Sængurkonusteinar

Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur

Inga Dóra Björndóttir mannfræðingur skrifar

Ég var ekki há í loftinu, þegar ég heyrði fyrst talað um sængurkonusteina. Þeir voru sérstakir steinar, sem konur settu undir koddan þegar þær lögðust á sæng, en steinninn tryggði að barnsfæðingin gengi vel, að barnið mundi lifa og móðirin líka. Ekki veitti af að beita brögðum, ungbarnadauði og fjöldi kvenna sem létust við barnsburð var mjög hár fram eftir öldum á Íslandi.

Sængurkonusteinar voru sjaldgæfir fjörusteinar, sem komu upp úr iðrum hafsins og þótti það mikil lán að finna einn slíkan, það var kjörgripur, sem var vel gætt og gekk frá manni til manns innan sömu fjölskyldunnar.  Hallfríður móðursystir mín, sem aldrei var kölluð annað en Adda, átti sængurkonustein. Hún fékk hann í brúðargjöf frá konu, sem gætti hennar sem barns og hafði tekið miklu ástfóstri við hana.  Konan hafði erft steininn, en var ógift og barnlaus, og henni fannst Öddu ekki veita af vernd og gæfu, þar sem hún hafði lent í ástandinu og gifst bandarískum hermanni og flutt með honum til Bandaríkjanna.

Það var hjá Öddu frænku í Washington D.C. sem ég sá sængurkonusteininn í fyrsta sinn. Adda geymdi hann í hvítri öskju, umvafin bómull eins og hverja aðra gersemi.  Adda lyfti steininum varlega upp úr öskjunni og lagði í lófa mér. Steininn var á stærð við lófann, ávalur og gljándi brúnn á lit og fremur léttur af steini að vera.  Adda hafði haft hann undir koddanum þegar hún átti börnin sín fjögur, og öll höfðu þau lifað af og dafnað vel og hún líka.

Mörgum árum eftir að ég handlék steininn góða var ég á ferðalagi í Flórída.  Þar rakst ég á verslun sem seldi perlur og steina til skartgripagerðar.  Ég, sem hef alltaf verið ansi veik fyrir alls kyns glingri, stóðst ekki mátið og gekk inn í búðina. Ég fór mér hægt og skoðaði mig vel um, en þegar ég var komin innst inn í búðin blasti við mér karfa, sem var full af, já nema af hverju, sængurkonusteinum. Ég var að vonum mjög undrandi yfir þessu og tók einn steininn og fór með hann til afgreiðslustúlkunnar og spurði hana hvað þetta væri.

Hún sagði mér að þetta væri fræ af tré, sem yxi í regnskógum Amazon fljótsins.Það sem gerði fræið sérstakt var að það væri fullt af lofti og flyti í sjónum og ræki síðan á fjörurnar í Flórída. Þar væri fræunum safnað og þau síðan seld til skartgripagerðar.

Í fyrstu var þetta mér ráðgáta, en svo rann upp fyrir mér að Golfstraumurinn, sem á upphaf sitt í Karabíska hafinu, rennur meðfram strönd Flórída og þaðan alla leið til Íslands.  Hann flytur ekki aðeins með sér hlýjan sjó og hlýtt loft, sem gerir Ísland byggilegt, heldur líka sængurkonusteina. Og þeir íslendingar sem voru svo lánsamir að finna þá, töldu þá vera steina, enda alls ókunnugir undrum regnskóganna. En þrátt fyrir þennan misskilning skynjuðu þeir að þessir steinar skáru sig úr og byggju yfir dularkrafti og gáfu þeim merkingu frjósemis og lífs.

Inga Dóra Björnsdóttir janúar 19, 2018 11:23