Tengdar greinar

Stökk út í djúpu laugina og stofnaði eigin heildsölu

Birna Guðjónsdóttir hefur unnið nánast alla sína starfsævi í heildverslun við innkaup og sölu á barna- og kvenfatnaði. Fyrst hjá heildsölunni Ágústi Ármann og síðan í 15 ár hjá Halldóri Jónssyni heildverslun. Hún hefur alla tíð haft mikla ástríðu og ánægju af starfi sínu sem er fjölbreytt og kallar á mikil og góð samskipti við viðskiptavini, samstarfsfólk og erlenda birgja. Í byrjun árs 2015 kom það dýrmæta tækifæri upp í hendurnar á henni að stökkva út í djúpu laugina og stofna eigin heildverslun. Halldór Jónsson heildverslun bauð henni að taka yfir fatamerki frá erlendum birgjum sem hún hafði sinnt í mörg ár. Hún sér ekki eftir að hafa tekið það skref og er virkilega þakklát fyrir hversu mikið birgjarnir  og viðskiptavinir hafa haldið tryggð við hana áfram. Allt hefur gengið henni í haginn og nú hefur fyrirtækið hennar, BG heildverslun, verið starfrækt í eitt og hálft ár.

Birna Guðjónsdóttir

Birna Guðjónsdóttir

Átak að stofna eigið fyrirtæki

Birna sem er 58 ára gömul og ennþá full af starfsorku segir það að sjálfsögðu hafa verið umhugsunarefni hvort að nú væri tímapunkturinn að fara út í eigin rekstur og það hafi verið átak að stofna eigið fyrirtæki. Allt er þó að ganga upp og reksturinn gengur vel. Hún segist fegin að hafa ögrað sjálfri sér og gert þetta . Hver dagur er skemmtilegur og lifandi.  „Ég held að þetta hafi verið gæfuspor“.

Arndís var lærimeistari minn

Birna er með aðstöðu  í Sundaborg í sama húsi og heildsala Ágústs Ármanns var til húsa, en þar hóf hún einmitt starfsferilinn fyrir rúmum 40 árum, hjá Ágústi og Arndísi systur hans og mökum þeirra. „Það var mitt lán að byrja hjá þeim, þau voru svo yndislegir vinnuveitendur“, segir hún og bætir við að það hafi verið eins og að koma aftur heim, að hefja starfsemi í húsinu. Hún hefur haldið vinskap við þau systkini. „Ég segi að hún Arndís hafi verið lærimeistari minn . Hún stappaði í mig stálinu“, segir hún sátt og horfir út um gluggann á sundin og Esjuna.

Skúrar og keyrir út vörur

Hún, sem vann áður á 30 manna vinnustað, er núna ein á skrifstofunni og segir að ýmsir hafi haft áhyggjur af því að henni myndi leiðast, en svo sé alls ekki.  „Þetta er svo skemmtilegt að ég hlakka til að fara í vinnuna á hverjum degi. Það er gaman að hitta viðskiptavini og eiga samskipti við erlenda birgja.  Svo er þetta svo fjölbreytt, ég er að takast á við ný verkefni á hverjum degi.  Ég er ein hér og geri allt, er skúringakona, sendibílstjóri, sel vörur og annast bankaviðskipti“.

Hér er toppurinn vinsæli í svörtu, en það er líka hægt að fá hann í off-white og fölbleiku

Hér er toppurinn vinsæli í svörtu, en það er líka hægt að fá hann í off-white og fölbleiku

Sölutoppurinn í ár

„Núna var ég til dæmis að fá sumarlínuna frá kvenfatamerkinu Luxzuz & One Two. Ég fæ sýnishorn  send og síðan koma viðskiptavinirnir  og panta. Ég er líka með vörusýningar tvisvar á ári og fer á sýningar erlendis, en ég skipti mest við Danmörku“. Birna gengur að fataslánni með sumarlínunni, sem er auðvitað í ljósum og fallegum litum. Þar er meðal annars fallegur toppur með blúndu í hálsinn sem Birna segir að sé „sölutoppurinn í ár“.  Þarna er mikið af fallegum fatnaði en hún selur einnig barnaföt og bendir blaðamanni Lifðu núna á jólakjóla fyrir litlar stelpur, sem verða seldir fyrir næstu jól.

Í göngugrind á Bella Center

Þegar Birna er spurð hvað hún sjái fyrir sér að vinna lengi við heildsöluna, segir hún að á meðan heilsan sé í lagi geti hún unnið  næstu árin. „Það byggist allt á heilsunni, því þá hefur maður kraftinn til að geta unnið. Ég  segi stundum í gamni við dætur mínar að þær verða að hnippa í mig, ef ég verð farin að mæta á sýningarnar á Bella Center í Kaupmannahöfn í göngugrind!

Hér má sjá vefsíðuna hennar Birnu og líka facebook síðuna.

http://bgheildverslun.is/

https://www.facebook.com/BG-heildverslun-ehf-353146744881395/?fref=ts

 

Ritstjórn maí 13, 2016 11:57