vegar of seint og Martha neyddist til að selja fyrirtækið en enn og aftur sannað þessi kona hversu fjölhæf hún er og þrautseig. Hún hóf nýjan feril í sjónvarp með lærlingsþáttum svipuðum þeim sem Donald Trump hafði verið með um árabil, tók þátt í grínþáttum og sló í gegn öllum að óvörum. Milli hennar og rapparans Snoop Dogg myndaðist í þáttunum einlæg og djúp vinátta þótt vart sé að finna ólíkara fólk. Hún og Snoop Dogg tóku síðan höndum saman og buðu upp á Martha and Snoop‘s Potluck Dinner Party, viðtals- og matreiðsluþættir sem nutu mikilla vinsælda. Ótal mörg fleiri verkefni tók hún að sér og gerði óaðfinnanlega eins og allt annað og síðasta uppátækið var að sitja fyrir á sundfötum fyrir forsíðu Sport Illustrated árið 2023 elst kvenna til að birtast í því ágæta tímariti. Þar sýndi hún og sannaði að 81 konur eru bæði sætar og sexí. Í dag rekur hún Martha Stewart Omnimedia en það er netmiðlafyrirtæki þar sem hægt er að hlusta á Mörthu, fá uppskriftir, hugmyndir og góð ráð um allt er varðar lífsstíl, mat og endurnýtingu.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.