Segir „sjálfan“ satt eða hefur spegillinn rétt fyrir sér

Hefurðu einhvern tímann velt því fyrir þér hvers vegna andlit þitt lítur öðruvísi út á „sjálfu“ heldur en í spegli, spyr Julia Brucculieri í nýlegri grein á vef Huffington Post. Lifðu núna ákvað að þýða og endursegja greinina.

Julia segir að hvort sem þú ert að skoða eigin myndir eða myndir sem aðrir tóku af þér sé alltaf eitthvað sem þér finnst ekki passa þegar þú skoðar sjálfa/n þig á myndum. „Þessi ráðgáta kom mér í hug þegar ég var að skoða andlit mitt  í stækkunarspegli og komst að þeirri niðurstöðu að ég liti nógu vel út fyrir „sjálfu.“ Ég held ég hafi tekið a.m.k. 25 myndir og ég var óánægð með þær allar. Allt í einu virtist nef mitt snúið og það var allt sem ég sá á myndunum. Ég leit enn vel út í speglinum og ég furðaði mig á því hvers vegna ég næði ekki að taka góðar sjálfur af mér í símanum. Þetta á sér nokkrar skýringar. Við erum vön spegilmyndinni. Spegillinn sýnir aðra mynd en síminn. Myndin í símanum sýnir okkur eins og aðrir sjá okkur.

Eins og Nolan Feeney sagði í grein í Atlantic árið 2014 að það væri einkennilegt fyrir okkur að sjá eigin andlit „á röngunni“ því andlit okkar eru ekki fullkomlega samhverf.  Sum smáatriði raðast ekki eins upp á mynd eins og í speglinum og það veldur því að við hrökkvum við. Svo ég tali meir um eigið andlit þá tek ég aldrei eftir örlítilli skekkju á nefi mínu þegar ég lít í spegil en þegar skakka nefið vísar í hina áttina er það það fyrsta sem ég sé.

„Fólk hefur alist upp við að horfa á sig í speglinum og þess vegna trúir það því að sú mynd sé það sem aðrir sjá“ segir kanadíski ljósmyndarinn Jay Perry og hann bætir því við að „speglar ljúgi að okkur.“ Okkur líkar best við það andlit sem við erum vön. Spegilmyndin er það sem við venjumst og því verður hún sú mynd sem við tökum fram yfir aðrar, en það segir kenningin um endurtekið áreiti, en sú kenning segir að það sem við sjáum í sífellu sé það sem við venjumst og munum á endanum sættast  best við.

Að sjá sjálfa/n þig í spegli verður að fastri mynd, mynd sem þú þekkir og okkur líkar það sem við þekkjum segir Pamela Rutledge forstöðumaður Media Psychology Research Center og ljósmyndarinn Michael Levy bætir við þessa skoðun Pamelu og segir að „þegar við lítum í spegilinn horfum við mest á það sem við teljum sjálf vera okkar besta útlit, þ.e. hliðina sem við teljum fegursta.“

„Þegar þú lítur í spegil lætur undirmeðvitund þín þig snúa andliti þínu þannig að þú sért aðlaðandi í eigin augum“ segir hann en bætir því einnig við að þegar við horfum á okkur sjálf í spegli erum við að horfa á hreyfimynd en ekki kyrra ljósmynd og það er hægt að skoða hvert smáatriði á ljósmynd en í speglinum ertu alltaf á hreyfingu, og þú getur ekki grandskoðað hverst smáatriði samtímis eins og á myndinni.

Það er ekki hægt að þysja inn ( zooma inn á ákveðið svæði) í speglinum eins og á stafrænni mynd í mikilli upplausn (stækkunarspeglar geta verið öflugir en eru samt fjarri því að ná nákvæmni stafrænu ljósmyndarinnar).

Tæknin leikur líka hlutverk. Mismunandi myndavélalinsur geta haft mikil áhrif á það hvernig fólk lítur út á myndum. Perry segir að ef einhver vill líta út fyrir að vera grennri eigi að nota „langa linsu“ en ekki gleiðhornslinsur því þær láta andlit þitt líta út fyrir að vera breiðara.

Þá skiptir fjarlægð andlits frá myndavél máli. Myndavélin dregur fram það sem er næst linsunni eins og t.d. nefið. Og þegar við tökum myndirnar sjálf erum við oftast mun nær linsunni heldur en ef einhver annar er að mynda okkur.  En þegar upp er staðið stendur það eftir að útlit okkar á myndum er það sem veröldin sér. Og það er ekkert slæmt, í raun hefur verið sýnt fram á það með rannsóknum að öðru fólki líkar við þig eins og það sér þig en ekki eins og þú sérð þig sjálfa/n. Láttu bara vaða, taktu „sjálfur“ af hjartans lyst,“ segir Julia að lokum.

 

 

Ritstjórn ágúst 7, 2018 09:17