Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar
Ég er hrædd við hunda, hef aldrei hleypt þeim inn í mitt líf og kann engin nöfn á hundategundum. Á þessu er þó ein undantekning og það er tegundin róman-tík. Rómantíkin fer ekki úr hárunum og geltir aldrei. Ég er þeirrar skoðunar að þetta fyrirbæri sé afar mikilvægt mannskepnunni, hvar sem hún er stödd á lífsleiðinni.
Ég sá mann og konu á förum vegi um daginn. Glæsilegt fólk um áttrætt, sem ég kannast vel við. Hún missti manninn fyrir nokkrum árum og hann er lengi búinn að vera einn. Þau voru greinilega að draga sig saman, eins og það var kallað í gamla daga og ljómuðu eins og sól í heiði. Skólafélagar mínir úr MA, sem voru að halda upp á 50 ára stúdentsafmæli síðast liðið vor – bæði búin að missa maka sína – slógu í gegn þegar þau komu í fordrykkinn og héldust í hendur. Þau haldast enn í hendur og ljóma.
Þessi pör vöktu mig til umhugsunar hve mikilvægt það er að eiga vin eða kærasta sem maður getur átt rómantískar stundir með. Mér finnst það ekki vera nein dyggð að sitja í sorg árum saman eftir makamissi. Eða dæma alla af hinu kyninu út frá misheppnaðri sambúð. Einhvers staðar segir að maður sé manns gaman. Því eldri sem ég verð því betur átta ég mig á þessu.
Rómantík þarf ekkert endilega að líkjast innihaldi kvikmyndarinnar Don‘t Miss the Climax, Fifty Shades Freed sem er verið að sýna um þessar mundir og þykir reyndar með leiðinlegri myndum þátt fyrir villtar ástarsenur. Rómantík getur verið að elda góðan mat saman, fara á tónleika, ferðast saman til útlanda, lesa bækur saman og gefa smá hrós þegar það á við. Ég yngist alltaf um tíu ár þegar sambýlismaðurinn segir eitthvað jákvætt um mig og hrósið endist mér allan daginn.
Ég held að rómantíkin lengi lífið, geri það litríkara og það er svo miklu skemmtilegra að hlæja saman heldur en að hlæja einn. Svo er það líka gott við þessa tík að það þarf ekki að gefa henni ormalyf eða fara með hana út í morgunsárið áður en maður hefur nokkurn áhuga á því að skríða undan heitri sænginni.