Rúmlega fimmtugum boðinn starfslokasamningur og hvað svo?

Friðbert Traustason

Friðbert Traustason formaður SSF Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, skrifar leiðara í nýjasta blað samtakanna, þar sem hvatt er til þess að „GRÁA GULLIГ sé virkjað áfram.  Þar segir hann að stundum sé eins og tíminn standi í stað og mikilvæg málefni sem í orði krefjist athafna, strandi í orðinu og komist aldrei á borðið. Hann hafi í fjölda ára reynt sitt ítrasta til að færa jafnréttisbaráttuna frá hinni hefðbundnu umræðu um jafnrétti kynjanna til víðtækari umræðu um jafnræði allra þjóðfélagsþegna óháð kyni, litarhætti, bústur og ekki síst aldri.  En gefum Friðbert orðið.

Á árunum 1990 til 1995 og aftur árin 2001-2005 bar nokkuð á æskudýrkun og leit að nýrri þekkingu og menntun, sem þeir eldri höfðu ekki, og því bar á uppsögnum og samningum um starfslok hjá eldri starfsmönnum. Við hjá SSF bentum þá strax á nauðsyn endurmenntunar og símenntunar til að efla og styrkja þá eldri og reyndari, í stað þess að kasta þekkingu þeirra, reynslu og þjónustuvilja á glæ. Fjármálafyrirtækin brugðust ágætlega við og settu kraft í fræðslumál innan hvers fyrirtækis fyrir sig.
Árið 1996 skrifaði ég grein og velti upp spurningum:
„Hvað er mannauður? Hvers virði er verkþekking, reynsla, þekking á þörfum viðskiptavinarins og þjónustulipurð? Ég spyr vegna þess að á undanförnum árum hefur mjög færst í vöxt hjá fyrirtækjum í Evrópu, m.a. hér á Íslandi, að starfsmönnum, fimmtíu ára og eldri, sé boðinn starfslokasamningur. Í stað þess að kosta upp á tveggja til þriggja ára endurmenntun fyrir starfsmann sem orðinn er eldri en fimmtíu ára, bjóða fyrirtækin eins til tveggja ára starfslokasamning.
Er ekki öllum ljóst sem þetta lesa að hér er pottur brotinn? Það er eitthvað meira en lítið að í þjóðfélagi þar sem starfsmenn verða úreltir eins og vélar. Höfum við flotið sofandi að feigðarósi? Er það virkilega eðlilegt að þekking, reynsla og dygg þjónusta við uppbyggingu þeirra fyrirtækja sem við störfum hjá sé allt í einu einskis virði, eins og hvert annað rusl, þegar tískusveiflur eða stundarhagsmunir kalla á breytingar?
Er ekki krafa allra starfsmanna að fyrirtækin og þjóðfélagið í heild komi þannig til móts við þá að þeir geti lokið ævistarfi sínu með reisn?” Því miður eiga þessi orð mín jafnvel við nú árið 2017 og þau gerðu fyrir tíu og tuttugu árum, ef marka má umræðuna í þjóðfélaginu. Þó að mörg fyrirtæki hafi sýnt samfélagslega ábyrgð og tryggt jafnræði aldurshópa er greinilega víða pottur brotinn.
Samfara hækkandi lífaldri og fækkun nýfæddra barna á fjölskyldu er ekki bara siðferðileg skylda okkar að tryggja eldri starfsmönnum áframhaldandi starf og endurmenntun meðan starfsþrek leyfir, heldur einnig nauðsyn til að viðhalda hagvexti og fjármagna velferðarkerfið á Íslandi. Það eru mikil öfugmæli stjórnmálamanna og stjórnenda atvinnulífsins að tala um nauðsynlega hækkun lífeyristökualdurs í 70 ár á sama tíma og starfsmönnum 60+ er vísað út af vinnustaðnum sökum aldurs.
Friðbert Traustason, formaður SSF

Ritstjórn apríl 18, 2017 18:27