SagaMemo til að skerpa á minninu

Sigmundur Guðbjarnason fyrrverandi háskólarektor er löngu þekktur fyrir rannsóknir sínar á lækningamætti íslenskra jurta, ekki síst ætihvannarinnar. Eftir að hafa stundað rannsóknir um árabil ákvað hann í samvinnu við Þráinn Þorvaldsson, Steinþór Sigurðsson og fleiri að stofna fyrirtæki í því skyni að hagnýta þessar rannsóknir og fyrirtækið SagaMedica varð til árið 2000. Ein þekktasta náttúruvara fyrirtækisins er SagaPro sem er notað til að draga úr tíðum þvaglátum sem stundum fylgja aldrinum.

Perla Björk Egilsdóttir

Perla Björk Egilsdóttir

Miðla reynslu sinni

Þeir Þráinn og Sigmundur drógu sig í hlé frá daglegum störfum í fyrirtækinu fyrir tveimur árum og Perla Björk Egilsdóttir tók við af Þráni sem framkvæmdastjóri en Steinþór Sigurðsson varð rannsóknarstjóri SagaMedica. Þeir Sigmundur og Þráinn eru þó enn til ráðgjafar. Lifðu núna náði tali af Perlu Björk á dögunum en á þessum árstíma eru miklar annir hjá fyrirtækinu vegna undirbúnings á hráefnisöflun til framleiðslunnar, en fyrirtækið safnar hvönn meðal annars í Hrísey og í Vík í Mýrdal.

Það er mikil vinna að afla hráefnis til framleiðslunnar

Það er mikil vinna að afla hráefnis til framleiðslunnar

SagaPro rannsakað

SagaMedica framleiðir náttúruvörur en stundar ekki lyfjaframleiðslu. SagaPro hefur samt sem áður gengist undir klíniska lyfjarannsókn en SagaPro er framleitt af lyfjafyrirtæki í Danmörku. SagaPro er eina íslenska náttúruvaran sem hefur gengist undir klíníska rannsókn en hér á landi er ekki gert ráð fyrir að hægt sé að rannsaka náttúruvörur öðruvísi en í lyfjarannsóknum sem gerir það að verkum að náttúruvörur hafa hreint ekki áður verið prófaðar á Íslandi. Niðurstaða klínísku rannsóknarinnar á SagaPro var sú að efnið gagnast við tíðum þvaglátum hjá þeim undirhópi sem hafði minnkaða blöðrurýmd og voru rannsóknarniðurstöður birtar í erlendu fagtímariti á sviði læknisfræði.

Markaðir opnast erlendis

Perla segir að rannsókn af þessu tagi sé mjög dýr en Tækniþróunarsjóður hafi styrkt hana, sem hafi skipt miklu máli. „Í kjölfarið opnuðust markaðir fyrir vörur okkar erlendis, við náðum samningi við bandarískt fyrirtæki og SagaPro fékk skráningu í Kanada sem náttúruvara við tíðum þvaglátum. Árið 2013 fékk SagaPro verðlaun í Bandaríkjunum sem ein af bestu vörunum í flokki nýrra náttúruvara á markaðinum. Samið var um dreifingu í Svíþjóð og Finnlandi í fyrra og nú er verið að leggja hönd á nýja samninga í Evrópu“.

Bætir minni músa

SagaMemo er nýleg náttúruvara frá SagaMedica, sem sýnt hefur verið fram á í dýrarannsóknum að hefur minnisbætandi áhrif, en virkni þess á fólk hefur ekki verið rannsökuð. Perla segir að þetta sé mjög merkileg vara, þróuð í kjölfar rannsókna Sigmundar og Steinþórs. Þeir blönduðu saman ætihvannarfræjum og blágresi en við það magnast áhrif þessara efna upp. Blandan var prófuð á músum, eftir ákveðnu módeli og í ljós kom að efnið bætti minni músanna. SagaMedica var ekkert að flýta sér að birta niðurstöðurnar, en á meðan þær biðu birtingar, birtust þrjár greinar með sömu niðurstöðum frá mismunandi erlendum rannsóknarhópum. „Þessi lífvirkni og jákvæð áhrif á minni eru því að vekja athygli fleiri en okkar vísindamanna“, segir Perla.

Tekur teskeið af SagaMemo

Hún segir að SagaMemo sé líka til í vökvaformi. Annað hvort taki fólk eina töflu á dag, eða eina teskeið af vökvanum. Það gerir hún til dæmis sjálf, blandar einni teskeið af vökvanum út í vatn. „ Við hugsum vörurnar okkar sem forvörn og það er áhugavert í sambandi við SagaMemo að erlendir rannsóknarhópar eru nú farnir að skoða þessa sömu lífvirkni og við. Við hjá SagaMedica erum að bæta við þekkinguna og gera eitthvað nýtt, það er það sem gerir vörurnar okkar sérstakar og einstakar“.

Græna gullið

Perla segist líta á hvönnina sem „Græna gullið“ okkar og er sannfærð um að ný atvinnugrein, náttúruvöruiðnaður, sem byggi á lífvirkni íslenskrar náttúru eigi eftir að blómstra á Íslandi. Jafnframt segir hún sögu fyrirtækisins merkilega, fyrirtækið og frumkvöðlar þess séu brautryðjendur á svo mörgum sviðum. Fyrirtækið sé leiðandi í rannsóknum á lífvirkni íslenskra lækningajurta og hagnýtingu þeirra rannsókna með vöruþróun og útflutningi.

 

 

 

 

Ritstjórn maí 6, 2015 12:32